BAGGALÚTUR
FRÉTT — 8/12/15 — Enter
Geitungar hafa ekki efni á að búa í miðborginni
Það er nánast ógerningur fyrir unga geitunga að eignast sérbýli í miðborginni í dag.

Lítið hefur verið um geitunga í miðborg Reykjavíkur í ár, en þeim mun meira í úthverfum borgarinnar. Skýringin er einfaldlega sú að bú geitunganna hafa í auknum mæli verið keypt upp af fasteignafélögum og leigð út til erlendra ferðamanna — enda eftirspurnin mikil.

Talsmaður Félags íslenskra holu– og trjágeitunga (FÍHT) segir ástandið alvarlegt, ekki bara hjá hans félagsvespum, heldur einnig hjá býflugum, veggjatítlum og jafnvel miðbæjarrottum. „Túristunum er einfaldlega troðið í hverja glufu, leigan skrúfuð upp og við hraktir upp í fokkings Árbæ, eða eitthvað þaðanaf verra!“

Hann segist þó telja að úrræði úrræði ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun séreignasparnaðar inn á húsnæðislán geti komið sér vel — enda fari geitungar mjög ungir inn á vinnumarkað en komist sjaldnast óskaddaðir á lífeyrisaldur.