BAGGALÚTUR
FRÉTT — 4/12/16 — Enter
HB Grandi leikur illmennið í næstu Bondmynd
Framkvæmdastjóri SFS þykir einnig eiga góða möguleika á að landa hlutverki í myndinni.

Útgerðarfélagið geðþekka, HB Grandi, mun leika skúrkinn í næstu kvikmynd um siðblinda alkóhólistann og flagarann morðóða James Bond.

Í kvikmyndinni á Bond í höggi við dularfullan aðalsmann sem virðist sjúga blóð úr íbúum í afskekktu sjávarþorpi. Vondi greifinn er með pattaralegan bæjarstjórann í vasanum og enginn þorir að rísa gegn honum af ótta um líf sitt og fjárhagslega afkomu samfélagsins.

Bond fer að gruna kauða um græsku þegar hann uppgötvar að vodkamartíníið á þorpskránni er svívirðilega dýrt og sterlingspundið grunsamlega óhagstætt gagnvart gjaldmiðli staðarins. Auk þess sem hvergi er hægt að fá ætt sushi í bænum, þrátt fyrir fengsæl fiskimið og sæmilega háa meðalgreind íbúanna.

Vildu aðstandendur myndarinnar fá sem ógeðfelldastan leikara í hlutverkið sem nyti engrar samúðar áhorfenda. Hafði HB Grandi betur en m.a. sjálft Alienskrímslið, flenniapinn King Kong og Magnús Scheving.