Lesbók15.06.03 — Enter

Ég fór að sjá framhald leikfimiævintýrsins The Matrix. Wachowski-bræðurnir halda hér áfram að glíma við framtíðarsýn sína þar sem vélar ráða heiminum og halda meginþorra mannkyns föngnum í sultukrukkum. Þetta gekk ágætlega upp í fyrstu myndinni enda áhorfendur þá of uppteknir við að slefa yfir nýmóðins tæknisvallinu til að kafa í fléttuna.

Það sama virðist því miður uppi á teningnum hjá þeim Varsjár-bræðrum, því sannast sagna er handritið skelfilegt. Persónusköpun að megninu til í höndum búningahönnuða og fléttan er tætingsleg, óspennandi og í raun aðeins vandræðaleg umgjörð um stílíseraðan græjuhasar og tölvufitl.

Milli þess sem sögupersónur dansa upp veggi og lúskra á hver annarri á mismunandi hraða þarf maður að þola atriði eftir atriði þar hinar ýmsu persónur reyna að réttlæta tilvist sína á tjaldinu. Bersýnilegt er hvorki leikararæksnin né handritshöfundar hafa glóru um hvernig á að útskýra sögufléttuna fyrir áhorfendum á sannfærandi hátt, en þó snýst megnið af samtölum myndarinnar um það. Eftir japl, jaml og töluvert fuður enda því flestar samræður í rökþroti og útúrsnúngum - og oftast er klykkt út með einhvers konar vísdómsspeki, sem er svo þunn og gagnsæ að sellófanhimna fengi mikilmennskukast í samanburðinum.

En jæja, hver þarf svosum söguþráð þegar hægt er að láta menn fljúga, sprengja upp háhýsi og fullt, fullt, fullt af bílum.

Leikaraliðið er sem áður segir dulítið ráðvillt allan tímann. Líbaninn Keanu Reeves og Kanadakvendið Carrie-Anne Moss álpast einhvernvegin gegnum hlutverk sín sem sirkusparið Neó og Þrínitý, hann í fallegum, skósíðum samkvæmiskjól og hún í svörtum ruslapoka, teknum saman í mittið. Laurence Fishburne túlkar Morfeus með samanherptum angistarsvip harðlífis og magatruflanna, auk þess sem hann er nú vopnaður myndarlegri ístru, sem dregur heldur úr tignarleik æfinga hans á tvíslá og hesti. Hjónakornin Monica Bellucci, sem deilir barmi sínum af miklu örlæti með áhorfendum og tilgerðarleg frakkadula sem kallar sig Lambert Wilson hafa engan sýnilegan tilgang annan en að tefja myndina og Becham-klipptir skósveinar þeirra mæta til leiks með þetta grænbláa element sem vantaði svo sárlega í leikmyndina í fyrstu myndinni. Húgó Weaving stóð sig að ég held með ágætum, að venju, þó ég þurfi sennilega að sjá myndina sirka 20 sinnum aftur til að vera dómbær á það (sem ég mun ekki gera).

Þetta tekur þó allt fljótt af og áður en varir er myndin búin, þ.e.a.s. þessi skammtur. Myndin er nefnilega alls ekki búin og benda framleiðendur vinsamlega á að von sé á öðrum skammti innan tíðar. Ég fékk þarna óneitanlega á tilfinninguna að ég hefði borgað mig inn á ódýra sápuóperu og ætti að mæta aftur á morgun á sama tíma til að sjá meira - af engu.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182