Lesbók24.12.01 — Númi Fannsker

Vegna yfirvofandi jóla birti ég hér brot úr seytjánda kapítula ævisögu minnar, en þar er einmitt fjallað lítillega um jól á bernskuheimili mínu í Næfurfirði á Söndum. Gleðilega hátíð vinir mínir!

Seytjándi kapítuli
Jól í firði
-Úr sjálfsævisögu Núma Fannskers-

Móðir mín var alltaf dulítið sérvitur þegar kom að jólaundirbúningi. T.d. mátti enginn hjálpa til við þrif, bakstur né annað sem nauðsyn var að framkvæma. Hún vildi gera allt sjálf, hvort heldur var að skera hár barna sinna eða mála stofuna. Pabbi var iðulega í essinu sínu í desember vegna þess að hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af nokkrum sköpuðum hlut eftir vinnu. Mamma gerði allt og bannaði honum í þokkabót að hjálpa til eða gera nokkuð upp á eigin spýtur.

Mér eru minnisstæð jólin 1936 þegar faðir minn kom heim forugur upp fyrir haus á Þorláksmessu að lokinni vel heppnaðri fjöldagreftrun í kjölfar berklafaraldurs í firðinum. Pabbi var sumsé meðhjálpari og grafari, auk þess sem hann söng í kórnum og ók líkvagninum. Stundum messaði hann yfir fjarðarbúum þegar presturinn, séra Hannes, var vant við látinn vegna helsta áhugamáls síns, áts, en honum varð oft misdægurt fyrir þyngdar sakir. En þarna stóð sumsé Fannar, faðir minn, í forstofunni og lak bókstaflega af honum leðjan. Sá munur var á aðstæðum í firðinum okkar og nágranna okkar að við höfðum yfir jarðvarma að ráða. Því fraus jörð aldrei í kirkjugarðinum okkar, og kom sér afar vel á veturna að þurfa ekki að láta lík standa til vors, eins og tíðkaðist mjög til sveita í þá daga. Faðir minn blístraði gjarnan lagstúf meðan hann afklæddist að loknum vinnudegi, það gerði hann og í þetta sinn, jólasálm númer 213, Þú dýrðar minnar jólaskraut. Svo mælti hann: Mikill dýrðarinnar dagur er þetta nú Þóra mín, 12 komnir niður í hveraleðjuna í kirkjugarðinum á Reykjamýri. Það var sérstaklega mikið líf í leirnum, stóðu meira að segja gusurnar upp úr gamla grafreitnum þeirra Stærigerðismanna, kemur sosum ekki á óvart að hitni undir þeim bölvuðum hahahaha! - Fannskersfjölskyldan hafði átt í erjum við Stærigerðisfólkið síðan land var numið í firðinum. Nú var ekki nema tvennt eftir þar á bæ, hinum átta hafði faðir minn holað samviskusamlega niður í hveraleirinn á Reykjamýri.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182