Lesbók21.04.03 — Enter

Þegar ég mætti hér á ritstjórn í morgun blasti við mér ófögur sjón. Afglapinn hann Myglar var í óða önn að líma upp horgræna borða og pallíettur á alla veggi, merkta X-B. Ég skellti aftur hurðinni og spurði hvurn andskotann hann þættist vera að gera!

Karlgarmurinn fölnaði upp og reyndi að fela sig bak við pappalíkneski af landbúnaðarráðherra meðan ég æddi um skrifstofuna og reif eins mikið af óþverranum niður og stakk í svartan ruslapoka. Að svo búnu reif ég í hnakkadrambið á Myglari og dró hann út í bíl. Kaktuz, sem var að ranka við sér eftir ævintýri helgarinnar, skakklappaðist á eftir.

Ekki reyndist erfitt að finna höfuðstöðvar bændingjanna. Halldór Ásgrímsson og Jónína Bjartmarz gína yfir Suðurlandsbrautinni með brosfryst smettin, líkt og hungraðar rollur á fengitíma og vísa manni veginn að hreysi sínu.

Þar sem ég ruddist inn í torfklædda bygginguna gaus upp á móti mér megn hrossataðsblandinn sviðafnykur en ég lét mig hafa það og slengdi plastpokanum á nálægt borð skreytt páskalilju og kandíssykri. Þar var náttúrulega enginn, nema gamall uppstoppaður bóndi sem Myglar gaf sig á tal við.

Þegar ég hafði beðið drykklanga stund og æpt nokkrum sinnum stundarhátt eftir aðstoð, birtist loks lágvaxin mannvera með barmmerkjapoka og kaffikönnu. Ég kastaði þurrlega á hana kveðju og sló eldsnöggt til hennar þegar hún bar sig til við að næla í mig barmmerki.

Síðan rétti ég manninum pokann og bað hann lengstra orða að farga þessum óþverra, dreifing hættulegra spilliefna væri grafalvarlegt mál auk þess sem glottið á Guðna Ágústssyni væri brot á fjölmörgum mannréttindasáttmálum. Ég er alls ekki viss um að maðurinn hafi skilið orð mín, hann tók orðalaust við pokanum og hófst brosandi handa við að slétta úr heillegustu bæklingnum og raða þeim á borðið.

Ég lét þó gott heita, enda var mér orðið ískyggilega bumbult af verunni þarna.

Þegar við bjuggumst til brottfarar dirfðist mannlufsan að bjóða okkur að skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við framboðslista flokksins. Ég virti í snarhasti fyrir mér listann og hætti snarlega við að löðrunga manninn, hrifsaði þess í stað til mín pappírana og sagðist með glöðu geði skrifa undir slíkt, enda væri það staðföst trúa mín að með þennan liðssöfnuð í broddi fylkingar væri endanlega öruggt að að þessi grængolandi afætufylking þurrkaðist með öllu út af þingi fyrir fullt og fast.

Að svo mæltu skundaði ég út í bíl og ók á brott ásamt Kaktuzi. Myglar skildi ég eftir.

 
Enter — Sálmur
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Enter — Forystugrein
 
Númi Fannsker — Forystugrein
 
Enter — Sálmur
 
Enter — Forystugrein
 
        1, 2, 3, ... 180, 181, 182