Lesbók09.05.03 — Enter

Á morgun göngum við til kosninga. Allir sem eitthvað halda sig storma á kjörstað, klessa exi við sinn hjartans flokk og planta sér síðan við næsta sjónvarp í von um að þetta litla framlag þeirra forði eyjarræksninu okkar frá glötun næstu fjögur árin. Lýðræði í sinni hreinustu mynd.

Lýðræði. Svei. Það er svosum góðra gjalda vert, eins langt og það nær, en það þarf enginn að segja mér að það þurfi að iðka það svona déskoti oft?

Ég er nefnilega búinn að kjósa. Oft. Ég kaus fyrir fjórum árum. Ég kaus fyrir átta árum og þannig koll af kolli - ég úthlutaði atkvæði mínu þegar ég fékk kosningarétt. Af hverju þarf ég þá að rífa mig upp ár eftir ár eftir ár, standa í biðröð aftan við rassþykkar húsmæður og kjaftagleiða andremmupredikara og bíða eftir því að hlandskorpin gamalmenni nái taki á blýantinum inní kjörklefanum?

Maður fermist bara einu sinni. Staðfestir trú sína og þar við situr - síðan ef guð fer í taugarnar á manni skiptir maður einfaldlega um trúfélag , eða skilar auðu. Maður þarf ekki að klessa sér í kirtil og rifja upp faðirvorið í hvert einasta sinn sem nýtt prestskvikindi birtist í sókninni. Einu sinni tók ég líka bílpróf - en ég hef verið blessunarlega laus við að þurfa að rifja upp umferðareglurnar við hlið svitaklepraðs káfsjúklings í hvert sinn sem mér hugnast að kaupa mér nýjan Tojót!

Þegar maður er fermdur fær maður þó gjafir, við ökurétt fær maður máske bíl - hvað fá kjósendur? Jú þeir fá ókeypis sirkús!

Ég ætla ekki að þjaka ykkur með lýsingaskrumi og tilfinningahita, en ég vil þó koma því á framfæri hér og nú að ég hata kosningabaráttu, ég hef á henni djúpstæða viðurstyggð og einlæga óbeit. Hvað er eiginlega með þessa þingmenn? - á þetta fólk ekki að vera í vinnunni? Allur þessi grámygldi ráðherrafloti, er hann bara í fríi? Hafa þessi brosfrystu frambjóðendaskrípi ekkert betra að gera en að glenna sig framan í misvitra blaðasnápa og ljósalegin sjónvarpsstirni?

Svei mér þá - halda þessir erkiapar að atkvæði mitt, heimsmynd og hugsýn, riði til falls með því að góna á dragtskrýddar flokkapíkur og bindisreyrða valdasjúklinga romsa út úr sér hálfkveðnum vísum? Hvað vilja þeir að ég kjósi? Bindishnúta? Augnskugga? Málfar og tannhirðu? Nei, ég kýs málefni - mér er dauðansdrullusama hvaða trúðar þjarka frumvörpum gegnum þingið, þetta eru opinberir starfsmenn - og ég hef aldrei gert sérstakar kröfur til mannkosta þeirra. Ég geri aftur á móti kröfu til míns flokks um að móta sér stefnu, framfylgja henni og hrinda til framkvæmda.

Ég úthlutaði mínu atkvæði snemma og þar við situr, þó ég þurfi ítrekað að staðfesta skírn mína frammi fyrir hráksmíðuðum kjörkössum. Eftir 30-50 ár, þegar Davíð loks leggur ermahnappana á hilluna, mun ég ef til vill íhuga að snúa mínu atkvæði annað. Þá vil ég gjarnan gera það símleiðis.

 
Spesi — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Dr. Herbert — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Spesi — Forystugrein
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Myglar — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 9, 10, 11