Lesbók29.02.08 — Enter

Mig langar að fara fáeinum orðum um þessa viðurstyggilega tilgerðarlegu og fyrirsjáanlegu Coen bræður, sem fæstir virðast geta haldið vatni yfir þessa dagana. Og þá einkum og sér í lagi nýjasta afsprengi þeirra, No country for old men, eða Aldeilis ekki kjörlendi gamlingja, sem þeir voga sér að kalla kvikmynd og bera á borð fyrir venjulegt fólk – á fullu verði.

Í fyrsta lagi, halda þessir hrokkinhærðu bananabræður virkilega að maður sætti sig við að góna á einhvern hljólbeinóttan manngarm ráfa um á tjaldinu tímunum saman án þess að segja aukatekið orð? Sjappín blessaður sýndi þó í það minnsta þá lágmarkskurteisi að detta á rassinn annað veifið þegar hann var að gera sínu þöglu myndir.

Og annað – þessi skúrkur þeirra. Gott og vel, hann er stór og ljótur. Og gott og vel. Hann er ekkert sérlega málgefinn. Skúrkar þurfa ekki að vera sérlega málgefnir. Rambó er til að mynda ekki sérlega málgefinn. Og Rambó er æði. En það er ekki nóg fyrir Coen bræður. Þeir eru nefnilega svo miklir listamenn.

Það er ekki nógu kúl fyrir þá að illyrmið sé bara með afsagaða haglabyssu eða lítinn hníf til að skafa með lífið úr fórnarlömbum sínum. Onei. Það er sko aldeilis ekki nógu fínt fyrir herra hipp og doktor kúl, neinei, hann þarf auðvitað að vera með eitthvað sjúklega artí og æðislega flippað. – Hey, látum hann vera með loftþrýstikút!

Svo geta þessir sjálfskipuðu riddarar frumlegheitanna ekki einu sinni álpast til að hafa söguþráð myndarinnar tiltölulega eðlilegan – ef þá yfirleitt má kalla þessa samankuðluðu flækju þeirra þráð.

Ojbara, ojbara – og ullabjakk að auki.

Já, þeim bregst sannarlega ekki bogalistinn í þetta sinn, bræðrunum. Enn einu sinni tekst þeim á sinn einstaka hátt að eyðileggja fyrir mér annars indæla kvöldstund.

 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Spesi — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
     1, 2, 3 ... 180, 181, 182