— GESTAPÓ —
 • LOKAР•  Senda skilaboð Senda póst
Meistarinn 10/2/07 16:50

Leitin að lífinu

Hvar er lífið sem ég taldi að væri selt í stórmarkaðnum
innanum pakkasúpur og kex?
Já, hvar er það líf, þetta staðlaða líf?
Ég finn það hvergi.
Ég leita búð úr búð frá kaupmanni til kaupmanns í Smára og Kringlu,
er jafnvel með stjörnukíki til að leita.
Er það að finna í himinhvolfunum þetta líf sem ég leita að?
Hafa vísindamenn uppgötvað það og stílfært til fjöldaframleiðslu?
Dauðann finn ég og er þó ekki að leita.
Hann er í sígarettunni og ljósum prýddum skemmtistöðum.
Hann er sveittur á dansgólfinu í alsælu.
Hann er í strætinu, hann er í kogganum, hann er í rauðsprittinu rámur og hás.
Hann læðist að vitundum grunlausra barna í formi saklausra leikja,
hann er í barnapíunni sem horfir á „meinlaust“ porn með flekklausa kærastanum sínum.
Dauðinn er ríkjandi alls staðar í fréttunum, jafnvel í saklausum kosningum og fegurðarsamkeppnum.
En hvar er þetta líf sem mér var heitið í vöggunni og á leikskólanum áður en barnapían kom og spillti minni vitund, áður en fréttirnar smugu inní sálina?
Já, því finn ég það ekki í hillunum innanum tískuvörurnar?
Bandið spilar og sveittur strákur á skemmtistað dansar og hrekklaus stelpa dansar með án þess þó að vita við hvaða mars hún er að dansa.
Og börnin byrja að syngja „Þá var kátt í höllinni“ við lag dauða bandsins.
Þetta er ljóð mitt til þín, já til þín sem kannt að geyma mitt líf.
En brjóst mitt er fullt af ótta og samviska mín svört eins og samviskur virðulegra borgara.
En góðborgarar finnast ekki lengur, fyrir mér eru bara til rík svín sem felast í fílabeinsturnum með dauðann ræktaðan í görðunum sínum. Það er bara samviskulaust ríkt fólk sem hefur áhyggjur af sveiflum hlutabréfamarkaðarins og það er fólkið sem stal lífinu í frelsisins nafni.

En ég, hugsa ég stundum? Hvernig verð ég ef ég efnast einn daginn?
Verð ég þá líka tilfiningalaust svín sem hrín í takt við markaðinn.
Verð ég þá hluti þessa valds sem um mannslíf ekkert skeytir.
Verð ég partur af líflausu afli peningamaskínunnar?
Ég sem þrái líf fullt að heilbrigðum gildum og jafnrétti.
Þetta líf var eitt sinn til, það veit ég því ég hef lesið um það í bókum.
Ég hef lesið um gömlu gildin, um gömlu fjölskyldueininguna.
En finn það ekki í mínu lifanda lífi, þó ég leiti búð úr búð.
Allt annað er þó að finna svo sem hægindavörur, hagræðingarvörur og
vörur sem „allir“ þurfa að eiga. En gildin finn ég hvergi.
Því frjálshyggjan hefur leyst spilltasta eðli mannsins úr læðingi og hin gömlu og góðu gildi vikið fyrir markaðnum. Ég þrái einfaldleikann og öldungaráð vitiborinna ekki reglugerðamaskínu bakarísdrengjanna sem auðinn fengu í arf.
Er þessi hugsun mín óraunsæ og barnaleg?
Er þetta ósk vitfirrts manns sem kann ekki hinn spillta leik?
Eða er ég einn óspilltur með réttmætar óskir?
Ósk mín um endurreisn fjölskyldueiningarinnar verður seint uppfyllt í þeim veruleika sem er ríkjandi í nútímanum.
Frjálshyggjan, hægristefnan, hefur kviksett lífið og við syngjum öll jarðarfararsálminn djúpt inni í sálum okkar ómeðvituð, þar sem við keyrum á óráðlegum hraða í gegnum tilveruna. Blind leit að lífsgæðum og allaveganna hægindum hafa tekið það líf sem ég sækist eftir að lifa að eilífu Amen.

Meistarinn. Lyfsali baggalútu.
LOKAÐ
» Gestapó   » Kveðist á   » Hvað er nýtt?
Innskráning:
Viðurnefni:
Aðgangsorð: