— GESTAPÓ —
víólskrímsl
Nýgræðingur.
Pistlingur - 31/10/04
Fylgisveinn eða friðill

Á íslensku má alltaf finna svar
og orða stórt og smátt sem er og var

- segir í skemmtilegu kvæði er sungið var í sjónvarpið af ljóðhærðri hnátu í denn.

Ég hef ávallt verið á þeirri skoðun að íslenska sé eitt ríkasta mál jarðarkringlunnar. Fá tungumál önnur búa yfir slíkum fjölda samheita og orðatiltækja. Hins vegar komst ég nýlega að því að hvað samskipti fólks varðar býr íslenskan yfir afar fátæklegum orðaforða. Þá tekur steininn úr ef reynt er að ræða um sambönd fólks af rómantískum toga.

Á íslensku eru til dæmis aðeins til þrjár tegundir frátekinna karlmanna. Sambýlismenn, kærastar og eiginmenn. Viðhöld, viðhengi, fylgisveinar, bólfélagar og friðlar teljast varla með enda minnihlutahópar í samfélaginu. Auk þess eru öll þessi orð afar merkingarhlaðin. Flestum ungum stúlkum myndi ekki þykja tiltökumál að kynna nýtt viðhengi sem kærasta í barnaafmæli en fæstar myndu kjósa að kalla hann friðil sinn þó yfirleitt sé það nær sannleikanum.

Þessi viðtekna orðnotkun veldur mér ákveðnum áhyggjum. Mér hefur nefnilega aldrei verið vel við að kalla þá ungu menn sem ég hef notið samvista við til lengri tíma kærasta. Taki ég mér það orð í munn líður mér eins og ég sé enn 13 ára með tyggjó. Eins finnst mér sá siður ungra kvenna að kalla sambýlismenn sína kallinn afar fráhrindandi. Ekki vil ég láta kalla mig kjellingu. Ei er ávallt ástæða til að nota orðið friðill eða bólfélagi og kalli ég mann fylgisvein gefur í skyn að ég þurfi að greiða viðkomandi fyrir félagskapinn. Viðhengi og viðhöld eru síst eftirsóknarverð. Þá eru góð ráð dýr.

Hér í Hollandi kallar ungt fólk í rómantískum hugleiðingum viðfang hrifningar sinnar vriend eða vriendin, sem útleggst vinur og vinkona á frónsku. Það finnst mér afar fallegur siður. Vinur er gott orð og gilt, laust við allt klístur, tyggigúmmí, vesen og tuð. Auk þess er afar gott að eiga góðan vin. Þegar upp er staðið er það það eina sem skiptir máli.

   (9 af 23)  
31/10/04 19:01

Hexia de Trix

Já en... mér finnst það svo ruglingslegt að segja „vinur“. Er þá átt við „vinur - nudge, nudge“ eða „bara-vinur“?

Annars er þetta fínt félagsrit hjá þér. Ég kalla kallinn minn nú eiginlega alltaf kallinn minn, því þó það sé ekki sérlega fallegt þá finnst mér það skömminni skárra en að segja „maðurinn minn“. Hvað annað stendur til boða þegar fólk er harðgift? Maður bara spyr. Og mér er slétt sama þó hann segi stundum „kellingin“ um mig. Ég veit að þetta er allt í góðu.

31/10/04 19:01

Hakuchi

Það er góð og gild hefð að kalla kærasta/viðhald/etc. vin. Reyndar er það sérstaklega tengt eldra fólki sem segir vinur/vinkona þegar það ræðir við ungt fólk um rekkjunauta þeirra ungu, þá helst þegar þeir eru nýtilkomnir. Þá er lögð sérstök aukaáhersla á V- í vinur til að gefa til kynna að viðkomandi sé meira en vinur/vinkona heldur Vinur (nudge nudge) eða Vinkona (nudge nudge), að sama skapi má greina að i-ið er líka aðeins lengur raddað en í hefðbundnum framburði.

Tilhugsunin um eldra fólk að segja; nú ertu kominn með Viiinkonu fyllir mig því svipuðum hryllingi og þú lýsir varðandi orðið kærasti.

Hvernig væri bara að tala hreint út. Kynntu viðkomandi bara sem elskhuga þinn (helst með löngu e-i; eeelskhugi). Það er miklu dramatískara. Svo getur þú sparað kærastanafnið fyrir fattlaus börnin.

Svo er auðvitað hægt að nota Maðurinn í staðinn fyrir karlinn, rétt eins og það er kannski virðingarverðara fyrir hetró karlmenn að vísa til Konunnar heldur en Tzjeeeeelingarinnar.

Úrvals pistill um skemmtilegt smáatriði. Hafðu þökk fyrir fröken.

31/10/04 19:02

Bölverkur

Eigum við að vera vinir?

31/10/04 19:02

Hakuchi

Vertu úti.

31/10/04 19:02

hlewagastiR

Vertu uchi.

31/10/04 19:02

Bölverkur

Ef ég eyði innleggi mínu verða tvö næstu innlegg út úr kú. Gengur þetta?

31/10/04 19:02

Leir Hnoðdal

Vill einhver af kvenþjóðarparti Baggalúts gera mér vinargreiða ?

31/10/04 19:02

Lopi

Unnusti/unnusta?

31/10/04 19:02

Smali

Ég ætla ekki að halda því fram að fiðluleikarinn hafi rangt fyrir sér en finnst þó skjóta skökku við að ætla að bæta íslenskt mál með því að velta því uppúr hollensku sem 99 prósentur heimsbyggðarinnar eru sammála um að sé hljómljótasta tungumál allra tíma.

31/10/04 19:02

Sundlaugur Vatne

Heitmaður/heitmey?
Lagsmaður/lagskona?

Alla vega var Sigríður frá Skarðsá, nú húsfreyja á Brimslæk, kölluð lagskona Ragnars áður en þau gengu í hjónaband. Ragnar var líka kallaður lagsmaður hennar og á Ýsufirði voru þau almennt sögð vera lagsfólk. Jafnvel lengi eftir að þau gengu í hjónaband.

Mér finnst lagsfólk/lagsmaður/lagskona henta vel. Þau hafa jú legið saman.

31/10/04 20:01

Lopi

Góður punktur, það er náttúrlega það sem skilur að frá vinum. Þ.e. vinir sofa ekki hjá en eru orðnir lagsmenn/lagskonur þegar svo er orðið. Svo eru menn/konur orðin Heitmey/heitmaður þegar þau hafa heitið hvor öðru að búa til börn og ala þau upp saman hvort sem það er í hjónabandi eða óvígðri sambúð.

31/10/04 20:01

Júlía

Mikill gleðidagur er það fyrir augu okkar Bagglýtinga þegar þú sendir frá þér pistla, ágæta víólskrímsl.

Ég er hjartanlega sammála þér varðandi orðið 'kærasti'. Það hljómar vel á vörum stúlkna undir og um tvítugt, en rosknar konur á þriðja eða fjórða lífsförunaut virðast hjákátlegar, taki þær sér orðið í munn. Ættingjar mínir hafa löngum stigið varlega til jarðar þegar sambönd eru annars vegar, framan af er vísað til viðkomandi sem 'vinar', þegar öllum er orðið ljóst að lítil von er til að losna við 'vininn' úr ættinni er farið að tala um 'X hennarY' og því svo haldið áfram uns slektið fær formlegt boðskort í brullaup.
Einu sinni heyrði ég skemmtilega sögu um gamla konu sem var aðeins farin að ruglast í ríminu. Hún fékk dóttur sína og tengdason í heimsókn og þóttist kannast við svipinn á kauða (enda sá þá búinn að vera giftur dótturinni í 30 ár). Til að vera viss spurði hún dóttur sína hátt og snjallt: 'Er þetta elskhugi þinn, Sigga mín?'

31/10/04 21:00

Jóakim Aðalönd

Hvad med ad kalla unnustuna/unnustann álegg?

víólskrímsl:
  • Fæðing hér: 10/12/03 20:34
  • Síðast á ferli: 8/11/13 17:14
  • Innlegg: 3
Eðli:
Útlagi. Eirir engum.
Fræðasvið:
Víólspil, lestur þungra bóka sem fara illa í tösku, karókíbarir, hjólreiðar, pípulagnir, eyðing meindýra, kurteisleg framkoma við embættismenn, volgur bjór.
Æviágrip:
Fætt og óuppalid. Eftir stormasama æsku, ormatínslu í úthverfum Reykjavíkurborgar, eltingarleiki vid lögreglu, heimspekilegar umræður vid ýmiss konar aðstæður og illa dulbúnar brottvísanir frá virðulegum menntastofnunum flúði víólskrímslið til Hollands til að mennta sig í músíkfræðum. Hefur nú aðsetur í gömlu Reykjavík, þar sem ormétin reynitré skýla því fyrir illsku heimsins,