— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 10/12/03
Fuglahræða og Vinnumaður

Sjaldséðir hvítir hrafnar

Tók tvo steingleymda gimsteina frá áttunda áratugnum í gær. Báðar voru afbragðsmyndir.

Sú fyrri er Scarecrow, frá 1973, og er með þeim Gene Hackman og Al Pacino. Stórfurðulegt að mynd með slíkum stórleikurum sé eins gleymd og raun ber vitni og sér í lagi furðulegt miðað við gæði myndarinnar. Myndin fjallar um tvo flækinga (ekki róna) sem eru að reyna að koma undir sig fótunum. Þeir hittast á flækingi og verða vinir. Annar er fyrrverandi fangi sem ætlar að fjárfesta í bílaþvottastöð í Pittsburgh og hefur safnað fyrir og skipulagt allt dæmið fjárhagslega. Hann er skaphundur og er leikinn af Gene Hackman. Hinn er fyrrverandi sjóari, viðkvæmur, ljúfur og fyndinn. Sá er leikinn af Al Pacino. Hans karakter hafði hlaupið undan lífinu og skilið barnshafandi unnustu sína eftir, fimm árum áður.

Við sjáum vináttu þeirra þróast í gegnum myndina þar sem þeir koma við víðsvegar á leiðinni til Pittsburgh, og kljást við óuppgerð mál, með mistragískum niðurstöðum.

Myndin er ekkert að flýta sér. Atburðarásin er hæg en stórkostlegur samleikur Hackman og Pacino heldur myndinni uppi. Sérstaklega Al. Þetta er Al eins og fáir hafa séð hann, löngu áður en hann fór að gelta eins og varðhundur í hverju einasta hlutverki. Svakalegt performans.
**** fyrir þessa mynd.

Hin myndin er löngu gleymdur westri frá 1971 og heitir the Hired Hand. Þetta hefur verið kallaður hippawestri enda leikstýrð af ofurhippanum Peter Fonda sem leikur líka aðalhlutverkið. Peter hafði slegið í gegn tveimur árum áður með hippamyndinni Easy Rider. Fyrir einskæra tilviljun eru kringumstæður karakteranna nánast eins og í Scarecrow. Þessi mynd líka um tvo rótlausa menn sem hafa verið á flækingi í mörg ár. Karakter Fonda hafði einmitt líka flúið barnshafandi konu sína sjö árum áður og riðið með öðrum kúreka allan þann tíma. Sá er frábærlega leikinn af Warren Oates.

Karakter Fonda er orðinn leiður á flakkinnu og ákveður að halda heim og reyna að vinna aftur hjarta konunnar sem hann yfirgaf. Vinur hans fer með, enda hefur hann ekkert betra að gera. Mestur hluti myndarinnar fjallar um það hvernig Fonda reynir að ná sambandi við konuna sína, sem afbragðsleikkonan Verna Bloom leikur. Þeir félagar mæta á býli hennar og fá að vinna þar sem vinnumenn. Inn í þetta blandast síðan hefðbundin westrasögumótíf sem fjallar um hefndina. Sá hluti er eiginlega óþarfur því heimilisdramað er nógu heillandi og vel gert að fyrir vikið er eins og hefndar/ofbeldisþátturinn sé bara settur inn af gömlum vana, eða af ótta við að sagan verði of langdregin. Það verður hún ekki, þó framvindan sé vissulega hæg, þá er það ekki slæmt. Það gengur fullkomlega upp út af athyglisverðri sögu, ótrúlega fallegri myndatöku og furðulegri en heillandi tónlist Bruce Longhorn (spilaði með Dylan ofl.).

Þessi mynd er svolítið skemmtileg fyrir þær sakir að hún virðist endurspegla einstaklega vel endalok hippismans. Fonda, überhippi númer eitt, er að leika karakter sem hefur hlaupist undan skyldum sínum og lifað í kæruleysi og flækingi í 7 ár en hvað hippisminn var auðvitað ekkert annað en ábyrgðarlaust æskuhjal og vitleysisgangur. Hann er því orðinn leiður á rótleysinu og reynir að finna fastan grundvöll í tilverunni á nýjan leik, fer heim. Takið eftir að myndin er gerð 1971. Þá var hippisminn rétt nýdauður. Dauði hans hefur verið settur á 1970-71. Þetta tímabil einkenndist að þreytu í hippahreyfingunni, fólk var búið að fá nóg af þessu og leitaði á ný mið, helst persónuleg eða andleg. Mótmælasöngvar viku fyrir persónulegum og intróspektívum söngvum hjá fólki eins og Joni Mitchell eða Neil Young. Sama má segja um þessa mynd. Þreyta og ákveðinn lífsleiði, intróspektíf leit að rótum, festu. Heillandi alveg. Úbbs. Allt of mikið.
***1/2 fyrir þessa mynd, hefndarmótífið er óþarfi og dregur niður.

   (39 af 60)  
Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.