— GESTAPÓ —
Kóreustríðið - sögupistill
» Gestapó   » Vísindaakademía Baggalúts
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Gvendur Skrítni 25/2/05 12:05

Aðdragandi stríðs
Kórea hefur löngum þurft að þola yfirgang annarra ríkja. Þessi annars friðsæla þjóð hrísgrjónabænda hefur hvað eftir annað þurft að sæta herskáum einræðisherrum og innrásum úr öllum áttum.
Kórea hefur öldum saman verið bitbein Kínverja, Japana og Rússa. Landinu hefur verið lýst sem “rýtingi beindum að hjarta Japans” eða stökkbretti til innrásar í Kína eða Mansjúríu. Sjálfir nefna íbúarnir Kóreu “Land morgunkyrrðarinnar”

Kórea var undir stjórn Mongóla frá 1231 og fram í byrjun 14. aldar. Japanskir sjóræningjar gerðu árásir árin 1359 og 1361 og Japanir gerðu meiriháttar innrásir árin 1592 og 1597. Þrátt fyrir mikinn óróa hélt Kórea þó sjálfstæði sínu þar til seint á 19. öld, að því undanskyldu að hún varð að viðurkenna yfirráð Kína í Austur-Asíu, en í lok 19. aldar tóku Kínverjar að reyna að koma í veg fyrir vaxandi áhrif Japana þar og einnig aukin áhuga Rússa á skaganum. Þetta leiddi svo til stríðs milli Kína og Japan vegna Kóreu árin 1894-95 og síðar börðust Japanir og Rússar yfir Kóreu og Mansjúríu árin 1904-05. Japanir báru sigur úr bítum í bæði skiptin og innlimuðu Kóreu árið 1910.

Árið 1943, þegar hersveitir bandamanna voru farnar að ná yfirhöndinni í seinni heimsstyrjöldinni, ákváðu bandamenn að veita Kóreubúum sjálfstæði. Það var síðan tryggt tveimur árum síðar eða í ágúst 1945, þegar sigur yfir Japönum var orðinn að veruleika. Hinn 12 ágúst (tveim dögum fyrir uppgjöf Japana) fór sovéski herinn inn yfir landamæri Kóreu. Sovétmenn hernámu norðurhluta landsins en Bandaríkjamenn suðurhlutann. Yfirráðasvæðin skiptust svo við 38. breiddargráðu. Þessi skipting landsins í tvo hluta sitt hvoru megin við 38. breiddargráðuna var afar ójöfn. Hún byggðist aðallega á landfræðilegum skilningi, þ.e. að hlutarnir voru álíka stórir (Norður-Kórea er 120.000 km2 og Suður-Kórea er 99.000 km2), en hún byggðist ekki á því hvað hagkvæmast væri fyrir íbúana. Megnið af iðnaði landsins var í Norður-Kóreu á meðan tveir þriðju íbúanna bjuggu í Suður-Kóreu. Upphaflega átti þetta bara að vera tímabundið fyrirkomulag og sameina átti ríkin þegar fram í sótti. Hins vegar rak allt í rogastans þegar talið barst að því hvers kyns ríkisstjórn átti að koma á í hinu nýja lýðveldi. Til að leysa deilurnar vísuðu Bandaríkjamenn málinu til Sameinuðu þjóðanna. Þar var ákveðið að kosningar skildu haldnar í landinu. Sovétmenn hundsuðu ákvörðunina algerlega þannig að einungis var hægt að halda kosningar á yfirráðasvæði Bandaríkjamanna sem síðar varð kallað Suður-Kórea.

Þegar kalda stríðið hófst svo fyrir alvöru hurfu allar vonir um sameinaða Kóreu og árið 1948 voru stofnuð tvö aðskilin sjálfstæð ríki sem höfðu gerólíkar stefnur hvað varðaði félagsmál, efnahagsmál og stjórnmál. Það var hinn 15.ágúst 1948 að hið nýja lýðveldi, Suður-Kórea, var stofnað (þjóðhátíðardagur Suður-Kóreu). Forseti Suður Kóreu var Syngman Rhee en hann átti eftir að vera einvaldur í landinu til ársins 1960. Syngman Rhee var íhaldsmaður og hafði verið foringi útlagastjórnar á árunum milli stríða. Það var svo 9. september 1948 að Norður-Kórea lýsti yfir sjálfstæði sínu. Þar var það hins vegar Kim Il Sung sem var einvaldur. Hann tók við stjórn Norður-Kóreu 1945 og hélt henni til dauðadags 1994
Kim Il Sung var fyrrum liðsforingi í rauða hernum og naut augljóslega stuðnings sovétmanna. Hann tók upp kommúníska stjórnarhætti, byrjaði að efla her landsins og árið 1946 deildi hann helmingi alls jarðnæðis í landinu niður á 725.000 jarðlausa bændur og jók þannig vinsældir sínar til muna. Hvorug ríkisstjórnin vildi viðurkenna hina og báðar lýstu þær því yfir að þær væru hið rétta yfirvald á Kóreuskaganum, þetta olli augljóslega miklum vandræðum hvað samskipti varðaði vegna þess að hvorugur aðilinn gat gefið neitt eftir án þess að viðurkenna samtímis hinn aðilann. Bæði ríkin voru þó samþykk sameiningu, sem var augljóslega hagkvæmust fyrir landið, en deilur um hvernig standa ætti að henni komu í veg fyrir allt samstarf.

Í desember 1948 voru svo sovéskar hersveitir dregnar til baka frá Norður-Kóreu og í júní 1949 voru svo bandarískar hersveitir dregnar til baka. Eftir að stórveldin voru farin mögnuðust landamæradeilurnar við 38. breiddargráðu uns uppúr sauð.

Stríð brýst út
Hinn 25. júní 1950 klukkan 4:00 um nótt réðust 70.000 hermenn Norður-Kóreu yfir 38. breiddargráðu. Hersveitirnar voru búnar 70 sovéskum T-34 skriðdrekum og voru studdar með stórskotaliði og flugvélum. Suður-Kóreumenn veittu litla mótspyrnu og her þeirra gat í raun lítið gert nema að tefja sókn Norður-Kóreu. Fullkominn ósigur virtist vera í vændum ef ekki kæmi til umtalsverð hernaðaraðstoð. Þegar Harry S. Truman frétti þetta var honum mikill vandi á höndum. Hann taldi víst að Sovétmenn stæðu á bakvið árásina og þetta gat þessvegna verið fyrsti liðurinn í útþenslustefnu kommúnista. Þess vegna taldi hann mikilvægt að stöðva framgang kommúnista áður en þeir kæmust á skrið. Hins vegar var mikil hætta á dýrkeyptu stríði við Sovétmenn og Kínverja ef hann sendi Bandaríska hermenn til Kóreu, sérstaklega þegar það er haft í huga að Sovétmenn höfðu á þessum tíma komið sér upp kjarnorkusprengjum.

Mikill þrýstingur var á Truman að kveða niður kommúnista, Bandaríkin höfðu nýlega “tapað” Kína og Truman varð að standa við stóru orð Trumankenningarinnar sem hann orðaði einu sinni svona:
“Stefna mín er sú að Bandaríkin styðji frjálsar þjóðir í baráttu þeirra gegn tilraunum vopnaðra minnihluta eða erlendra ríkja til að undiroka þær.”

Truman ákvað því að byðja um skyndifund öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og kom það saman 25. júní og samþykkti að Norður-Kóreumenn hefðu rofið friðinn og ráðist á Suður-Kóreu. Þess ber þó að geta að Sovétmenn neituðu að mæta á fundi Sameinuðu þjóðanna í mótmælaskyni við það að þær neituðu að viðurkenna stjórn Mao Tse-tung í Kína, og þessvegna gat fulltrúi Sovétmanna í öryggisráðinu ekki beitt neitunarvaldi sínu. Hinn 27. júní samþykkti svo öryggisráðið tillögu Bandaríkjamanna um að senda herlið til Kóreu til að koma á status quo (þ.e. að ná fram ástandi sem var áður). Þetta markaði tímamót í sögu Sameinuðu þjóðanna og Þjóðabandalagsins því þetta var í fyrsta skipti sem ákveðið var að beita hervaldi gegn árásaraðila. Þremur dögum seinna ákvað Truman að bandarískar hersveitir sem staðsettar voru í Japan skildu sendar til Kóreu og að 7. flotinn skildi sendur til Formósusunds til að koma í veg fyrir að borgarastríðið í Kína blossaði upp. Hann ákvað svo einnig að hershöfðinginn Douglas MacArthur, sem hafði getið sér góðs orðs í seinni heimsstyrjöldinni, skildi stjórna hernum.

Á meðan hélt sókn Norður-Kóreumanna áfram af fullum þunga og 29. júní náðu þeir Seoul, höfuðborg Suður-Kóreu. Hinn 8. júlí var MacArthur svo skipaður yfirmaður liðs Sameinuðu þjóðanna en í því voru hersveitir frá Bandaríkjunum, Ástralíu, Belgíu, Lúxemborg, Kanada, Kólumbíu, Eþíópíu, Frakklandi, Bretlandi, Grikklandi, Hollandi, Nýja Sjálandi, Filippseyjum, Suður Afríku, Tælandi og Tyrklandi ásamt sjúkraliðssveitum frá Danmörku, Indlandi og Svíþjóð. Bandaríkjamenn kölluðu þetta “lögregluaðgerðir”. Hernaðaraðgerðum skildi stjórnað af Sameinuðu þjóðunum.

Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hefði gengið til liðs við Suður-Kóreu hélt sameinaður her þeirra áfram að hörfa undan sóknarþunga Norður-Kóreu. Hinn 1. ágúst hafði herinn hörfað alla leið að litlu landsvæði við hafnarborgina Pusan. Þetta svæði var einungis 129 km langt frá norðri til suðurs og um 80 km breitt en þar tókst Bandaríkjamönnum loks að stöðva sókn Norður-Kóreu.

Bandaríkjamenn í sókn
Það var svo 15. september 1950 að MacArthur hratt af stað stórsnjallri en jafnframt áhættusamri gagnsókn. MacArthur skipaði varaliði sínu að í stað þess að styrkja hersveitirnar við Pusan ætti það að ganga á land fyrir aftan víglínuna nánar tiltekið við Inchon sem er um 40 km vestan við Seoul. Þetta var mikil áhætta, ekki einungis vegna hættulegrar mótspyrnu heldur aðallega vegna aðstæðna við lendingu. Mikill munur var á flóði og fjöru, eða um 10 m, og einungis var hægt að flytja lið í land á flóði, sá takmarkaði liðstyrkur sem gekk á land í fyrsta flóði varð því að halda stöðunni fram að næsta flóði. Áhættan borgaði sig, hersveitirnar náðu öruggri fótfestu við Inchon og skáru á aðflutningsleiðir hers Norður-Kóreu og gerðu sig líklegar til að króa hann inni. Norður-Kóreumenn sáu að aðstaða þeirra var vonlaus hófu óskipulagt undanhald til að lenda ekki í klóm Bandaríkjamanna. Herliðið sem hafði verið við Pusan rak síðan undanhaldið og sameinaðist svo hersveitunum sem gengu á land. Seoul var svo hertekin og 30. september, einungis 15 dögum eftir að gagnsókn hófst höfðu hersveitir Bandaríkjanna tekið 125.000 stríðsfanga og rekið herlið Norður Kóreu alla leið norður fyrir 38. breiddargráðu.

Nú var komið að vendipunkti í stríðinu. Herlið Sameinuðu þjóðanna, sem samanstóð aðallega af Bandarískum hermönnum (um 260.000 bandarískir en bara 35.000 frá hinum löndum S.Þ.), hafði á skömmum tíma og með tiltölulega litlu mannfalli (rúmlega 10.000 hermenn frá S.Þ.) hrundið innrás kommúnista. En nú blasti það við að veikur og illa skipulagður her Norður-Kóreumanna gat ekki veitt mikla mótspyrnu eins og var þó svo að víst væri að þegar skipulag væri komið á hann aftur þá gat ekkert komið í veg fyrir að hann réðist aftur inn í Suður-Kóreu um leið og Sameinuðu þjóðirnar færu. Þessvegna var það mjög freistandi að nota tækifærið og láta hné fylgja kviði og gera út um her Norður-Kóreu og sameina Kóreu undir eftirliti Sameinuðu þjóðanna. Þannig hefðu Bandaríkin ekki einungis hrundið sókn kommúnista heldur líka styrkt stöðu sína í Asíu til muna.

Það var nánast eingöngu ákvörðun Bandaríkjamanna að ráðast yfir 38. breiddargráðu. Þegar sveitir Bandaríkjanna voru komnar að landamærunum sendi MacArthur fyrirspurn til Washington þar sem hann spurði hvað ætti að gera í stöðunni. Svarið hljóðaði svona:
“Við óskum þess, að þú haldir áfram aðgerðum þínum án nokkurra skýringa eða tilkynninga og látir framkvæmdir gera út um málið. Ríkisstjórn okkar vill á þessu stigi málsins forðast allar deilur um 38. breiddarbaug þangað til við höfum framkvæmt áætlun okkar.”
Þannig atvikaðist það að hersveitir MacArthurs héldu sókn sinni áfram yfir 38. breiddargráðu strax hinn 30. september. Þann sama dag gáfu Kínverjar út yfirlýsingu þess efnis að herlið Sameinuðu þjóðanna í Norður-Kóreu ógnaði öryggi Kína sem yrði þar af leiðandi neytt til þátttöku í stríðinu. Það var þó ekki fyrr en 7. október að alsherjarþingið samþykkti innrásina, viku eftir að hún hófst. Nokkur aðildarríki töldu sig þó ekki geta veitt atkvæði sitt vegna þess að þá væru þau að gera það sama og Norður-Kórea hefði verið að gera þegar Sameinuðu þjóðirnar lýstu þeim stríði á hendur, það var síðan ákveðið að Bandaríkjamenn skildu ávallt vera í fararbroddi hersveitanna.

Þrátt fyrir fleiri aðvaranir frá Kínverjum út október héldu hersveitir Sameinuðu þjóðanna áfram sókn sinni sem gekk vel vegna þess að her Norður-Kóreu veitti nánast enga mótspyrnu. Á meðan fóru Kínverjar að safna herstyrk sínum saman við Yalu á, en hún markaði landamærin milli Norður-Kóreu og Mansjúríu sem er hluti að Kína. Bandarískar hersveitir nálguðust Yalu jafnt og þétt og í síðari hluta október voru fremstu hersveitir þeirra nánast komnir að ánni en þar voru þá samankomnir um 250.000 kínverskir hermenn.

Innrás Kínverja
Í byrjun nóvember róaðist nokkuð á vígstöðvunum vegna hinnar yfirvofandi breytingar á stríðinu. Reynt var að semja við Kínverja um að þeir hefðu yfirráð á ákveðnu belti við landamæri Mansjúríu og virtust Kínverjar ætla að fallast á það. Menn bjuggust við því að friðarsamningar yrðu undirritaðir 24. nóvember en þá kom sendinefnd Kínversku stjórnarinnar til New York og það eina sem vantaði var samþykki Douglas MacArthurs. Í stað þess að veita samþykki sitt hóf MacArthur stórsókn með um 100.000 manna herlið þennan sama dag og ætlaði sér að ná alla leið að landamærum Kína og geta sent herliðið heim fyrir jól. Þessi áætlun MacArthurs breyttist þó aðeins tveim dögum seinna, eða 26.nóvember, þegar 180.000 óþreyttir Kínverskir hermenn bættust í lið Norður-Kóreu, hermenn sem voru mun betur vopnum búnir en Norður-Kóreumenn. Mikið mannfall varð í liði bandaríkjamanna og þeir tóku að hörfa undan sókn kommúnista. Þetta olli miklu uppnámi í Bandaríkjunum og margir voru uggandi um að kjarnavopnum yrði beitt, það var jú Truman sem heimilaði að kjarnavopnum yrði beitt gegn Japönum í seinni heimsstyrjöldinni.
Bandaríska stjórnin var skelfingu lostin. Á blaðamannafundi 30. nóvember sagði Truman forseti, að “Bandaríkin muni beita öllum tiltækum ráðum til þess að stöðva framsókn Kínverja.” Aðspurður að því, hvort “með öllum tiltækum ráðum” ætti hann einnig við notkun kjarnorkuvopna, svaraði hann: “Ég á við öll þau vopn, sem við höfum yfir að ráða.” Ríkisstjórnin var sannfærð um, að árás Kínverja þýddi að Sovétmenn væru nú reiðubúnir að hefja stórsókn og bjóst við árás þeirra “nú þegar, í dag, á morgun eða með vorinu eða sumrinu”

Með tilkomu Kínverja höfðu Bandaríkjamenn ekki lengur alger yfirráð í lofti. Kínverjar höfðu yfir að ráða MiG-15 þotum sem fyrir stríð voru taldar bestu orrustuflugvélar í heimi en það átti eftir að breytast með tilkomu bandarísku F-86 Sabre flugvélanna og í Kóreustríðinu voru fyrstu loftbardagar hljóðfrárra þotna.
Bandaríkjamenn voru hraktir frá Norður-Kóreu og þurftu að þola mikið mannfall. 15. desember var víglínan svo aftur við 38. breiddargráðu. Kínverjar stoppuðu þó ekki við landamærin frekar en Bandaríkjamenn og 31. desember hófu kommúnistar stórsókn 500.000 hermanna, 4. janúar 1951 náðu þeir svo höfuðborginni Seoul á sitt vald. Framsókn þeirra var síðan loks stöðvuð 15. janúar langt sunnan við Seoul.
Bandaríski herinn hóf svo að sækja á ný hinn 25. janúar og 21. febrúar hóf allt lið Sameinuðu þjóðanna öfluga sókn sem hét því ógeðfellda nafni “Operation Killer”, hún heppnaðist og 14. mars var Seoul hertekin einu sinni enn og var það í síðasta skipti í stríðinu.

Þann 11. apríl leysti Truman MacArthur frá störfum eftir mörg agabrot og Matthew Ridgway sem hafði verið næstráðandi við herstjórnina tók algerlega við henni. Douglas MacArthur snéri heim til bandaríkjanna og var hylltur sem þjóðhetja og voru fagnaðarlætin það mikil að annað eins hefur sjaldan eða aldrei sést í sögu Bandaríkjanna. Hann hélt síðan fræga ræðu sem hann lauk með orðunum:
“I now close my military career and just fade away - an old soldier who tried to do his duty as God gave him the light to see that duty. Goodbye.”

Á meðan hélt stríðið áfram í Kóreu og 22. apríl hafði bandaríski herinn komist norður yfir landamærin og tekið sér stöðu nokkuð norðan við þau. Sú lína átti lítið eftir að breytast til loka stríðsins. Nú tóku við bardagar þar sem fremur auðvelt var að verjast, hvorugur aðilinn gat sótt fram en mannfall var oft mikið og hefur stöðunni stundum verið líkt að því leiti við skotgrafahernað í fyrri heimsstyrjöldinni, þó svo að bardagaaðferðirnar sjálfar hafi auðvitað verið allt annars eðlis. Herstyrkur Sameinuðu þjóðanna var um 300.000 en kommúnistar voru um 1.200.000 eða um það bil fjórum sinnum fleiri, en mun verr vopnum búnir.

Friðarumleitanir hófust en gengu hægt vegna deilumála um ýmis efni eins og fangaskipti og meinta stríðsglæpi á báða bóga, svo tafði það auðvitað fyrir að blóðugir bardagar geisuðu allan tímann í Kóreu. Viðræður drógust því verulega á langinn og ekki náðist að semja um vopnahlé fyrr en eftir að Stalín hafði látist og hershöfðinginn Dwight D. Eisenhower hafði náð kjöri sem forseti Bandaríkjanna en hann hafði einmitt á stefnuskrá sinni að stöðva Kóreustríðið og spilaði slagorðið “I will go to Korea” þar stórann hluta.

Stríðinu líkur
Vopnahlé var undirritað tveimur árum eftir að víglínan hafði staðnað eða 27. júlí 1953, þremur árum og einum mánuði eftir að stríðið hafði byrjað. Þegar spurt var um úrslit stríðsins og það sem hafði unnist með því varð mönnum fátt um svör, um 54.000 Bandaríkjamenn létu lífið, 500.000 Norður-Kóreumenn, 1.000.000 Kínverjar og um 1.300.000 Suður-Kóreumenn. Ekkert ríkjanna sem tóku þátt í stríðinu stóðu áberandi betur að vígi eftir það heldur en fyrir, en auðvitað reyndu þau öll að gera sem best úr tapi sínu á einn eða annan veg. Norður-Kóreumenn lýstu yfir sigri á Bandaríkjamönnum sem höfðu gefist upp, þeir kölluðu þetta sigur á heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Norður-Kóreumenn höfðu þó þurft að borga þennan “sigur” dýru verði. Allt landið var í rúst, efnahagurinn, iðnaðurinn, landbúnaðurinn og herinn líka. Kínverjar efldu að vísu stöðu sína með frammistöðu sinni í Kóreu en þeir náðu ekki að ná yfirráðum á öllum skaganum eins og þeir höfðu ætlað sér, ennfremur tafði stríðið mjög fyrir framförum í hinu nýfædda ríki Mao Tse-tung. Ennfremur beið her þeirra mikinn skaða og þeir misstu megnið af flugher sínum, þeir misstu um 800 MiG-15 þotur á meðan Bandaríkjamenn misstu aðeins 58 F-86 Sabre þotur (bandarískar tölur). Bandaríkjamenn höfðu samt sem áður beðið mikla álitshnekki í stríðinu, jafnt heima sem erlendis og þó svo að þeir hugguðu sig við það að hafa rekið kommúnista úr Suður-Kóreu og styrkt hernaðarstöðu sína í Asíu þá voru þeir sífellt minntir á það að þeir hefðu getað hætt stríðinu 30. september 1950, áður en þeir réðust inn í Norður-Kóreu, með fimm sinnum minna mannfall en engu síðri ávinning. Ef það er einhver þjóð sem getur talist sigurvegari Kóreustríðsins þá eru það Japanir. Þeir, sem voru í óða önn að byggja landið upp eftir seinni heimsstyrjöldina, urðu mikilvægur bandamaður í stríðinu og fengu þarna kærkominn markað til að selja framleiðsluvörur sínar enda áttu Bandaríkin mikil viðskipti við þá.

Sú þjóð sem tapaði tvímælalaust stríðinu var náttúrulega Suður-Kórea. Landið var rústir einar, 1,3 milljónir höfðu látið lífið og margir særst til lífstíðar. Efnahagur og iðnaður voru í lamasessi og það sem er sorglegast við þetta allt saman er að sennilega hefði það verið þeim fyrir bestu að engir hefðu reynt að “frelsa” þá frá kommúnismanum. Sannleikurinn er nefnilega sá að á þeim tíma er Norður-Kórea gerir innrás þá voru aðstæður ekkert lýðræðislegri í Suður-Kóreu heldur en hjá frændum þeirra norðan við landamærin. Syngman Rhee var einráður harðstjóri og sennilega komst hann til valda með kosningasvindli, sem varla hefur verið erfitt vegna þess að aðeins 30 eftirlitsmenn voru frá Sameinuðu þjóðunum er kosningarnar fóru fram.
Nú er talið fullvíst að þrátt fyrir grun stjórnmálamanna áttu Sovétmenn engan þátt í innrásinni enda hefðu þeir getað staðið mun betur að málunum ef þeir hefðu viljað. Þeir hefðu í fyrsta lagi getað komið í veg fyrir að lið Sameinuðu þjóðanna hefði farið til Kóreu með því að senda fulltrúa sinn á fund Sameinuðu þjóðanna og beita neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu. Aftur á móti notfærðu Sovétmenn sér stríðið fyrst það var byrjað á annað borð og veittu Norður-Kóreu ýmiskonar stuðning, bæði í gegnum setu sína í Sameinuðu þjóðunum og með hernaðarlegum stuðningi því auðvitað var það þeim í hag ef valdasvæði kommúnista í heiminum stækkaði. Bandaríkin voru þó enginn frelsari að reyna að hjálpa lítilli þjóð í neyð, Kóreustríðið var í raun bara hluti af valdatafli kalda stríðsins þar sem kommúnistar léku fram peði og ógnuðu kapitalísku peði, Bandaríkin sáu sér leik á borði og fórnuðu peðinu til að geta komið fram sterkari manni í þess stað og valda þannig peðin í kring.

Valdajafnvægið í heiminum breyttist nokkuð við styrjöldina. Bandaríkin höfðu í fyrsta skipti háð stríð sem þeir unnu ekki en voru samt komnir með fastan her á Kóreuskagann. Kínverjar höfðu sýnt mátt sinn og juku þannig líka völd sín í Asíu. Sovétmenn höfðu hinsvegar tapað nokkrum völdum.
Samskipti milli Kóreuríkjanna voru óhemju stirð eftir stríðið og sárin hafa tekið langan tíma að gróa. Það var ekki fyrr en árið 1986 sem landamærin milli ríkjanna opnuðust að nýju svo að sundraðar fjölskyldur gátu sameinast. Það var aldrei saminn friður á milli ríkjanna og í raun og veru ríkti þar aðeins vopnahlé þangað til að Norður-Kórea og Suður-Kórea undirrituðu sátta- og griðasáttmála 13. desember árið 1991. Þannig hefur Kórea verið eitt besta dæmið um hvernig stórveldi hinum megin á hnettinum geta lagt heila þjóð í rúst.

( Þetta er gömul ritgerð frá mér sem ég rakst á og datt í hug að einhverjir hefðu vísindalegan áhuga á, einnig bendi ég fólki á að lesa http://en.wikipedia.org/wiki/Korean_War )

~~ ÞETTA SVÆÐI TIL LEIGU ~~ •  • X - Gvendur 2015!
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Hakuchi 26/2/05 17:52

Bravó! Bravó! Stórskemmtileg samantekt á Kóreustríðinu. Það er gott að rifja þetta upp.

‹Klappar látlaust›

Það mætti sannarlega vera meira af fræðum af þessu tagi á Vísindaakademíunni. Ekki bara um sögu heldur allan andskotann sem fróðlegt má teljast.

Látið nú ljós ykkar skína Bagglýtingar! Fræðum hvort annað um heima og geima.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Steinríkur 26/2/05 18:09

Er þetta virkilega rétti staðurinn til að birta gamlar grunnskólaritgerðir? ‹Strunsar út af sviðinu og skellir á eftir sér›

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Hakuchi 26/2/05 18:14

Troddu því upp í boruna á þér Steingrímur og reyndu bara að toppa þetta með fróðlegri ritgerð.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Steinríkur 26/2/05 19:25

Steingrímur!? Það er lágmark að þú náir nafninu rétt þegar þú ert að móðga fólk, Fratuxi minn.

Svo var ég að spyrja hvort þetta ætti heima hérna - ekki að setja út á meint gæði...

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Ég sjálfur 26/2/05 20:32

Pannt ekki lesa!

Sönnun lokið.
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Skabbi skrumari 27/2/05 04:11

Ég ætla að lesa þetta, enda fróðleiksfús annað en sumir... en geri það líklega á morgun þegar ég er ekki eins útúrdrukkinn og núna... Skál

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Hakuchi 27/2/05 17:59

Steinríkur mælti:

Steingrímur!? Það er lágmark að þú náir nafninu rétt þegar þú ert að móðga fólk, Fratuxi minn.

Svo var ég að spyrja hvort þetta ætti heima hérna - ekki að setja út á meint gæði...

Þetta á sannarlega heima hér. Hvers kyns vísindi eiga hér heima, hvort sem það eru raunvísindi ellegar hugvísindi.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð
Ólafur 2/3/05 17:05

Kærar þakkir fyrir stórfróðlega lesningu.

Það kviknar í huga mér ein spurning sem sögufróðir Bagglýtingar geta e.t.v. svarað:
Það mun yfirleitt álitið að Sovétmenn hafi gert afdrifarík mistök þegar þeir mættu ekki á fundinn í öryggisráðinu sem heimilaði innrás S.Þ. í Kóreu og veittu vesturveldunum þannig blessun þessara nýstofnuðu samtaka yfir hervernd Suður Kóreu.
Ákvörðunin um að blessa yfir innrásina norður fyrir 38. gráðu og að halda henni áfram hefur (ef marka má innleggið - og ég dreg ekki í efa) verið tekin á fundi allsherjarráðs (general assembly) SÞ þar sem Sovétmenn og Kínverjar hafa ekki neitunarvald frekar en aðrir. Hvernig stóð á því að öryggisráðið fjallaði ekki um þetta mál?

Ég get heldur ekki stillt mig um að gera athugasemd við þá niðurstöðu að Suður Kóreumenn hafi öðrum fremur verið fórnarlömb og peð í þessu stríði og að hagsmunir Bandaríkjanna hafi einir sér öllu ráðið um stuðninginn við Suður Kóreu. Í fyrsta lagi er augljóst að það voru Norður Kóreumenn sem lokuðust inni í stalínísku einræðisríki. Þar er enn manngert helvíti á jörð.
Í öðru lagi er mikill munur á Truman kenningunni og þrögnu sérhagsmunapoti og það var vitaskuld ástæða þess að allar þær þjóðir sem taldar eru upp í innlegginu reyndust tilbúnar til að senda herlið til aðstoðar eftir innrás Norður Kóreu.

Kalda stríðið var aldrei stríð tveggja álíka myrkra afla. Það er jafn fráleitt og að líta á kalda stríðið sem enn geisar á Kóreuskaga sem togstreitu tveggja sambærilegra ríkja /ríkisstjórna / hugmynda.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Gvendur Skrítni 3/3/05 10:15

Ólafur mælti:

Kærar þakkir fyrir stórfróðlega lesningu.

Það kviknar í huga mér ein spurning sem sögufróðir Bagglýtingar geta e.t.v. svarað:
Það mun yfirleitt álitið að Sovétmenn hafi gert afdrifarík mistök þegar þeir mættu ekki á fundinn í öryggisráðinu sem heimilaði innrás S.Þ. í Kóreu og veittu vesturveldunum þannig blessun þessara nýstofnuðu samtaka yfir hervernd Suður Kóreu.
Ákvörðunin um að blessa yfir innrásina norður fyrir 38. gráðu og að halda henni áfram hefur (ef marka má innleggið - og ég dreg ekki í efa) verið tekin á fundi allsherjarráðs (general assembly) SÞ þar sem Sovétmenn og Kínverjar hafa ekki neitunarvald frekar en aðrir. Hvernig stóð á því að öryggisráðið fjallaði ekki um þetta mál?

Ég get heldur ekki stillt mig um að gera athugasemd við þá niðurstöðu að Suður Kóreumenn hafi öðrum fremur verið fórnarlömb og peð í þessu stríði og að hagsmunir Bandaríkjanna hafi einir sér öllu ráðið um stuðninginn við Suður Kóreu. Í fyrsta lagi er augljóst að það voru Norður Kóreumenn sem lokuðust inni í stalínísku einræðisríki. Þar er enn manngert helvíti á jörð.
Í öðru lagi er mikill munur á Truman kenningunni og þrögnu sérhagsmunapoti og það var vitaskuld ástæða þess að allar þær þjóðir sem taldar eru upp í innlegginu reyndust tilbúnar til að senda herlið til aðstoðar eftir innrás Norður Kóreu.

Sú staðreynd að Bandaríkjamenn hafi ákveðið að halda stríðinu áfram eftir að 38. breiddargráðu var náð hefur alltaf farið frekar lágt og lítið verið til umræðu varðandi Kóreustríðið, það þótti á tímanum frekar augljóst mál að Bandaríkjamenn myndu ekki stoppa við landamærin, lofa NK að endurskipuleggja sig til nýrrar gagnsóknar, það sama átti sér stað árið 1991 þegar Íraksher var hrakinn frá Kúveit og olli ekki miklu fjaðrafoki. Þetta er nokkuð kommon sense og enginn bjóst við öðru, það var stríð á milli tveggja herja í gangi og menn verða ekkert stykkfrí með því að hörfa til baka yfir landamæri sem NK kaus að virða að vettugi með innrásinni.
Það að McArthur skuli hafa hleypt af stað nýrri sókn til að hernema alla Kóreu og kalla þannig Kínverja til stríðsins þegar allt útlit var fyrir að hægt væri að ljúka stríðinu með yfirburða stöðu Bandaríkjamanna við Yalu á er hinsvegar mun vafasamari hlutur og hernaðarlega óskiljanlegur.
Varðandi það að SK hafi ekki verið aðal fórnarlömb stríðsins þá finnst mér það hreint út sagt fráleitt. NK fór illa út úr stríðinu en þeir hófu líka stríðið og eiga því erfiðara með að gera tilkall til fórnarlambs stimpilsins. Víglína stríðsins fór líka bara tvisvar yfir NK á meðan hún fór 4 sinnum yfir SK. Þó að Bandarískir hermenn hafi litið á sig sem bandamenn og frelsara SK þá leit það svo sannarlega ekki þannig út fyrir þeim fáránlega fjölda óbreyttra SK-búa sem féllu fyrir þeirra hendi, þar er ég ekki bara að tala um loftárásir á þorp í SK heldur líka hópa flóttamanna sem voru skotnir af færi af Bandaríska hernum.
Lesið þetta: http://www.bbc.co.uk/history/war/coldwar/korea_usa_01.shtml
Þarna er rætt um atvik sem var loksins sannað 50 árum eftir að stríðinu lauk þar sem 400 flóttamenn voru myrtir á einu bretti.

Tilvitnun:

'There was a lieutenant screaming like a madman, fire on everything, kill 'em all,' recalls 7th Cavalry veteran Joe Jackman. 'I didn't know if they were soldiers or what. Kids, there was kids out there, it didn't matter what it was, eight to 80, blind, crippled or crazy, they shot 'em all.'

Suður Kóreumenn voru drepnir af NK mönnum, Kínverjum og Bandaríkjamönnum í stríði sem þeir hófu ekki, talið er að um 50.000 SK hermenn hafi fallið í stríðinu, ég læt ykkur eftir að reikna út fjölda óbreyttra borgara sem féllu.
Ég skil hinsvegar að þú lítir á NK sem hið raunverulega fórnarlamb stríðsins með tilliti til hvernig málin hafa þróast þar síðan stríðinu lauk og ég er sammála því að NK er eitt af ömurlegustu ríkjum heims, þar þarf eitthvað að gerast en ég sé enga hernaðarlega leið til þess sem er núverandi íbúum landsins til góða. En hvað útreiðina í stríðinu sjálfu varðar þá á SK alla mína samúð.

Ólafur mælti:

Kalda stríðið var aldrei stríð tveggja álíka myrkra afla. Það er jafn fráleitt og að líta á kalda stríðið sem enn geisar á Kóreuskaga sem togstreitu tveggja sambærilegra ríkja /ríkisstjórna / hugmynda.

Bandarískum hermönnum var skipað að líta á alla óbreytta borgara við víglínurnar sem óvinveitta, lestu greinina sem ég vísa í hér að ofan, hún kann að varpa ljósi á hversu myrk öfl voru þarna að verki.
Höfuðborg NK var jöfnuð algerlega við jörðu, TVÖ hús stóðu eftir, Bandaríkjamenn vörpuðu yfir ÞÚSUND sprengjum á hvern ferkílómetra borgarinnar. Bandaríkjamenn voru engu skárri en NK menn og Kínverjar á þessum tíma.
SK og NK voru meira að segja ekki svo ósvipuð í stjórnarfari í raun og veru, báðum var stjórnað af einvöldum sem hvorugur vildi framfylgja vilja fólksins til að sameina Kóreu að nýju ef það þýddi að þeir myndu tapa völdum. Aðal munurinn fólst í mismunandi bandamönnum.
Og fyrst þú nefnir ástandið á Kóreuskaganum í dag þá verð ég að spyrja þig hvaða stöðu þú haldir að Bandaríkjamenn séu búnir að setja NK í? Annaðhvort munu þeir eyða öllum gjöreyðingarvopnum, sem virkaði svo æðislega vel fyrir Íraka eða þá að þeir munu halda þeim til að minnka líkur á innrás, ef þú værir við völd í NK og vildir halda lífi, hvort myndir þú gera? (Þetta á við um Íran líka)
Íran og NK eru á yfirlýstum óvinalista Bandaríkjanna, Bandaríkin eru herská þjóð sem á síðustu 4 árum hefur lagt undir sig tvö lönd af þessum yfirlýsta óvinalista.

~~ ÞETTA SVÆÐI TIL LEIGU ~~ •  • X - Gvendur 2015!
 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Dr Zoidberg 3/3/05 12:06

Þetta var nú nógur sögufróðleikur þennan daginn. Glæsilegt.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Vímus 3/3/05 14:12

Þetta var magnaður lestur sem sýnir enn betur hvernig Bandaríkjamenn hafa verið í gegnum tíðina og eru enn. Ég hef reyndar lesið um þetta áður og séð mynd á Discovery sem fjallaði um þetta tilgangslausa stríð. Þar voru tölur fallinna sagðar 4,5 m. sem ég man ekki hvernig skiptust. Þessi tvö lönd, S og N kórea eru lítið stærri en Ísland.
Fljótlega eftir að Bandaríkjaforseti lýsti stríðinu í Írak lokið, hafði ég á orði að nú gæti hann sent herinn áfram inn í Íran og nú virðist það vera næsta skref Texas-morðingjans og það á sömu forsendum og hann hóf Íraksstríðið. Getur verið að ástæðan fyrir því að hann geri ekkert í málum N kóreu sem þó segjast vera búnir að koma sér upp kjarnorkuvopnum sé sú að þar er ekki olíu að finna eins og í Íran. Eitt er víst að mér líst ekki á ástand heimsins næstu árin ef þessi geðsjúklingur verður við völd.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð
Ólafur 5/3/05 03:30

Hér er sannarlega gaman. Kærar þakkir fyrir fróðleikinn. Það sem ég átti við með spurningunni var einfaldlega (nördaleg) pæling um SÞ. þ.e. ég hef áður séð fjallað um hvernig Sovétmenn klúðruðu því að nota neitunarvaldið til að koma í veg fyrir að SÞ vernduðu S Kóreu en ég hef aldrei séð fjallað um hvernig vesturveldunum tókst að koma í veg fyrir að fjallað væri um sóknina norður fyrir 38 gráðu í öryggisráðinu fremur en allsherjarráðinu.

Og nú að heimsveldinu sem við elskum að hata.
Vonandi er enginn hér svo viti firrtur að vilja yppta öxlum yfir morðum á 400 manns. Það er illska sem erfitt er að ná hugsun sinni utan um að nokkur viti borinn einstaklingur geti tekið ákvörðun um að skjóta börn og gamalmenni jöfnum höndum í hundraðatali.
Gagnvart slíkum risadæmum um mannlega vonsku er erfitt að halda þræði og ætlast til þess að nokkur sjá hlutina í öðru samhengi en því að þarna hafi hið illa verið að verki.

Ég bið ykkur samt að staldra við. Erum við í raun tilbúin til þess að beita þessu sjónarmiði á aðra en Bandaríkin?

Nýlega urðu friðargæsluliðar SÞ uppvísir að því að hafa nauðgað konum og börnum í Kongó. Ekki einöngruð atvik heldur skipulögð starfsemi stórs hóps friðargæsluliða yfir langan tíma. Atvikin skipta líklega þúsundum. Teljum við þar með að Ísland eigi að segja sig úr SÞ og SÞ eigi að hætta öllum afskiptum af friðargæslu? Auðvitað ekki. Þarna hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis og við ætlumst til þess að SÞ takist á við það og haldi svo áfram sínu ágæta starfi, ekki satt? Þið gætuð réttilega bent á að það sé sitthvað að stunda skipulegar nauðganir eða skipulögð fjöldamorð en ég held að mismunandi viðhorf margra til þess sem þarna gerðist og þess sem USA hermenn gerðu í Kóreu eða fangamálsins í Abu Ghraib eigi í raun rætur í viðhorfinu til USA.

Þetta viðhorf birtist líka í því hvernig fjallað er um íhlutun USA í 3. ríki. Þegar olía er í jörðu vitum við öll að þetta snýst allt um olíuna ekki satt? En þegar engin olía er í viðkomandi ríki (Afghanistan/Kórea/Sómalía/Panama) þá drögum við ekki þann lærdóm að utanríkisstefnan snúist um fleira en olíu. Við leggjum olíukenninguna til hliðar og notum hana bara seinna þegar hún passar betur.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Steinríkur 5/3/05 14:10

Það er nú varla hægt að bera saman Afghanistan/Kórea/Sómalía/Panama og Írak (120000 manna herseta).

Kannski smá einföldun hjá mér - en samt:
Afghanistan - hefndaraðgerð (+vinsældaboost)
Kórea - sjá hér (held ég - hef ekki nennt að lesa það sjálfur)
Sómalía - 25000 manna "friðargæsla" (flipp hjá Bússa eldri síðasta mánuðinn í embætti). Clinton kallaði þá heim innan árs.
Panama - yfirráð yfir Panamaskurðinum eru engir smá hagsmunir.

 • Svara • Vitna í •  Senda skilaboð Senda póst
Úlfamaðurinn 31/5/06 15:44

Kóreustríðið var matreitt í Whashington eins og flest önnur stríð hafa verið síðan sú borg var stofnuð, mín spurning er ; hvernig, verð að lesa greinina betur til að finna út,
Bið Steinrík um að koma Ástríki fyrir á Baggalútarsíðuna líka, ekki gangi að þeir tveir séu án hvors annars neins staðar í heiminum, ekki einu sinni á Baggalútarsíðunni

matrixs@mi.is

» Gestapó   » Vísindaakademía Baggalúts   » Hvað er nýtt?
Innskráning:
Viðurnefni:
Aðgangsorð: