Lesbók16.10.08 — Enter

Sökudólgaveiðar eru vinsælar núna, galdrabrennur og æsingafundir eru klárlega dagsskipunin. Sem er vel.

En þegar við erum búin að tjarga helstu drulluhalana, festa þá á spýtu og brenna til ösku er rétt að huga að framtíðinni. Nefnilega næstu kynslóð fordekraðra, siðblindra og samviskulausra útrásarvíkinga – blessuðum börnunum okkar.

Er ekki ágætis færi núna til að aga þetta óalandi barnahyski sem nú er að vaxa úr grasi? Þessa óforskömmuðu dónadrýsla sem fara um með munnsöfnuði og hortugheitum og bera ekki virðingu fyrir einu né neinu, nema hugsanlega bakraufinni á sjálfum sér.

Þessir sykur-, klám-, ofbeldis- og sjónvarpsmettu froðuheilar festa ekki hugann við nokkurn skapaðan hlut, eru meira og minna ólæsir og óskrifandi – og með öllu ótalandi. Helst að maður fái yfir sig forritaðar svívirðingar enskar, dirfist maður að bjóða einhverjum þessara hornefjuðu vítisengla góðan dag.

Okkar upprennandi unglingafjöld er vitlaus, duglaus, áhugalaus, getulaus, líflaus og vonlaus. Því miður.

Nú er lag. Það þarf að taka þessa athyglisbrostnu óþekktarsnúða upp á eyrum, fóðra þá á soðinni ýsu og láta þá hafa fyrir hlutunum. Tæma herbergin af flatskjám, leikjatölvum og ryksuguróbótum og láta óbermin hafa bækur að lesa og garn að prjóna. Kenna þeim að bera virðingu fyrir fullorðnu fólki, dýrum og dauðum hlutum – og grjóthalda svo kjafti þegar þess er krafist.

Ekki seinna en strax.

Fyrst VHS-kynslóðin gat komið þjóðinni á hvínandi kúpuna þori ég varla að hugsa til þess hvað Playstation-kynslóðin getur gert okkur.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182