Lesbók28.11.14 — Enter

Þið þarna.
Vinsamlegast hættið að segja mér að vera hræddur.

Hættið að segja mér að vera hræddur við mat. Sykur, hveiti, fitu, glúten, alkóhól og mjólk. Ég ét það sem mér sýnist. Ég drekk það sem mér sýnist. Ég er þá bara það sem ég ét. Ég á það bara við spegilinn minn. Og klósettið.

Hættið að segja mér að vera hræddur við veðrið. Rigningu, snjókomu, fjúk, hálku og rok. Ég skal passa mig á trampólínunum. Ég á pollagalla. Ég þoli frost.

Hættið að segja mér að vera hræddur við sjúkdóma. Ebólur, eyðnir, fuglaflensur, svínakvef og hverskyns svartadauða. Ég skal taka lýsi. Ég skal ekki drýgja hór með ókunnugum hráum kjúklingum.

Hættið að segja mér að vera hræddur við hryðjuverk. Háhýsasprengjur, bílabombur, flugdólga, mannræningja og allrahanda mannfýlur. Ég vil vera í skónum mínum þegar ég spring. Takk. Og ég vil þekkja óvininn.

Hættið að segja mér að vera hræddur við útlendinga. Ég er útlendingur. Mjög víða. Ég er ekki hræðilegur. Auk þess eru hinir útlendingarnir fleiri og betri en við. Allavega ég.

Hættið að segja mér að vera hræddur við fjármál. Og verðbólgu. Og bólur. Og fasteignaverð. Og evrur. Og alla hina fjármálafroðuna sem ekkert er nema loft í iðrum uppþembds ofalins kerfis. Fjármál eru fjármál. Ekki afþreying.

Hættið að segja mér að vera hræddur við borgina. Djammið. Drykkjuna. Drullusokkana. Dólgana. Drykkina. Reykjavík þarf ekki að vera borg óttans. Eða kvíðans. Hún þarf bara samúð. Reyndar slatta.

Hættið að segja mér að vera hræddur við netið. Vírusa, netþrjóta, leka, heimabankaræningja og sæstrengjabrúður. Netið er það besta sem hefur komið fyrir okkur síðan salernispappírinn. Megi það verða til svipaðs gagns.

Hættið að segja mér að vera hræddur við breytingar. Þróun, útúrdúra, u–beygjur, rökvillur, byltingar og blæbrigði. Við erum breytingum háð. Við erum fíklar. Og við megum aldrei fara í afeitrun. ALdrei.

Hættið að segja mér að vera hræddur við hið óþekkta. Trúleysið, tilvistarleysið, lánleysið, náttúruleysið, vonleysið, allsleysið. Við eigum ekki tilkall til neins. Tökum því sem að höndum ber. Tökum því öllu.

Ég vil ekki vera hræddur
Ég ætla ekki að vera hræddur.

Ég er Albin.
Og Albin er aldrei hræddur.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182