Lesbók07.10.12 — Enter

Ég brá mér í gler- og glaumhýsið Hörpu um helgina til að horfa á hina sí- og ægildu Stuðmenn fagna 30 ára afmæli kvikmyndarinnar „Með allt á hreinu“.

Mikið var það gaman.

Þessu grundvallarverki íslenskrar menningarsögu voru gerð viðeigandi og einkar fullnægjandi skil á tveimur og hálfri klukkustund, eða svo. Allflest lögin úr myndinni og nokkur að auki, fengu að hljóma á sviðinu, oft í óvæntum búningi.

Leikfolinn Jóhannes Haukur sá um leikræna uppfyllingu og gerði það vel, karlakórinn Fóstbræður fyllti upp í hljóm í tveimur lögum, þrjár gærur rödduðu og skræktu af innlifun og meir að segja Dúddi mætti á svæðið, skreyttur eftirminnilegustu kjúklingabringu síðari tíma.

Og það var hrein unun að fylgjast með sveitinni að störfum.

Tvær grunnstoðir íslenskrar dægurtónlistar, Ásgeir og Tómas Magnús stóðu hrynpliktina af slíkri fag- og töframennsku að stirðustu og staðföstustu mjaðmir höfðu vart undan að dilla sér í takt.

Guðmundur Pétursson, hljóp á harðaspretti í illfyllanlegt skarð Þórðar – og leysti verkefnið af stakri prýði og yfirvegun, enda með heildarverk sveitarinnar kyrfilega innprentað í fingurgóma og blandað blóðsykrinum.

Valgeir mætti langþráður til leiks, eins og lítið sem ekkert hefði í skorist, stóð sposkur í báða fætur, reytti af sér ísmeygileg gamanmál, kitlaði glitrandi gítarinn og salinn á víxl og tók sóló með valgeirskan stút á vör.

Ragnhildur steig á stokk, blá og illileg, gæruklædd og stíðsmáluð, ásamt skrækjandi skjaldmeyjum. Hún söng eins og margfallinn engill og fór á algerum kostum í Grýlulögunum og endurskilgreindi íslenska kúlið ítrekað á sviðinu.

Egill brá sér í líkama sér umtalsvert yngri og léttfættari manns, teygði og togaði silfurslegin raddböndin og þandi gullhúðaðan barkann þannig að gæsahúðarstuðull Eldborgar rauk hátt upp fyrir kjötkælinn í Bónus.

Á bak við þetta sat svo Frímann á hásæti sínu, hnarreistur og hofmæltur, umkringdur hvers kyns gælugervlum og rafknúnum orgelum – potturinn, pannan og allflest hin áhöldin að baki þessu gnægtaborði í Hörpu.

Já. Ég var hrifinn. Mjög, meir að segja. Enda nostalgían langt yfir viðmiðunarmörkum og eftirvæntingin umtalsverð. En þetta er líka mannskapur sem kann að standa undir væntingum. Hefur hendi fulla trompum að spila úr. Veit hvað það er að gera – og hvernig á að gera það. Með allt á hreinu.

Fagmenn í stuði.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182