Lesbók06.01.03 — Spesi

Bókin Artemis Fowl - Samsærið fjallar um vandræðaungling að nafni Artemis Fowl sem tekið hefur við glæpaveldi föður síns eftir dularfullt hvarf hans og stjórnað því með góðum árangri í tvö ár. Allan þennan tíma hefur hann einnig unnið að því að komast að því hver raunveruleg örlög föður síns voru og hvort hann sé raunverulega látinn eins og talið hefur verið. Sér til aðstoðar við þetta hefur hann afar vel þjálfaðan lífvörð sinn (líklega órangútanapa, þó hvergi komi það fram) sem og snilligáfu sína sem lætur menn eins og Albert Einstein og Niels Bohr líta út eins og illa gefnar hænur með hugmyndaafl á við lampa. Í söguna blandast einnig hópur álfa sem halda til undir jörðinni og eiga í sinni eigin baráttu við ill öfl innan sinna raða.

Þó að bók þessi sé skemmtileg aflestrar er hún þó engan veginn gallalaus. Meðal helstu galla sögunnar er hve ótrúverðug hún er. Til dæmis kemur fram í bókinni að Artemis hafi falsað á annan tug málverka frá tímum impressjónista. Augljóst má hins vegar vera að drengur eins og Artemis er lýst hefði án vafa valið sér viðfangsefni frá tímum endurreisnarinnar. Þykir mér þetta bera því vitni að höfundur hafi á köflum kastað nokkuð til höndunum við sköpun annars trúverðugrar sögu og sögupersóna.

Þá er sagan einnig afar ruglingsleg. Í henni er t.d. stöðugt klifað á alls kyns lítt gleðilegum atburðum sem eiga að hafa átt sér stað um ári áður. Svo virðist sem atburðir þessir hafi valdið því að einhvers konar kynni tókust með Artemis og álfunum og eru samskipti þeirra síður en svo vinsamleg af þeim sökum. Hefði kannske betur farið á að fjalla nánar um þessa atburði, jafnvel í aðskildri bók sem hefði mátt gefa út á undan þessari.

Eins og áður sagði er bókin þó töluvert skemmtileg aflestrar og ef litið er fram hjá áðurnefndum göllum hennar má hafa af henni mikla ánægju í þær tvær klukkustundir sem tekur að lesa 288 blaðsíður hennar.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182