Baggalútur ásamt Gömlum Fóstbræðrum kynnir umhverfislistaverkið:

Ísland, ég elska þig (gullnir steypast fossar)

Lagið er innblásinn ættjarðarsöngur ætlaður íslenskri þjóð á ögurstund. Má segja að verkið sé eins kyns óformlegt umhverfismat Baggalúts og er því ætlað að endurspegla gengdarlausa ást og umhyggju fyrir jafnt landi, tungu og þjóð.
Karlakórinn Gamlir Fóstbræður lagði til þá karlmannlegu undiröldu sem nauðsynleg er lagi sem þessu og laglínan er sungin tifandi tenórröddu, sem ekki er heiglum hent að fylgja - enda á það ekki að vera á færi nema fagmanna að túlka góða ættjarðarsöngva.

Lag: Bragi Valdimar Skúlason, Mickael Svensson & Guðm. Kristinn Jónsson
Ljóð: Bragi Valdimar Skúlason

Söngur: Guðmundur Pálsson, tenór.

Hljóðfæraleikarar:
Bassi og gítarar: Guðmundur Pétursson. Trompet: Kjartan Hákonarson. Básúna: Samúel Jón Samúelsson. Strengir: Chris Carmichael ásamt léttstrengjasveit Nashvilleborgar. Trommur: Kristinn Snær Agnarsson. Hammond: Sigurður Guðmundsson. Petrof flygill: Mikael Svensson.

Kór:
Gamlir Fóstbræður.
Raddsetning: Karl Sigurðsson. Kórstjórn: Njáll Sigurðsson.

Upptökur:
Hljóðritað í Sýrlandi, Hafnarfirði, Sýrlandi, Skúlatúni og í OMNIsound studios, Nashville. Upptökumenn: Guðm. Kristinn Jónsson og Styrmir Hauksson.
Stjórn upptöku: Guðm. Kristinn Jónsson.
Aðstoð við upptöku: Karl Sigurðsson og Bragi Valdimar Skúlason.
LJÓÐ
Ó, aldagamla Íslands byggð
þér ævarandi eg heiti tryggð.
Þú þekkir ekkert illt
þér enginn getur spillt.
Styður öngvin stríð
staðföst, frjáls og blíð.

Engilfríða fósturjörð
fyrir þér liggur tíðin hörð.
Flárátt lævíst lið
landið hatast við
þitt helga hjarn vill fá
hrifsað til sín aftanfrá.

Góða land, gjöfula land!
Gullnir steypast fossar þínir enn.
Sæla fold, sjálfstæða mold!
Sakleysi þitt girnast vondir menn.

Gull þín brjóta gírug flón
er gleypa vilja hið dýra frón.
En aldrei, ástin mín
skal efnd sú myrka sýn
að fjallsins fagra mær
sé forfærð, svívirt, gráti nær.

Glæsta land, gegnheila land!
Gullnir steypast fossar þínir enn.
Ísafold, magnþrungna mold!
Meyjarblóm þitt girnast vondir menn.

Aldrei! Aldregi meir!
Íslandi allt!
Ísland ég elska þig!

Gullnir steypast fossar þínir enn.

Hrjúfa fold, höfuga mold!
Hrekkleysi þitt girnast vondir menn
– illgjarnir menn.

Gamla land! Göfuga land!
Gullnir steypast fossar þínir senn.