Lesbók21.04.08 — Enter

Hvernig er það eiginlega. Á ekkert að fara að bæta við styttum í þessari niðurníddu grafhvelfingu sem miborgin okkar er óðum að umbreytast í?

Hvar er styttan af Halldóri Laxness, brjóstmyndin af Þórbergi? Hvar eru Gunnar og Geir? Hvar er Steingrímur? Hvar er Davíð?

Það er til algerrar og háborinnar skammar að ekki sé mannskapur í fullri vinnu við styttugerð hér í þessari borgarlufsu. Hvar eru til að mynda forsetarnir okkar? Hvernig á að útskýra það fyrir æsku þessa lands að ekki sé til stytta af Vigdísi Finnbogadóttur?

Að maður tali ekki um þann harmleik og reginhneisu að ekki skuli á blíðviðrisdegi vera hægt að fá sér ís við styttuna af Jóni Páli.

Svei því bara. Er enginn að gera neitt í þessu? Á að láta sögu heillar aldar fara til spillis? Endaði Íslandssagan virkilega með Óla Thors? Kláraðist þá grjótið? Hrökk styttugerðarmaður ríkisins að svo búnu upp af?

Hvar eru Jónas og Jón Múli? Hvar er Villi Vill? Ellý? Hvar er Hemmi Gunn? Hvar eru Halli og Laddi? Hljómar? Hvar er Magnús Bjarnfreðsson?

Og síðast en ekki síst – hvar í gauðrifnum greflinum er Hófí?

 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 180, 181, 182