Lesbók14.04.12 — Enter

Ég gerði undantekningu frá sjálfskipaðri kvikmyndahúsaútlegð minni í kvöld. En ég er sumsé orðinn að mestu frábitinn þeirri fyrrum anganiðju minni, eftir að mér var uppálagt að sitja með fánalegar skynvillusólbrillur undir auglýsingaflóði, símatísti og unglingagargi í hávaðauppþembdum poppangandi flónelgeymum, til þess eins að verða fyrir síendurteknum vonbrigðum og staðfestingu á hnignun mannsandans.

En hvað um það. Ég fór sumsagt að sjá finnskættuðu kvikmyndina Iron sky, eða Járnloft í leikstjórn hins kornunga Timo Vuorensola, eftir handriti nokkurra hressra Finna.

Myndin er í sem stystu máli það langfremsta, fegursta og fullkomnasta sem kvikmyndalistin hefur getið af sér frá upphafi.

Ekki nóg með að í henni séu óðir tunglnasistar, albínóablökkumaður, geimloftskip og brókarsýktur markaðsfræðingur heldur er þar líka að finna dásamlega samsett samtöl, firrta fléttu, sprúðlandi húmör og sjaldséðan sárstingandi brodd.

Og til að hafa það a hreinu, þá er ekki um að ræða neinn aukvisabrag eða nánasarhátt á leikmynd, brellum og búningum. Ekkert miðevrópskt moðsoðið miðjumoð, heldur alvöru sprengjur, alvöru þýska og alvöru snjáð tunglnasistaklæði.

Miðað við meðferðina á kapítalinu þá er raunar magnað að þessi mynd hafi verið fjármögnuð yfirleitt. Það þurfti enda að leita að auraflæði í myndina alla leið til Ástralíu. Og eitthvað segir mér að stóra Eplið í vestri hafi ekki lagt til mikinn pening í púkkið.

Ég hlýt því að mæla hiklaust og ofsafengið með þessari mynd fyrir alla sanna unnendur kvikmyndalista, nasisma, tísku og markaðsfræða. Að ekki sé talað um sjúklega smartra geimmannvirkja og -drápstóla.

Heill Finnlandi!

 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Spesi — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Enter — Gagnrýni
 
Spesi — Gagnrýni
 
     1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10