— GESTAPÓ —
Sjöleitið
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 1/11/07
Dabbi Star

greining á dabbistum

Fylgismenn Davíðs Oddssonar eru skemmtilegt samansafn. Þeir eru vitanlega heilt og gott fólk. En summa lasta þeirra er jöfn okkar hinna, sem erum ekki alltaf heilt og gott fólk. Enda er löstur þeirra oft aðeins einn: Blind fylgni við tákn.

Dabbistar eru til hægri, séð út frá íslenskri stjórnmálahefð. Þeir fylgja kristilegu siðgæði og gömlum og góðum uppeldisgildum ömmu sinnar. Þeir trúa á mátt sinn og megin, það mega þeir eiga, en þeirri trú fylgir stæk vantrú á öðrum. Þeir treysta ekki öðrum en sér og sínum til að stjórna. Þeir treysta engum nema sjálfum sér og Dabba.

Treystu engum nema sjálfum þér, segja menn stundum heilagir á svipinn. En í orðum þeirra býr þversögn. Því skyldi ég treysta þeim? Er sá sem engum treystir traustsins verður? Þar verður hver að dæma sig.

Það að treysta aðeins á sjálfan sig útilokar samskipti og samvinnu við aðra. Þótt oft geti verið kalt að búa á Íslandi, ekki síst á bráðnandi toppnum, er það ekki sú einangrun sem við þörfnumst.

Hægri stefnan hefur undanfarna áratugi hvatt til þess að spikið yrði skorið utan af ríkinu og fært yfir á grillandi húsbændur. Það hefur tekist bærilega og fátt sem jafnast á við velspikaðan bankamann með pírð augu.

Og sjá, spikið óx um leið og það var fært á hina lífrænu heild sem grillaði hluta af lífrænni heild á glænýju gasgrilli með vasa fyrir stál og hníf.

Nú vaknar sauðtryggur almúginn af þeirri vellíðan sem fylgdi því að vappa sumarlangt um dalina og safna spiki. Vextir og verðtryggingar hóa að úr öllum áttum og hrekja hrokkinhærð lömbin að sláturhúsinu. Þið hafið lifað ykkar sumar og nú þurfum við forða til vetrarins. Maður þarf að treysta sig og tryggja enda traustsins verður.

Auðvitað lendum við ekki öll á sláturhúsinu. Sum okkar eru svo heppin að fá að láta rýja okkur inn að skinni og æxla af okkur grillkjöt þarnæsta sumars. O jæja sami rassinn undir þeim öllum.

En við erum ekki kindur, það er ranghugmynd. Við erum menn. Við erum ekki þannig skepnur að við gerum okkur ekki grein fyrir vissu samhengi hlutanna.

Auðvitað verða alltaf til Dabbaistar. Þeir munu áfram flaðra upp um húsbónda sinn. En við hin verðum að horfast í augu við að við erum menn en ekki kindur og læra að treysta því að náunginn sé mennskur líka.

Við gætum jafnvel blandað geði við aðrar þjóðir. Sú aðferð að koma fram við aðrar þjóðir eins og þeim sé ekki treystandi og mæta þeim með hroka og yfirlæti virðist ekki hafa gengið.

Dabbistar allra flokka, sameinist um að læra að treysta. Annars lærið þið aldrei að skammast ykkar.

   (1 af 17)  
1/11/07 02:01

Skabbi skrumari

[Setur traust sitt algjörlega á Sjöleitið og engan annan]...

1/11/07 02:01

Álfelgur

Be Kind!

1/11/07 02:01

Nermal

Ísland úr Nató Davíð burt!!

1/11/07 02:01

Huxi

Jæja Þarfagreinir. Þarna hefur þú eitt stykki alhæfingu.

1/11/07 02:02

Garbo

Huxi, opnaðu augun. Ef Jarmi má alhæfa hljóta aðrir að mega það líka. Eða hvað?
Annars finnst mér þetta félagsrit góð lýsing á stöðunni.

1/11/07 02:02

Huxi

Garbo: Ég var nú ekki að banna neinar alhæfingar. Þarfi var bara að biðja um dæmi um alhæfingarog ég benti á þetta.
Og svo er ég hættur að þrasa við fólk hér um pólitík. Hún er ekki þess virði.

1/11/07 02:02

Garbo

Nei, það er satt Huxi. Það er miklu betra að láta einhverja aðra hugsa fyrir sig.

1/11/07 02:02

Texi Everto

Hvar alhæfði Jarmi?

1/11/07 02:02

Huxi

Garbo: Ekki vera sv bjartsýn að halda að ég muni ekki þrasa við fólk um pólitík, hér eftir sem hingað til. En ég mun ekki gera það hér á Lútnum. Merkilegheitastuðullinn á pólitísku argaþrasi er það miklu lægri en á Baggalút að þessi tvo svið verða ekki sameinuð.

1/11/07 03:00

Lopi

Huxi. Þú ert ábyggilega með flokkskýrteini í Sjálfstæðisflokknum. Þér er meira annt um hann heldur en fólkið í landinu.

1/11/07 03:00

Garbo

Texi: Í félagsriti sínu.

1/11/07 03:00

Texi Everto

Ég las þetta félagsrit hans yfir aftur og gat ekki fundið alhæfingar. Það stóð hvergi "allir sem eru X gera Y" eða neitt í líkingu við það. En ég sá aftur á móti að hann er á móti alhæfingum. Eins og til dæmis að segja að það sé samasem merki á milli þess að vera sjálfstæðismaður og að vera illgjarn. "Allir sem eru sjálfstæðismenn eru vondir. Þú ert sjálfstæðismaður og því hlýtur þú að vera vondur."

1/11/07 03:00

Texi Everto

Texi minn, getur þú ekki sleppt því að þrasa.

1/11/07 03:00

Þarfagreinir

Já, þetta rit inniheldur að því er virðist þá alhæfingu að allir 'Dabbistar' séu svona og svona. Hins vegar birtist það eftir að ég kallaði eftir dæmum um þær alhæfingar sem Jarmi var að kvarta yfir. Því getur Jarmi varla hafa verið að kvarta yfir þessari alhæfingu - eða hvað?

Annars tel ég alhæfinguna að mörgu leyti gilda. Hannes Hólmsteinn lýsti síðan sama hópi manna á svipaðan hátt - nema hann meira að segja sagði alla Sjálfstæðismenn vera svona; að þeir vildu bara 'græða á daginn og grilla á kvöldin', og láta hann Davíð sjá um pólitíkina. Þannig var alhæfing hans meiri en alhæfing Sjöleitisins, skemmtilegt nokk.

1/11/07 03:00

Garbo

Texi: Stikkorðið er hálfviti. Hann telur upp alla stjórnmálaflokkana nema VG . Ég held að allir hljóti að sjá hvað hann er að meina.
Annars lýsi ég hér með eftir Jarma.

1/11/07 04:01

Sjöleitið

Skil ekki alhæfingarumræðuna. Missti af því sem á undan fór. Annars þykir mér Þarfagreinir skynsamur í greiningu sinni.

1/11/07 04:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

Ég tek heilshugar undir þá alhæfingu, að eitt eiga allir Dabb-istar sameiginlegt.

Skál !

1/11/07 05:01

Glúmur

Allar hugsanir eru þvæla.
Allar fullyrðingar eru svo mikil þvæla að hugsanirnar fara hjá sér.
Einhversstaðar inni í allri þvælunni er svo sannleikurinn, kyrfilega dulbúinn sem ranghugmynd.

Sjöleitið:
  • Fæðing hér: 11/8/03 14:00
  • Síðast á ferli: 6/4/13 19:49
  • Innlegg: 49
Eðli:
Sannur Íslendingur, leitandi, frjór og fundvís.
Fræðasvið:
götótt svart pappaspjald
Æviágrip:
Fyrir allmörgum árum varð móðir Sjöleitis vör við frumubreytingar í sér. Þær voru góðkynja - karlkynja - Sjöleitið. Óljóst var um föðurinn, en móðir hans þóttist viss um að Sjöleitið hefði komið undir á sjöunda leiti í blindhæðahrinu í Húnavatnssýslu á skólaferðalagi Balalækjarskóla.

Nokkru eftir fæðinguna fluttust mæðginin til Kanada. Þar lagði Sjöleitið stund á stjörnuhimininn, þverskurðarmyndir og kafarabúninga. Rannsóknir Sjöleitis þróuðust seinna út í geimbúningsfræði sem er undirgrein þjóðbúningafræða við Háskólann í Manítóba.