Lesbók28.02.03 — Spesi

Mikið er ég ánægður með mína menn hjá Flugleiðum. Það mátti ekki miklu muna að illa færi í dag og voru það aðeins skjót viðbrögð skeleggrar markaðsdeildarinnar sem björguðu fyrirtækinu frá hinni mestu skömm.

Eins og kunnugt er hafa Flugleiðir átt undir högg að sækja að undanföru vegna ásóknar ýmissa misheiðarlegra flugfélaga sem bjóða grunlausum almúganum glópagull og velgjugræna skóga og segjast hafa á takteinum betri kjör en áður hafa sést. Heyr á endemi! Hafa Flugleiðir ekki alla tíð kappkostað að bjóða viðskiptavinum sínum sem ódýrust fargjöld í bland við fagmannlega þjónustu og einstakt öryggi í háloftunum?!

Nýjasta dæmið um þessar afætur er Iceland Express, flugfélag sem augljóslega hefir einsett sér að draga flugmarkaðinn niður í eins drullugt svað og mögulegt er. Morgunblaðið birti í dag litla grein á síðu 4 um fyrstu áætlunarferð þessa smánarlega félags og með henni mynd af glöðum farþegum að stíga frá borði. Og hví voru þeir glaðir? Máske vegna þess að þeir komust sæmilega heilir á leiðarenda í þessari fornfálegu rellu? Ætli það geti verið? Sjálfur hefði ég væntanlega farið niður á knén og kysst og faðmað olíuborið malbikið á flugvellinum, hefði ég einhvern tímann verið prettaður í glæfraför sem þessa. En hvað um það: Fréttin var öll hin jákvæðasta fyrir flugfélagið og um leið prýðisgóð auglýsing.

En hinir knáu starfsmenn markaðsdeildar Flugleiða brugðust hins vegar skjótt við. Ekki aðeins náðu þeir að koma inn frétt á forsíðu og síðu 18 um stórfellt batnandi afkomu fyrirtækisins, heldur tryggðu þeir sér einnig skemmtilega heilsíðuauglýsingu þar sem fram kom á hversu stórkostlega broslegu verði fargjöld þeirra eru. Og til að kóróna allt birtist auglýsingin á síðu 5 - beint á móti litlu klausunni um Iceland Express! Já, þetta kalla ég fagmannleg og heiðarleg vinnubrögð; að drekkja hreinlega samkeppninni í umfjöllun!

Líklega hefir hurð sjaldan skollið eins nærri hælum og nú, en þökk sé því frábæra fagfólki sem starfar hjá þessu einu mesta fyrirtæki landsins geta Flugleiðamenn nú varpað öndinni léttar - í bili að minnsta kosti. Það er því ljóst að enn er unnið skilvirkt starf innan veggja Flugleiða og mun ég því halda sem fastast í hlut minn í fyrirtækinu - og hvet ég landsmenn til að gera slíkt hið sama. Þá þarf ég vart að taka fram að aldrei mun ég ferðast með öðru félagi en Flugleiðum og vona ég af heilum hug að landsmenn fylgi því fordæmi mínu.

 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 180, 181, 182