Lesbók17.01.03 — Kaktuz

Ég varð fyrir þeirri lukku um síðustu helgi að vera boðið í ekta færeyskt afmæli. Þar fagnaði góður vinur minn enn einum áratug í faðmi fjölskyldu og vina. Svo einkennilega vildi til að ég var eini Íslendingurinn á svæðinu og er það nýlunda fyrir mér, að vera í minnihluta á samkomu í eigin föðurlandi. Reyndar er varla hægt að kalla blessaða Færeyingana útlendinga því sáralítill munur er á þjóðunum tveimur. Helst er það sérkennilegur hreimur þeirra á íslenskunni sem þó hverfur eftir nokkurra ára vist hér á landi. Húsfreyjan bar fram gómsætar veitingar og báru þar hæst hefðbundnar afmæliskræsingar þeirra. Heitt súkkulaði með rjóma og volgar brauðbollur með sméri. Gaman var að fá að samfagna með þessum vini mínum og þótti mér mikill heiður að vera boðið þannig í innsta hring samfélags Færeyinga hér á landi.

Eftir að menn og konur voru orðin rjóð í framan af áti og súkkulaðidrykkju hófst hinn hefðbundni hringdans þeirrar þjóðar sem framar okkur hefir geymt með sér þennan forna sið norrænna manna. Skiptust nú menn á að stýra dansinum og voru kveðnar margar vísur; meðal annara Blakman konge, Jákupsa skegg og að sjálfsögðu Ormurinn langi. Hápunktur kvöldsins var svo þegar mér var boðið að stýra dansi og kveða. Ég gat ekki skorast undan og flutti Ólaf riddararós og tókst ágætlega upp að ég held. Nú tók sá næsti við og svo næsti, alltaf var stigið fastar og hitinn jókst í salnum. Þeir virtust hafa gríðarlegt þrek og reyndist mér sífellt erfiðara að halda í við hina. Loks gafst ég upp sökum þreytu og úthaldsleysis. Ég þakkaði fyrir mig og lofaði að mæta aftur að ári. Þegar ég gekk út í nóttina ómaði enn söngur frænda minna og frænka út í myrkrið:

"Vælkomnir Føroyingar her í vási,
eg meini, vit eru mergjaðir enn,
um mong ein hurð enn stendur í lási,
vit roynast tó enn menskir menn"

 
Enter — Sálmur
 
Myglar — Sálmur
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
Enter — Sálmur
 
Kaktuz — Forystugrein
 
Kaktuz — Sálmur
 
Kaktuz — Sálmur
 
Enter — Leikrit
 
Númi Fannsker — Sálmur
 
        1, 2, 3 ... 179, 180, 181, 182