— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/11/04
Doom!

Loksins loksins!

Síðustu vikur hafa verið hræðilegar fyrir kvikmyndaunnendur. Nýafstaðin er ,,kvikmyndahátíð" sem bauð ekki upp á neitt annað en skelfilega ófrumlegar og ælandi leiðinlegar, margtuggnar og síjórtraðar klisjur. Svo virðist sem markmið hátíðarstjóra hafi verið að auka sjálfsmorðstíðni á þessu skeri. Það hefur vafalaust tekist með glans. Innihaldsleysið og fyrirsjáanlegheitin voru í aðalhlutverki og hafa sjaldan náð viðlíka hæðum og á þessu festivali eymdarinnar.

Af þeim sökum var eins og að rekast á gvendarbrunn í eyðimörkinni þegar menningarmyndin Doom var tekin til sýninga í bíóhúsum borgarinnar fyrir skömmu síðan. Ég skreið nær dauða en lífi úr andleysi plebbismans inn í bíósalinn í von um innblástur djúpstæðrar listar í þessu skammdegi vonlausrar sýndarmennsku. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Hér er á ferðinni eitt merkasta listaverk ársins. Myndin er óhrekjanlegur vitnisburður um þær hæðir sem hinn leitandi mannsandi getur náð, ef stefnt er í hæstu hæðir sköpunargleði og einlægni.

Verkið er metafór fyrir afleiðingar síðimperíalískrar stefnu Vesturveldanna gagnvart Miðausturlöndum. Sveit vaskra hermanna er send á vit hins fjarræna og enda í baráttu upp á líf og dauða við framandi verur á fjarlægri plánetu. Þarna er umgjörðin fyrir þessa stúdíu á mannseðlinu á víðsjárverðum tímum. Hver hermaður er birtingarmynd mismunandi vídda í sálu manna. Átökin eru við óþægilega kunnuglega en óþekkta ógn, sem samsvarar ótta vestræns almennings við hryðjuverk framandi manna. Ógnin, í formi skrýmsla, reynast síðan vera sjálfsköpuð ógn sem nú slær frá sér á ógnvænlegan hátt. Myndin veltir upp áleitnum spurningum um samband kúgarans og hins kúgaða.

Leikarar standa sig með sóma. Skapgerðarleikarinn Kletturinn (e. The Rock) sýnir hér enn einu sinni að hann er með fremstu leikurum samtímans í krefjandi hlutverki leiðtoga hermannanna sem þarf að kljást við erfiðar ákvarðanir. Sjaldan hefur sést önnur eins átakanleg túlkun á byrðum valdamanna og þessu hlutverki Klettsins. Ég fullyrði að hér er á ferðinni mest spennandi leikari sem komið hefur fram á sjónarsviðið síðan Robert De Niro sló í gegn á áttunda áratugnum.

Aðrir leikarar standa sig líka með prýði. Karl Urban (Hringadróttinssaga, Annálar Riðriks) tekst að skapa trúverðuga persónu hins þjakaða hermanns, sem togast á milli skyldur hermennskunnar og húmanískrar samúðar. Baugarnir sem hann nær að skapa undir augum eiga stórleik.

Allt í allt er um að ræða stórkostlegt meistaraverk frá hinni óskeikulu draumaverksmiðju, Hollywood. Myndin nærði anda minn að nýju og gaf mér vel þegið frí frá gengdarlausum ruslvarningi frá Evrópu, Asíu og öðrum óæðri kvikmyndamiðstöðvum.

Ég bíð spenntur eftir númer tvö.

   (15 af 60)  
1/11/04 05:01

Hvæsi

Skál fyrir því.
Það var ekki á stefnuskránni að sjá þessa mynd, en nú er ég búinn að skipta um skoðun.
Mun kíkja á tölvuleikjamyndina strax annaðkvöld.

1/11/04 05:01

Litli Múi

Þetta er mjög fín mynd hún kom mér mjög á óvart. Get nú samt ekki verið sammála þér um fimm stjörnur ég mundi gefa henni þrjár og hálfa.

1/11/04 05:01

Vladimir Fuckov

Frábær gagnrýni er haft gæti áhrif á hvaða myndir vjer sjáum á næstu vikum/mánuðum, jafnt í bíó sem á DVD. Nákvæmlega hver þau áhrif verða neitum vjer hins vegar að tjá oss um.

1/11/04 05:02

Jóakim Aðalönd

Ég þarf að stela þessari...

1/11/04 05:02

B. Ewing

Ég verð í myrkvuðum salnum að horfa á þetta í kvöld, get semsagt hlakkað til..

1/11/04 05:02

Hakuchi

Það getur þú svo sannarlega. Þetta er djúp, fílósófísk mynd sem lætur engan ósnortinn.

1/11/04 05:02

Heiðglyrnir

Horfir með aðdáun á orð Konungsins, sem að dansa í margbreytilegum miskunarlausum og magnþrungnum töfrum um félagsritið. [þorir ekki að segja eitt einasta orð í viðbót][Jú, nusub]

1/11/04 05:02

Limbri

Hér er félaxrit sem vert er að lesa !

Þó svo að ég fari sjaldnar í bíó en meðal rauðháls fer í bað, þá hefur þér engu að síður tekist að vekja hjá mér löngun að kíkja í myrkasal hreyfimyndana og upplifa Klettinn í sinni fullu dýrð. Tel ég að ef Elvis sé þér jafn þóknanlegur og þú lætur af vera, þá sért þú vissulega maður smekkvísi og áræðanlegur sem gagnrýnandi hreyfimynda hverskonar út frá þeim rökum. (Auk þess sem önnur skrif þín hér á Gestapó gefa einnig slíkt hið sama til kynna.)

Tel ég því jafnvel töluverðar líkur á að mynd þessi, er Doom nefnist, raki inn mínum 80 dönsku krónum í miðasölunni, verði hún á annað borð borin fram fyrir hinn danska plebba.

Hafðu þakkir fyrir Hakuchi minn kæri.

-

1/11/04 05:02

Hakuchi

Njóttu vel Limbri minn. Njóttu vel!

[Skellir hinu flókna, myrka, freudíska sálfræðidrama Commando með Schwarzenegger í DVD spilarann]

1/11/04 05:02

Limbri

[Text að fagna sjálfum sér fyrir að hafa horft á Terminator (1) í gær]

Já og Hakuchi, endilega haltu þínu striki sem flöktmynda-gagnrýnandi Gestapó. En ég bið þig vinsamlegast að fara afar varlega í stjörnurnar (þó svo ég sé alls ekki að segja að þú hafir nokkurntíman gefið ranga einkunn).

-

1/11/04 06:01

Isak Dinesen

Glæsilegt Hakuchi, þú ert meistari þeirrar listgreinar sem þú stundar hér.

1/11/04 06:01

Ívar Sívertsen

Hafðu þökk fyrir Hakuchi, þessi mynd er greinilega ekkert slor. Ég verð að sjá hana því ég er líka búinn að fá nóg af svona innihaldslausu skandinavísku, frönsku, ensku o.s.frv. rusli sem dynur á menni gegndarlaust.

Af ummælum þínum má dæma að hér er um að ræða sálfræðidrama með rómantískum undirtón. Ég er sammála því að The Rock er besti leikari nútímans. Hann ætti að fá að spreyta sig á endurgerðum á Terminator 2 eða 3.

Hef ég kannski misskilið konunginn eitthvað?

1/11/04 06:01

Hakuchi

Ekki ef þú hefur ágætis tök á kaldhæðni, nei.

1/11/04 06:01

Ívar Sívertsen

Einmitt það sem ég var að fara.

1/11/04 06:01

Jóakim Aðalönd

Ég verð samt að stela henni...

1/11/04 06:01

Vladimir Fuckov

Oflof er háð. Nú er væntanlega óhætt að upplýsa að oss fannst einstaklega gaman að lesa sumt er fylgdi í kjölfar þessa frábæra fjelagsrits.

1/11/04 07:01

Sæmi Fróði

Verður þessi ræma sýnd í ríkissjónvarpinu?

1/11/04 07:01

Barbie

DOOM! Hahahhahahahhahaha. Hvernig datt þér í hug að fara á mynd um tölvuleik með engan söguþráð? En þvílík snilldargagnrýni. Sérlega líkar mér kommentið þitt um commando hér rétt fyrir ofan. Á einmitt viljandi eftir að sleppa því að sjá hana líka, ásamt DOOM. The Rock og Robert De Niro í sama klassa..úhúhúhúhúhúhúhú [lamast tímabundið af hlátri en veltist svo um í gríðarlegum hláturkrampa beint út af sviðinu]

1/11/04 07:01

Hakuchi

ÞÚ HEFUR ENGAN SMEKK FYRIR ALVÖRU BÍÓMYNDUM!

[Strunsar grenjandi út og skellir á eftir sér]

1/11/04 01:02

Glúmur

Þetta félagsrit á eftir að draga dilk á eftir sér grunar mig. Ég sé fyrir mér hvernig myndbandaleigu umbúðir DOOM munu koma til með að líta út. Auk myndar af skrímsli sem virðist hafa verið neitað um tannréttingar verður þar einungis ein tilvitnun í gagnrýni.

"A brilliant Masterpiece - Five stars" - Hakuchi

1/11/04 01:02

Hakuchi

Ha ha ha. Þú segir það já. Þá hefur háðið náð nýjum hæðum.

1/11/04 04:00

Gunnar H. Mundason

Það fer ekki á milli mála að þú ert konungurinn. Einstaklega mikil snilld.

2/11/04 20:00

Leibbi Djass

Einhver skemmtilegasta gagnrýni sem hefi ég lesið. Takk fyrir matinn, hann var bærilegur.

2/11/05 02:01

hvurslags

Haha. Í kjölfar þessa félagsrits ætla ég þó ekki að sjá myndina heldur endurnýja gömul kynni við Doom eitt og tvö, sem maður spilaði eins og vitlaus maður í den.

6/12/10 07:01

Billi bilaði

Leigði mér þessa myng á voðatjónsleigunni um helgina. Skemmti mér ágætlega.
Skemmti mér líka ágætlega aftur við að lesa gagnrýnina hér.
<Ljómar upp>

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.