— GESTAPÓ —
Sjöleitið
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 2/11/03
Eggið og hænan

um birtingarmyndir kjaftæðisins og brothætt ástand heimsmála

Margir njóta þess að fara á orðaskak. Það getur verið sálhreinsandi iðja þótt ekki sé aflinn alltaf upp á marga fiska. Orðaskakið kann að fara fram augliti til auglitis við skakþolann eða í rituðu máli og skiptast menn þá á við að hengja stafkróka sína í línur í von um að húkka andstæðinginn í augað eða ná að draga hann á svörum. Lýk ég hér með veiðilíkingum og sný mér að efninu.

Stundum nær orðaskakið milli manna þeim lægðum að þeir taka að hjakka í sama fari. (Hér væri nú aldeilis hægt að draga upp djúsí viðlíkingar en mun því sleppt í nafni siðbótar Baggalútíu.) Þegar svo er komið grípa sumir til þess að segja eitthvað í líkingu við: "Ja, er þetta ekki bara eins og að deila um hvort hafi komið á undan, eggið eða hænan?" Eða: "Þetta er bara spurningin um hænuna og eggið." Menn hafa komið hænunni og egginu að í ýmislegum samsetningum líkt og þar séu þeir komnir að hinstu rökum, brún jarðar eða týnda hlekknum.

En hver er spurningin? Er ekki hverjum heilvita nútímamanni ljóst hvort kom á undan? Er ekki harla líklegt miðað við þróunarfræðin öll að eggið hafi komið á undan hænutætlunni? Eða er staðfest að hænsnfugl sé fyrsta verpandi kvikindið á jörðu allt frá því að drottinsallsherjarsprengikraftur ákvað að dýfa jarðkringlunni í mjólk sólarinnar? Vitanlega þarf ekki að deila um að eitthvert skriðkvikindið hafi fyrr orpið í blautan svörð EGGI en fyrsta hænan rak upp gagg.

Menn hljóta að fallast á að egg er margrætt og fallegt orð. Það má ekki misnota á þennan hátt. Vilji menn draga fiðurfénað á borð við hænur inn í rökþrot sitt þá er lágmark að spyrða þversagnirnar við hænuegg og tala um "spurninguna um hænuna og hænueggið". Menn gætu jafnframt haft ýmsar varíasjónir eins og: öndina og andareggið, gæsina og gæsareggið o.s.frv.

Gætum þess að tungumálið er fjöregg mannskepnunnar og helsta aðgreining okkar frá öðrum dýrum, sem eru ekki annað en sjálfbær matvæli í besta falli. Ómarkviss notkun hugtaka er tilræði gegn mennsku okkar og móðgun við móðurlegið sem eitt sinn fóstraði nýfrjóvgað egg sem af spratt þrasgjarn einstaklingur.

Deilan um hænuna og eggið er engin deila, sama hve oft menn kunna að japla á þeirri tuggu. Þetta kann að virðast lítilvægt en tuggur af þessu tagi geta verið hættulegar. Þegar samstofna tuggur fá að dafna í slefopum ráðamanna getur jafnvel smáríki norður í Atlantshafi leiðst út í stríðsglæpabrölt suður við Persaflóa.

   (10 af 17)  
2/11/03 05:00

Ívar Sívertsen

Frábært fjelaxrit!

2/11/03 05:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

Er ekki bara spurningin; hvort kemur á undan, fjörið eða fjöreggið?

2/11/03 05:01

Z. Natan Ó. Jónatanz

(Sammála Sívertsen - flott pæling)

2/11/03 05:01

Skabbi skrumari

Góð pæling Sjöleitið...

2/11/03 05:01

Kynjólfur úr Keri

Er þetta kannski deila um keisarans (sk)egg?

2/11/03 06:00

Nafni

Eggert!

2/11/03 06:01

Sjöleitið

Kærar þakkir fyrir hlýleg orð og útúrsnúninga félagar. Þið eruð útungun ykkar til sóma.

Sjöleitið:
  • Fæðing hér: 11/8/03 14:00
  • Síðast á ferli: 6/4/13 19:49
  • Innlegg: 49
Eðli:
Sannur Íslendingur, leitandi, frjór og fundvís.
Fræðasvið:
götótt svart pappaspjald
Æviágrip:
Fyrir allmörgum árum varð móðir Sjöleitis vör við frumubreytingar í sér. Þær voru góðkynja - karlkynja - Sjöleitið. Óljóst var um föðurinn, en móðir hans þóttist viss um að Sjöleitið hefði komið undir á sjöunda leiti í blindhæðahrinu í Húnavatnssýslu á skólaferðalagi Balalækjarskóla.

Nokkru eftir fæðinguna fluttust mæðginin til Kanada. Þar lagði Sjöleitið stund á stjörnuhimininn, þverskurðarmyndir og kafarabúninga. Rannsóknir Sjöleitis þróuðust seinna út í geimbúningsfræði sem er undirgrein þjóðbúningafræða við Háskólann í Manítóba.