Lesbók03.03.03 — Númi Fannsker

Á laugardagskvöld bauð virtur enskur fræðimaður mér að slást í hóp með honum sjálfum og nokkrum "séntilmönnum" enskum sem voru hér staddir yfir helgina. Sjálfur er fræðimaður þessi hinn spakasti og ber að taka fram strax að hann tók á engan hátt þátt í athæfi félaga sinna, sem lýst er hér á eftir. Hópurinn kom sér fyrir á öldurhúsi í Reykjavík og sat við drykkju og spjall. Leist mér ágætlega á hópinn, enda mennirnir vel lesnir og hinir prúðustu. Þegar líða tók á kvöldið og gestir tóku að streyma inn á staðinn kom hið sanna eðli hinna ensku þó í ljós.

Svo virðist nefnilega sem kvenfólk fyrirfinnist ekki á Englandi slík voru viðbrögðin þegar þeir ensku komu auga á kvenkyns gesti öldurhússins, sem skiptu mörgum tugum. Gerðu þeir hróp að stúlkunum, gripu um hreðjar sér og ýlfruðu, mönuðu hver annan að láta nú hendur standa fram úr ermum og "kenna stúlkunum lexíu sem þær aldrei gleymdu". Ég verð að segja að mér var nokkuð brugðið við þetta sjónarspil en mest brá mér þó þegar stúlkurnar tóku undir ólætin. Flissuðu feimnislega og bentu á slefandi Englendingana, tóku jafnvel að glenna sig og dansa glyðrulega táldansa.

Nú hefi ég heyrt getið um ósmekklega markaðssetningu á ferðum til Íslands, þar sem höfðað er til hreðja en ekki heila viðskiptavinanna - eftir að hafa orðið vitni að hegðun "markhópsins" þykir mér ekki mikið til hans koma og get ekki ímyndað mér að mikið muni um þá aura sem þeir eyða hér í öl og hamborgara. Auk þess er við því að búast að þeir beri í íslenskt kvenfólk hverskyns næma sjúkdóma eins og fransós, kláðamaura og guð má vita hvað annað. Ekki verður þó litið hjá hegðun reykvískra kvenna, sem virðast gera allt til að viðhalda því ljóta orði sem af þeim fer á erlendri grund og reyndar er spurning hvort hægt sé að gagnrýna ferðaskrifstofur og flugfélög sem benda erlendum sóðapésum á óumdeilanlegt lauslæti íslenskra kvenna.

Sjálfur drakk ég fáeina bjóra og kynntist síðar um kvöldið hollenskum myntsafnara sem vildi ólmur kaupa af mér túkallasafnið mitt - sem er býsna stórt.

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182