Lesbók04.06.03 — Enter

Mér hafa undanfarið borist fjölmörg bréf þar sem ég er beðinn að birta hér ritgerð mína um vestfirska vampírinn, sem birtist á sínum tíma í litlu hefti útgefnu af maltnesku vísindaakademíunni, sem nú er löngu ófáanlegt. Ég ætla mér ekki að birta ritgerðina hér í heild sinni, enda er hún við nánari athugun bæði óþarflega löng og býsna leiðinleg auk þess sem hún er skrifuð á rúmensku, sem mér er ekki lengur töm.

Mér er hins vegar ljúft og skylt að draga hér upp litla mynd af vampírnum og reyna eftir megni að gera honum skýr og áhugavekjandi skil.

Vestfirski vampírinn er önnur tveggja blóðsugutegunda sem þrifist hafa hérlendis frá landnámi, hin er Öxnadalsvampýran, sem nú er talin útdauð, enda kvefsækin með afbrigðum og bæði blind og heyrnarlaus. Vampírinn er hins vegar í fullu fjöri og er talið að stofninn telji nú um 250 dýr sem öll lifa á norðanverðum Vestfjörðum við Ísafjarðardjúp, flest í Hestfirði og í Vigur. Ekki er vitað til að vampírar hafi sést sunnar en í Hrútafirði en þar náðist einn snemma á 8. áratug síðustu aldar þar sem hann reyndi að húkka sér far til Blönduóss.

Vampírinn er upprunninn í Asíu og eru meginstofnar hans í Mongólíu og norðanverðu Indlandi. Þaðan fluttu franskir matgæðingar þá með sér til Evrópu, en heilsteiktur vampír í gráðostahlaupi þótti herramannsmatur í Frakklandi fyrir byltingu. Vampírinn er síðan talinn hafa borist hingað sjóleiðis frá Frakklandi skömmu eftir aldamótin 1800.

Íslenski stofninn hefur á óvenju skömmum tíma aðlagað sig erfiðum aðstæðum á Vestfjörðum. Ólíkt frændum hans í austri, sem eru vita hárlausir, hefur íslenski vampírinn þykkan, hárauðan hýjung um allan líkaman auk þess sem hann er töluvert stærri og getur karldýrið oft orðið rúmur metri á hæð og kvendýrið allt að 80 sentimetrum. Þá hefur stofninn hér heima óvenju mikið kuldaþol og getur auðveldlega staðið af sér hrollkaldan hríðargadd svo dögum skiptir.

Vampírinn grefur sér bæli djúpt í jörðu enda þolir hann illa dagsbirtu og þarf því að hafast við neðanjarðar mestan part sumars. Hýbýli vampírsins eru einföld og yfirleitt smekklega leyst, sjálft hreiðrið er innst, þá svefnkrókur fyrir fullorðnu dýrin og eldunaraðstaða - og svo gjarnan lítið anddyri yst þar sem hengja má yfirhafnir og geyma rusl og annað smálegt.

Egg vampírsins (3-5) klekjast venjulega í lok maímánuðar og hafast ungarnir við í hreiðrinu fram í byrjun september. Á þeim tíma nærast þeir á móðurmjólk blandaðri krækiberjasaft og fá undirstöðukennslu í sagn- og siðfræði vampíra, erfða- líffæra- og lífefnafræði auk þess sem þeir læra flestir að lesa og draga til stafs. Á haustin tekur karldýrið ungana út undir bert loft og tekur þá við tveggja mánaða ströng þjálfun í herkænsku og bardagatækni. Megináhersla er á Tae Kwon Do, Aikido og Pentjak Silat en íslensk glíma hefur orðið fyrirferðarmeiri og notið æ meiri vinsælda í seinni tíð. Þá er farið í meðferð eggvopna, gildrugerð og klæðaburð auk þess sem rík áhersla er lögð á almenna tannhirðu.

Fullvaxinn vampír lifir eingöngu á heitu blóði og þarf því að veiða sér til matar, hann er þó furðu nægjusamur og getur vænn sauður eða selur dugað einu heimili í marga mánuði, sé hann rétt verkaður - það er þó æ sjaldnar sem slíkar krásir rekur á fjörur vampíra og því lifa þeir að mestu á hagamúsum, hröfnum og snjótittlingum. Fá dæmi eru um að vampírar leggist á menn nema í ítrustu neyð, en þeir eru þó óhræddir að verja sig telji þeir öryggi sínu ógnað og því hafa margir fjallagarpar og jafnvel vélsleðamenn orðið illa úti hafi þeir hætt sér of nærri vampírsgreni. Stöku vampírar hafa þó komist upp á bragðið af mannablóði og eiga það til að herja með skærum og áhlaupum á bæi við Ísafjarðardjúp og hafa á brott með sér ferska bráð - oftast börn og gamalmenni, en einnig eru hreinar meyjar í uppáhaldi þó sjaldgæfar séu svo norðarlega á landinu.

Fátt bendir til annars en vestfirski vampírinn sé kominn til að vera, stofninn er hraustur og í góðu jafnvægi. Fái hann að vera í friði ætti hann að ná að dafna og jafnvel breiðast út til annarra landshluta. Vampírinn hefur í seinni tíð orðið meðvitaðri um stöðu sína í íslensku samfélagi og háværar raddir eru innan stofnsins um að láta meir að sér kveða í íslenskri þjóðmálaumræðu. Stjórnvöld hafa hingað til sýnt þeim lítinn skilning og jafnvel reynt að útrýma stofninum, bæði með eitri og skipulögðum ofsóknum - en það virðist þó eitthvað vera að breytast því í síðustu viku fengu allir vampírar gefins GSM síma og litla rakvél frá Byggðastofnun.

 
Spesi — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Dr. Herbert — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Spesi — Forystugrein
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Myglar — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 9, 10, 11