Lesbók18.04.03 — Enter

Sjávarsvampurinn, ein furðuskepna hafdjúpanna sem liggur hreyfingalaus á hafsbotni í laginu líkt og lúffa eða hanski - og er af íslenskri orðdirfsku og hugfimi nefndur njarðarvöttur (sem útleggst sem vettlingur sjávargoðsins Njarðar). Mér varð hugsað til hans í dag.

Afhverju? Svampdýr lifa að jafnaði ekki sérlega spennandi eða athygliverðu lífi. Þessir hæversku hryggleysingjar una hag sínum dável, grónir fastir við hafsbotninn, sötra sinn sjó og eru almennt lausir við amstur og vafstur heimsins.

Nema í dag, föstudaginn langa.

Föstudagurinn langi. Þegar Pílatus þvoði sér loksins um hendurnar og Kristur burðaðist með tréverkið upp á Hauskúpuhól, þegar bingóspjöldum er snúið á hvolf og danssölum læst, þegar niðurdregnir fánar blakta við hverja bensínstöð, þegar sannkristnir hýða börn sín - ærðir og píndir af kjötþorsta föstunnar, þegar útvarpið stynur upp grátklökkum passíusálmum og prestar titra af sorg.

Föstudagurinn langi. Þegar svampdýrin gráta.

Í 600 milljónir ára lágu þau óáreitt, eldri og einfaldari öðrum dýrum, engum til ama. Þangað til einn örlagaríkan dag, föstudag, að Jesú nokkurn þyrsti. Hjóp þá nærstaddur áhugamaður um opinberar aftökur til, greip blásaklausan njarðarvött og rak á kaf í edikfötu, festi á spýtu og otaði framan í verðandi frelsara þar til hann öskraði af sársauka og gaf upp andann (Matt 27:48-49).

Æ síðan þjást vesalings svampdýrin af yfirþyrmandi samviskubiti og nötrandi harmi á þessum degi, enda óvenju litlar sálir sem síst allra áttu von á að valda dauða sjálfs Messíasar. Því liggja þau venju fremur hreyfingalaus og hljóð allan daginn og óska sér helst að hverfa með öllu.

Sú þrá verður, segir sagan, svo firnasterk að á kvöldin spretta af þeim grjóthörð, lifrauð tár, sem stöku sinnum rekur á land. Það kalla menn hulinhjálmsstein.

 
Spesi — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Dr. Herbert — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Spesi — Forystugrein
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Myglar — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 9, 10, 11