Lesbók17.02.03 — Enter

Já við félagarnir skelltum okkur á undankeppni júróvisjóns. Megintilgangurinn var að hvetja okkar mann, Karl Olgeirsson - en honum var því miður ekki ætlaður sigur að þessu sinni.

Sigurlagið var með því tíkarlegasta sem íslensk dægurmenning hefur alið, en óaðfinnanlega flutt af poppdrottningunni Birgittu Haukdal. Hún er einkar glæsileg á sviði, kraftmikil og örugg - sannarlega glæsilegur fulltrúi Íslands og á efalítið eftir að forða þessum óhrjálega lagstúf frá niðurlægingu botnsætisins í Eistlandi.

Fleiri áttu góðan dag, Botnleðja var unaðslega óforskömmuð, ununarheiðan skoppaði glettin um sviðið líkt og yfirmáta hamingjusamur auðnutittlingur og hin draumkennda Eivör Pálsdóttir lagði færeyskan galdur á þjóðina. Aðrir voru vel yfir meðallagi þolanlegir og jafnvel klofglenntir kynnarnir náðu að kreista fram bros.

Eftir að hafa pirrað sig á úrslitunum og snýtt sér vel voru léttar veitingar þegnar. Myglar rauk heim til að hlusta á fréttirnar og Spesi hvarf niður í kjallara í leit að "lonníettunum sínum". Við Númi komum okkur aftur á móti þægilega fyrir upp við kókvélina og komumst að nokkrum laufléttum snöfsum torguðum í dágóðan gír. Dunduðum okkur meðal annars við að finna dónalegustu snittuna og hlæja óþarflega hátt að nýju klippingunni hans Eyfa. - Við urðum sífellt skemmtilegri og eftir að Spesi bættist í hópinn móður og másandi vorum við hreinlega miðpunktur athyglinnar. Hápunkturinn var sennilega þegar við læstum Markús Örn inní poppvélinni. En allt tekur enda og eftir að hafa látið nokkra vandlega valda Færeyjabrandara fjúka í þolinmóð eyru Eyvarar Pálsdóttur ásamt því að reyna ítrekað að hnupla verðlaunastyttunni af rollulegum sigurvegaranum var okkur vísað kurteislega á dyr.

Við tók skipuleg ölvun sem endaði eftir því sem næst verður komist undir borði á veitingahúsinu Einari Ben. Þetta var bærileg skemmtun, en ég vona þó svo sannarlega að þetta verði í síðasta sinn sem ég vakna bæði við hliðina á Stebba Hilmars og Selmu.

 
Kaktuz — Saga
 
Kaktuz — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Fannar Númason Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
        1, 2, 3 ... , 180, 181, 182