Lesbók05.09.09 — Spesi

Ég brá mér nýlega á fyrirlesturinn Hellisbúann í Gamla bíói við Ingólfsstræti, eða Íslensku Óperunni eins og húsið heitir nú - enda lítið um kvikmyndasýningar þar í seinni tíð og meira um hvers kyns óperu- og leiksýningar. Eins og glöggir lesendur eflaust vita er mér ekkert um óperur og leikhús gefið og því var sérlega hressandi að geta lagt leið sína í gamla uppáhaldsbíóið sitt til að hlusta á áhugaverðan fyrirlestur.

Hellisbúinn fjallar að mestu leyti um hver staða og ímynd karlmannsins er í okkar samtíma en einnig er tekið á flækjum í samskiptum kynjanna, sem aldrei hafa verið eins miklar og einmitt nú um stundir. Sjálfur hefi ég eðlilega velt þessum málum mikið fyrir mér undanfarin ár, því sjaldan hefur verið erfiðara fyrir okkur karlmenn að fóta sig en einmitt nú.

Á mínum sokkabandsárum var þetta mun einfaldara - karlmenn voru sterkara kynið, harðir af sér, stjórnuðu heimilinu og unnu fyrir því á meðan konur voru veikara kynið, mjúkar og undirgefnar og sáu um að hafa börnin stillt og heimilið fallegt. Vissulega voru til einhverjir sem voru það sem í dag er kallað "mjúkur maður" ellegar "metró" (menn sem í mína tíð kölluðust "stelpustrákar" eða "pissudúkkur") en slíkum mönnum var fljótt gert ljóst hvert þeirra hegðun yrði stungið ef þeir létu ekki af henni eða hyrfu úr landi hið snarasta. Já, það voru einfaldari tímar.

Í dag virðist öllum þessum gömlu góðu gildum hafa verið sópað burt og alls kyns ný viðmið ráða för. Hér er því greinilega þarft umfjöllunarefni á ferð og sýndi það sig best á hversu vel fyrirlesturinn var sóttur af fólki af ýmsum aldri og kynjum.

Fyrirlesarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson stóð sig með afbrigðum vel og flutti fyrirlesturinn af miklu öryggi og fumleysi en einnig hóflegum skammti af kímni. Málefnið er honum greinilega tengt, enda tók hann mýmörg dæmi úr eigin lífi - mörg hver svo skopleg að áhorfendur bókstaflega veltust um af hlátri. Undirritaður átti jafnvel sjálfur erfitt með að verjast brosi á köflum, en sat þó á sér enda ekki vanur að hafa niðurstöður vísindalegra rannsókna í flimtingum - jafnvel þó gamansamar séu.

Óhætt er að mæla með Hellisbúanum við jafnt karla sem konur - og skiptir þá engu hvort fólk þekkir til umfjöllunarefnisins af eigin raun. Þannig geta jafnvel karlmenn sem ekki einu sinni hafa verið við kvenmann kenndir notið góðs af þessum fróðlega fyrirlestri. Það getur undirritaður sannarlega vottað.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182