Lesbók26.10.08 — Enter

Einhverjir eru að pirra sig á því að mótmæli hafi farið út um þúfur í gær, vegna þess að mótmælt var tvisvar í henni Reykjavík.

Mér finnst hins vegar langt í frá hafa verið gengið nægjanlega langt.

Auðvitað á fólk að geta gengið að hinum og þessum mótmælum vísum um land allt, frá morgni til kvölds. Drifið krakkana út og mótmælt svolítið fyrir hádegi og viðrað svo gamalmennin seinnipartinn í hressilegum síðdegismótmælum. Þau þurfa einfaldlega að vera í gangi allan daginn, alla vikuna.

Svo er hægt að senda fjölmiðlum samantekt í vikulok með hressilegustu ræðubútunum, harðyrtasta kröfuspjaldinu, reiðasta lífeyrisþeganum, dugmesta eggjakastaranum o.s.frv.

Fínt væri að hafa mótmælin á klukkutíma fresti, á heila tímanum. Stutt og laggóð. Og í guðs bænum á einhverjum skjólsælum stað, ekki bara einhvers staðar úti á berangri í skítakulda. Bæði þarf að vera hægt að hlaupa í skjól til að pissa og ná lífi í loppna fingur – og eins þarf að hlaða áhorfendastæðin nógu déskoti mörgum aflóga partíhiturum til að fólk bláni ekki um of á tám og eyrum.

Veitingar eru líka lykilatriði. Bölmóðsræður og kreppusöngvar æra uppí manni sultinn. Ef maður á yfirleitt að hafa sig í að standa einhvers staðar með hraðfrystan afturendann og sýna þessa margfrægu samstöðu þá þarf maður tvímælalaust að geta gætt sér á volgu kakói, kaffi, lummum, flatbrauði og kleinum í leiðinni.

Hafa mætti stærstu mótmælin annars vegar klukkan 13 og hins vegar klukkan 17, en smærri mótmæli á milli. Þannig gætu flestir mótmælahöfðingjar og athyglispostular fengið að gjamma í gjallarhorn og allir reiðu trúbardorarnir komist að með innihaldsríku langlokurnar sínar. Svo væri hægt að hafa skiptimótmæli milli bæjarfélaga og jafnvel fengið erlenda atvinnumótmælendur til að sýna kúnstir sínar.

Aðalatriðið er að það sé alltaf einhver að lumbra á járninu og ybba gogginn. Og ef einhver dirfist að flissa yfir blánefjuðu fámenninu og hálsbólgnu kröfusönglinu er rétt að minna á að það var nú hvorki sérlega fjölmennur né góðmennur hópur sem fokkaði þessu öllu upp fyrir okkur hinum.

 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Myglar — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Gagnrýni
 
        1, 2, 3, 4, 5, 6 ... 180, 181, 182