Lesbók04.04.11 — Enter

Óskaplega var það nú vel til fundið að leyfa þessari blessuðu þjóð okkar að kjósa um Icesave.

Það er nú aldeilis eitthvað sem hún ræður við, þessi elska.

Skyndilega eru allir komnir með hátimbraðar skoðanir á utanríkisdeilu, sem klókustu innstukoppar í alþjóðarétti hafa klórað sig til blóðs í kollinum yfir.

Allir rembast við að gera upp lítilfjörlegan og óupplýstan hug sinn og niðurstaðan er vitanlega að meirihlutinn veit ekki sitt rjúkandi ráð og þeysist milli ystu póla, allt eftir því úr hvaða átt síðasti blóðhundur gjammar.

Tiltölulega dagfarsprútt fólk ræður sér ekki fyrir gremju og rifjar upp öll hin andstyggilegustu blóts- og gífuryrði, til að þeyta í nágranna sína. Ættingjar kaffæra hver öðrum í brauðtertum í fermingarveislum og aldavinir saka hver annan um landráð og þjóðníðingsskap.

Við höfum ekki efni á svona skítkasti og skætingi. Við getum ekki leyft okkur að hóta hvert öðru með blóðþyrstum risahákörlum og barnaþrælkun í kolanámum. Við verðum fjandakornið að þjappa okkur saman en ekki tæta gauðrifna þjóðarsálina endanlega í sundur.

Þetta er ástæðan fyrir því að við erum með fólk í vinnu við þessi skítverk, fólk sem við getum síðan eftir atvikum sturtað niður eða farið í endurnýjaðan sleik við á fjögurra ára fresti.

Þangað mega hákarlabanarnir og kolanámufrelsararnir gjarnan fara og rífa allan þann kjaft og tvinna öll þau fúkyrði sem þeir mögulega geta.

Því það er engum greiði gerður með því að hlusta á þetta sjálfseyðandi sífur, gjamm og gagg, öfganna á milli. Og mig hryllir við að hugsa til þess sem gerist þegar þessi þrasgjarni, þjóðbelgdi útnáramassi sem byggir þetta ágæta land fær að kjósa um eitthvað sem skiptir máli.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182