Lesbók13.06.08 — Enter

Jæja. Þá er þetta búið.

Baugur á leið úr landi. DeCode til andskotans. Eimskip að sökkva.

Fjöreggin brotna, hvert á fætur öðru.

Verðbólgan komin til að vera. Enginn fær lengur lánað. Bankarnir búnir að skella í lás. Búnir að hirða það sem hirt verður. Farnir að fetta grön og urra að þeim sem hætta sér nærri híði þeirra.

Gamanið kárnar. Peningurinn búinn. Og kavíarinn.

Almenningur situr í súpunni. Með endalausar myntkörfur, ofneyslulán og himinhá húsnæðislán. Rað- og ógreidda flatskjái, jeppa og tjaldvagna. Allt hækkar. Bensínið. Maturinn. Fötin. Meir að segja búsið. Allt helvítis heila klabbið. Nema launin.

Þenslan búin. Nýbyggð hverfi standa auð. Galtómar verslunarmiðstöðvar á hverju götuhorni. Ódýra vinnuaflið flúið land. Hvalaskoðararnir og þýsku sigurrósaraðdáendurnir sömuleiðis. Meir að segja austantjaldsmafían og fíkniefnasalarnir eru búnir að missa áhugann. Samkvæmið er dautt.

Tímspursmál hvenær það verður óbærilega dýrt að komast yfir hafið, fljúgandi sem siglandi. Þá komumst við ekki lengur spönn frá rassi. Föst, fjarri mannabyggðum. Úr alfaraleið.

Svo slökkva þeir á netinu.

Þá er sennilega best að við skríðum aftur ofan í jörðina. Hefðum betur aldrei farið þaðan.

Við getum byrjað á að hjúfra okkur saman og horfa á það sem er á flökkurunum okkar. Þangað til rafmagnið verður tekið af. Þá er ekkert annað að gera en dusta rykið af bragfræðinni og fara að hnoða saman rímum af hetjudáðum útrásarvíkinga og athafnaskálda og bíða eftir næsta góðæri.

Síðast liðu 700 ár.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Dagbók
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, 4 ... 180, 181, 182