— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/11/05
Casino Royale

...with cheese.

Ég lagði leið mína í kvikmyndahús um daginn og virti fyrir mér nýjustu afrek kynferðislega fimleikamannsins James Bond á hvíta tjaldinu. Síðustu ævintýri kappans í gervi Pierce Brosnan hafa sokkið sífellt neðar í pitt ömurleikans og bauð síðasta mynd upp á jafnógeðfellda lífsreynslu og þegar ég reyndi að lifa af hildarleikinn Batman og Robin en það tókst með naumindum.

Svo virðist sem framleiðendur hafi loksins áttað sig á að þeir stefndu myndablálknum niður í hyldýpi fáránleikans. Bondmyndirnar voru orðnar skopstæling af skopstælingum af Bond myndum. Það var löngu kominn tími á-niður-á-jörðinni-Bond mynd (eins og t.d. For your eyes only) og var slíkt reynt í síðustu mynd. Fyrri helmingurinn lofaði einstaklega góðu en eftir hlé var eins og framleiðendur hafi guggnað, sturtað niður handritinu og ákveðið að gera þriðja flokks tölvuteiknaða Bruckheimer mynd. Fyrir vikið varð sú mynd sú allra ömurlegasta í öllum bálknum.

Að þessu sinni hafa brokkólíkálhausarnir lært af mistökunum og það með glans. Casino Royale er einmitt það sem Bond bálkurinn þarfnaðist. Þetta er ólgandi hasarmynd með fæturna (að mestu) á jörðinni og hnefann í andlitinu. Hinn nýji Bond er hinn gamli Bond. Það er sterkur Connery fnykur af Daniel Craig og er það gott. Þessi Bond er kaldur morðingi sem fær meira að segja blóðnasir. Ég held að Brosnan hafi aldrei fengið mikið meira en einn hárlokk niður á enni til að sýna að hann sé að hafa fyrir hlutunum. Hasarinn er framúrskarandi og öll áhersla lögð á áhættuleik en ekki drepleiðinelgar sprengingar og tölvubrellur. Þarna var allt komið sem ég óskað eftir svo lengi, alvöru hasar, kaldari Bond, möguleiki á endurreisn bófafélagsins (Bond þarf erkióvin).

Það er einungis einn galli við alla þessa gloríu: Þetta er ekki Bond mynd. Þessi staðreynd sló mig út af laginu út alla myndina. Gert er í því að hafna gömlum og góðum Bond klisjum. Þetta var svolítið eins og vakna einn daginn og uppgvöta að klósettið hefur verið flutt inn í stofu og eldhúsið út í garð; það passaði ekkert saman. Hins vegar kemur þetta ekki að sök, eftir á að hyggja. Myndin er ekki Bond mynd en er um sköpun Bond. Það er verið að byggja upp þá persónu sem allir þekkja. Myndin formar karakterinn út í gegn og í blálokin og síðustu setningu smellur allt saman eins og flís við rass og Bond hefur fengið unaðslega endurnýjun á leyfi sínu til að vera kúl.

Daniel Craig er alvöru leikari. Það var mikill léttir að hann hafði gáfur til að taka hlutverk sitt, sem er að upplagi hálf skrípólegt, fyllilega alvarlega. Hann nær að gæða það lífi eftir að síðasti Bond hafði koðnað niður sem sorglegur miðaldra glaumgosi (Jú hann var fínn í Goldeneye en svo var allt niður á við). Það var djarft af framleiðendum að velja hann og valið hittir beint í mark. Craig verður Bond.

   (4 af 60)  
1/11/05 23:02

Furðuvera

Það var fínt að láta Bond ekki vera strax kominn með þessa "shaken not stirred" og "Bond, James Bond" frasa um leið og hann byrjaði sem 007, mér fannst alveg frábært að sjá hann þróa þá í þessari mynd. Mjög hressandi.
Svo er líka æðislegt hvað myndin er raunsæ, ekkert "destroy the world" dæmi, heldur peningar og hryðjuverk.
Ég hafði rosalega gaman af þessari Bond mynd, hef ekki séð margar en ég get ekki trúað öðru en að þessi sé meðal þeirra bestu. Sammála öllu saman.

1/11/05 23:02

Rauðbjörn

Sammála þér með að Goldeneye hafi verið síðasta alvöru Bondmyndin, fyrir utan vitaskuld þessa.
Hressandi hvernig þeir vefja söguþráðinn utan um Pokerleik, sem eiga það til einir og sér að vera spennandi sérstaklega þegar háar fjárhæðir eiga í hlut.

1/11/05 23:02

Billi bilaði

Er það ekki í "Batman og Robin" sem þeir hitta "Mr. Frosty"?

Þetta kom upp í hugann eftir að ég sá þá mynd:

Bí bí og Blaka,
fóru út að aka,
hittu þar einn vondan kall
sem breytti þeim í klaka.

1/11/05 23:02

krumpa

Á maður semsagt að láta sig hafa það að fara á Bond? (í fyrsta sinn)? Eru flottar gellur? ? ?

1/11/05 23:02

Don De Vito

Ég gæti ekki verið meira sammála öllu í þessu riti. Ég er nefnilega sjálfur gallharður Bondari og ég held alveg örugglega að ég hafi séð allar James Bond - myndirnar þökk sé Skjá Einum.

Minnar kynslóðar James Bond er hins vegar Pierce Brosnan og Goldeneye var sennilega fyrsta myndin sem ég sá, í kjölfarið koma þarna fréttamyndin sem meikaði engan sens. Goleneye hefu hins vegar alltaf verið uppáhaldið mitt. Eftir það sá ég margar af þessum Roger Moore myndum og að horfa á þær sem lítill krakki er kannski ágætt, en þegar Skjár einn sýndi þessar myndir síðan aftur datt allur ljóminn af þeim. En stöðin gerði líka annað og meira fyrir mig, hún kynnti mig fyrir Connery sem ég hafði aldrei haft metnað í að sjá þangað til þá. Hann var eitursvalur en nú þegar Craig hefur sýnt hvað hann kann, þá hefur litli James Bondinn í mér stækkað.

Kannski ég fari að nota hljóðdeyfa...

1/11/05 23:02

Don De Vito

Og já, það eru flottar gellur. Í það minnsta gella.

1/11/05 23:02

Hakuchi

Eva Green er Bondgella. Hún er rothöggsfögur.

1/11/05 23:02

Don De Vito

Hún stendur líka í hárinu honum, og endist í því alveg skuggalega lengi. Hún er þó ekki harðari en May Day ef þið munið eftir henni.

2/11/05 00:00

Jóakim Aðalönd

Ég treysti einhvern veginn þinni gagnrýni fullkomlega Hakuchi. Ég var mjög efins um þessa mynd, enda fannst mér gamla myndin ekkert spes. Mér fannst hún alls ekki góð, en úr því þú segir það, skal ég fara á myndina og njóta. Skál!

2/11/05 00:00

Magnús

Ég gekk út af síðustu mynd eftir nákvæmlega tuttugu mínútur, ég man að ég þurfti að klöngrast yfir Björgólf Guðmundsson til þess að komast út, en það var þess virði.
Mér fannst Daniel Craig komast allt í lagi frá þessu, mér fannst hann kjánalegur þegar hann játaði ást sína á Evu. Og svo er mannfjandinn ámóta sjarmerandi og grjóthnullungur.
Annað sem var að er að allar vísbendingar sem Bond fær um plottið í myndinni fær hann úr sms skilaboðum í "inboxi" vondu kallana, en mér þótti það skrýtið að menn sem eru í þesum bransa, að fremja hryðjuverk þeas, skuli ekki hafa það sem reglu að eyða skilaboðunum af fjandans símanum. En myndin er með fæturnar á jörðinni eins og þú segir og er skemmtileg.

2/11/05 00:00

Nornin

Sammála Magnúsi. Kynþokkinn þarf að leka af Bond, en Craig er lítið sexy... ef frá eru taldir þessir óstjórnlega flottu magavöðvar hans.
Connery var Bond og ég hef litla trú á að Craig nái hans hæðum.
En fyrir þín orð, Hakuchi, ætla ég að gefa spilavítinu sjens.

2/11/05 00:01

Húmbaba

Þetta var besta Bond mynd í heimi!

2/11/05 00:01

Vestfirðingur

Ég hef aldrei lent í að lesa leiðinlegt félagsrit eftir hakuchi.

2/11/05 00:01

Furðuvera

Maður verður að sjá myndina til að fatta að Craig er í raun algjört sælgæti.

2/11/05 00:02

Finngálkn

Daniel Craig lítur út eins og fermingastrákur með hrörnunarsjúkdóm og vöðvabólgu! - Það er sko deadsexy!

2/11/05 00:02

kolfinnur Kvaran

þessi mynd er meistaraverk og Daniel Craig er með þessari einu mynd búinn að taka fram úr öllum nema Connery í gæðum Bondleikara. Það eina sem ég finn að myndinni eru þessar pókersenur sem mér finnst alltof mikið af og taka af langan tíma.

2/11/05 01:00

Heiðglyrnir

.
.
.
Löngum takka lipur
lítur við með rýni
föngu-legur gripur
.
Verð að sjá þessa....Riddarakveðja.

2/11/05 01:02

Hakuchi

Gallinn við pókersenurnar er að þar er notast við póker. Þeir hefðu átt að halda sig við Baccarat eins og í bókinni. Miklu virðulegri leikur en póker.

2/11/05 15:02

Carrie

Ég er enn að anda léttar yfir að Orlando Bloom hafi ekki verið valinn til að leika Bond eins og einhvern tímann stóð til.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.