Lesbók18.03.08 — Enter

Ég veit ekki hvað ræður því en ég fyllist einhverri öfugsnúinni andstyggðar vellíðan þegar menn fara að bölsótast yfir efnahagsástandinu, barma sér yfir gegndarlitlu okri og grenja úr sér augu og iður vegna lánauppþembu og almennu ónýti krónunnar.

Já, mér finnst eitthvað heillandi við þetta kreppuhjal allt. Eitthvað ofurlítið ertandi við tilhugsunina um að einn daginn gætum við aftur þurft að taka strætó, kaupa mikkamúsbætur á buxur barnanna okkar, borða kjötfars. Brugga landa.

Neita okkur um hlutina.

Leyfa bílnum að eldast með okkur, sjónvarpinu að flökta, símanum að missa gljáann, hörðu diskunum að hrynja. Lykilorðunum að gleymast.

Spara. Nurla saman fyrir einhverju sem okkur langar óskaplega í. Þurfa að bíða. Þjást. Þrá. Og komast svo kannski að því þegar loksins að við eigum fyrir óskapnaðinum, að við þurfum ekkert á honum að halda.

Bíða. Hugsa. Mynda okkur skoðanir. Koma okkur upp hugsjónum. Lesa. Reiðast. Örvast. Gleðjast yfir því sem við höfum. Njóta. Hlæja að því sem við höfðum. Sakna. Sættast.

Já, ég held svei mér að við hefðum gott af dálítilli kreppu. Hressilegum skelli á ofalda bossana. Smá dýfu í hrollkalt hyldýpi veruleikans.

En ekkert alltof langri samt. Ég á ekki nema svo og svo mikið af fiskfarsi í frystinum.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182