— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 31/10/04
Shelby hnútur

Fremstur hnúta

Vel hnýttir bindishnútar eru hvers manns prýði, tákn um fágun og herramennsku. Bindishnútar geta sagt margt um hnútsbera. Hver myndi til dæmis treysta sölumanni með skakkan og lafandi hnút? Enginn, með réttu ráði.

Til eru nokkrir skólar í bindishnýtingum. Flestir hafa eitthvað til sýns ágætis en mig langar að fjalla hér um þann vanmetnasta: Shelby hnútinn.

Það hefur farið lítið fyrir Shelby hnútnum (líka nefndur Pratt hnúturinn) innan um aðra vinsæla hnúta. Bóndahnúturinn sígildi er auðvitað vinsælastur, enda auðveldastur í hnýtingu. Hann er ágætur til síns brúks en er alvarlega ofnotaður. Allt of algengt er að karlmenn* slengi bindinu um hálsinn og hnýta hann skjálfandi í örvæntingarfullu kapphlaupi við ört þverrandi morgunstund, innan um organdi krakka sem þarf að hrúga í skólann áður en yfirmaðurinn í vinnunni fer að velta fyrir sér hvort hann eigi nú ekki endanlega að reka viðkomandi fyrir að vera of seinn.

Slíkt er vanvirða við góðan hnút. Afleiðingin er yfirleitt forljótur gordíónshnútur sem er hnýtara vondur vitnisburður. Fáir hafa lagt á sig þá list að hnýta bóndahnútinn vel, nema ef vera skyldu íslenskir bændur, sem einatt leggja tíma og einurð í hnýtingu þessa einfalda hnúts svo úr verður fallegt og látlaust listaverk. En fæstir gefa sér tíma í slíkar kúnstir og er það miður.

Svo er það hnúturinn sem margir plebbar, með ranghugmyndir um eigin smekkvísi, telja vera konung bindishnútanna, en það er Windsorhnúturinn. Sá hnútur er án efa ofmetnasti bindishnútur allra tíma. Þessi spikfeiti tauhnullungur er ekkert annað en gróteskt kýli á herramanni; vitnisburður um oflátungshátt aðframkominnar og úrkynjaðar yfirstéttar hins rotnandi breska heimsveldis og menningarsnauðra nýríkra aumingja með minnimáttarkennd, sem gátu ekki látið sér detta annað í hug en að apa gagnrýnislaust eftir ófögnuðinum í von um að fá á sig saurslettur ´dýrðar´ úr svínastíu hins rotna háaðals.

Það er ekki tilviljun að hinn fágaði morðingi hennar hátignar, James Bond, var látinn segja að Windsorhnútur á mönnum væri góð vísbending um að viðkomandi væri föðurlandssvikari. Windsor er dekadent og smekklaus hnútur. Sama hversu vel hann er hnýttur, hann er alltaf burðardýri sínu til smánar og vísbending um rotið innræti.

Þá skal loksins nema staðar við þann hnút er stafþrykkir telur vera afbragð annarra hnúta, en það er áðurnefndur Shelby hnútur. Rétt hnýttur Shelby er sannkallað augnakonfekt fyrir alla fagurkera. Hann er laus við tilgerð og belging Windsorhnútsins. Að sama skapi nær hann þeim þægilega sjónræna einfaldleika sem prýðir vel hnýttan bóndahnút en nær að bæta við heimsborgaralegri fágun. Hnúturinn hefur það yfir bóndahnútinn að hann fyllir mun betur upp í hnútssvæðið. Hann fer alla leið, teygir sig rétt upp að sitt hvorri kragakverkinni og myndar áreynslulaust hárbeina línu meðfram efsta hlutanum svo efsta talan ásamt skyrtujaðrinum í hálsmálinu er þakin fallegum hnút. Þarna myndast traust brú milli kraga, akkúrat í réttum hlutföllum, ekki of há í breiðbindisfletinum eins og er eilífur höfuðverkur bóndahnútsins. Síðan mjókkar hnúturinn ört þegar neðar kemur þannig að úr verður stílhrein fegurð sem hentar flestum viðburðum

Undrin nema þó ekki staðar hér. Nei, enn er ónefndur sá undraverði eiginleiki hnútsins að hann lyftist tignarlega, örlítið frá skyrtufletinum og geislar þannig frá sér ólgandi straumum sjálfstrausts og ákveðni.

Eins og með flesta heimsins gæðinga, er ekki hægt að ná góðum tökum á Shelby hnútnum nema með æfingu. Þetta er heldur flókinn hnútur, þó alls ekki óviðráðanlegur. Algengt er til dæmis að vinstri jaðar krumpist undir hnútnum, sem erfitt er að laga án þess að hnýta upp á nýtt. Æfingin skapar þó meistarann.

Hnúturinn er hvers manns prýði og er vart hægt en að bera höfuð hátt með slíka völundarsmíð undir adamseplinu.

Mér er reyndar gersamlega fyrirmunað að skilja hví ritstjórn Baggalúts hafi ekki þegar prentað leiðbeiningar við hnútsmíðina á baksíðu. Það væri sannarlega þjóðþrifaverk.

Shelby fær fimm stjörnur í minni bók.

* Ég leyfi mér að vera svo óforskammaður að skrifa heldur karllægt um bindishnúta þar sem yfirgnæfandi meirihluti hálsbindisbera eru karlmenn, þó sannarlega sé ekki loku fyirr það skotið að kvenfólk geti borið slíkar gersemar.

   (16 af 60)  
31/10/04 10:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Ég hef ekki átt jakka föt síðan ég fermdist og held að ég hafi haft slaufu við þau. Samt kærar þakkir fyrir fróðlegan pistil sem nánast gæti verið efni í doktors ritgerð og skildi þá hatturinn passa vel með bindinu

31/10/04 10:02

albin

Jahh... ég er orðlaus. Hálf skammast mín fyrir hálstau mitt, eða réttara sagt skort á notkun hálstaus...

31/10/04 10:02

Heiðglyrnir

Að kunna þrjá til fjóra bindishnúta er hverjum manni nauðsynlegt, ætti hreinlega að vera á námsskrá í grunnskólum þessa lands. Fátt er subbulegra en maður í fallegum jakkafötum, skyrtu og bindi, en með illa bundin og ljótan bindishnút. Þannig að óhætt er að segja að, það hvaða hnútur er valin og hvernig hann er hnýttur, segi ótrúlega mikið um viðkomandi persónu. Þá er ekki síður mikilvægt hverning snið er á bindinu og í hvaða litum það er. En það er önnur saga og efni í sér pistil. Riddarinn Þakkar Hakuchi fyrir þessa takka
lipurð..!..

31/10/04 10:02

B. Ewing

Þetta er þriðji hnúturinn sem ég hef heyrt um og kann ekki. Slakur hnútur ætti að duga eða kannski bara hestahnútur, hann getur verið samstæður. [Týnir til hnnúta]

31/10/04 10:02

Sundlaugur Vatne

Þörf orð í tíma töluð, kæri Hakuchi. Það er til vanza að sjá hve kærulausir menn eru með bindishnútana sína. Windsorhnúturinn er vissulega ofmetinn, þó hálfi Windsorinn sé vissulega þolanlegri. Shelby er skemmtileg nýjung en við Vatne-menn leggjum stolt okkar í snyrtilegan og látlausan bændahnút, enda stoltir afkomendur bændahöfðinga og virkir meðlimir Bændaflokksins.

31/10/04 11:00

Sæmi Fróði

Hann heitir Pratt hnútur en ekki Shelby hnútur, búinn til af herra Jerry Pratt! Þrátt fyrir staðreyndavillu þá er þetta ágætis umfjöllun hjá þér.

31/10/04 11:00

Sundlaugur Vatne

Hann er nú reyndar ýmist kallaður Shelby- eða Pratthnútur, Sæmi minn. Hvorttveggja er jafnrétt.
Þar sem Hakuchi kaus að nota Shelbynafnið er eðlilegt að í umræðum um félagsritið sé það nafn notað áfram til að forðast misskilning.

31/10/04 11:00

Sæmi Fróði

Afsakið mig.

31/10/04 11:01

Þarfagreinir

Ég á augljóslega margt ólært í bindishnýtingafræðum. Hafðu þökk fyrir fróðlegan pistil, Hakuchi.

[Leitar að spegli til að æfa sig fyrir framan]

31/10/04 11:01

Vladimir Fuckov

Stöðugt fjölgar með árunum því sem oss verður ljóst að vjer vitum ei margt um. Líklega fjölgar því hraðar en því sem vjer vitum að vjer vitum eitthvað um. Fróðleg gagnrýni.

31/10/04 11:01

Nornin

Karlmaður með vel hnýtt bindi er augnayndi.

31/10/04 11:01

krumpa

Hmmm...leyfi mér að mótmæla karllægni þessa pistlings. Ég sé um að binda minn karlpening og er ákaflega vel að mér í hinum fjölmörgu tegundum hnúta. Tek annars undir með Norninni - það er ekki sama hvernig reðurtáknið lítur út!

31/10/04 11:01

Nermal

Já... ég verð að viðurkenna að einungis kann ég einn hnút að hnýta, og er það örugglega sá er nefndur er hér bóndahnútur, en ég held að hann sé nú yfirleitt bara ágætlega vel heppnaður hjá mér.

31/10/04 11:01

Sundlaugur Vatne

Krumpa mín, þú laðast greinilega að ósiðuðum kvennakúgurum. Sannir karlmenn binda sína hnúta sjálfir, slíkt er karlmannsverk.

31/10/04 11:01

krumpa

Veistu - mér finnst mjúki maðurinn ofmetið og ofsalega falskt fyrirbæri. Er bara hæstánægð með minn neanderdalsmann!

31/10/04 11:01

Sundlaugur Vatne

Misskildu mig ekki, Krumpa mín. Og jafnaðu okkur Vatne-mönnum ekki við mjúkrassa!
Það er bara sumt sem er karlmannsverk og konur eiga ekkert með að reyna að tileinka sér. S.s. að elda þegar það er nautasteik í matinn, opna vínflöskur, bóna bíla, spila á slagverk og binda sína eigin bindishnúta

31/10/04 11:01

Skari

Mér finnst eiginlega skárra að vera með ekkert bindi heldur en illa hnýtt.

31/10/04 11:01

Hakuchi

Villimaður!

31/10/04 11:01

Skari

Nei, ég er bara skæruliði! [Starir þegjandi út í loftið]

31/10/04 12:01

Júlía

Fagurlega hnýtt hálstau fegrar fagran mann. Vísast nyti Shelby-hnúturinn sín sérstakelga vel á rauðu silki.

31/10/04 12:01

Raskolnikof

Ég kann einugis fyrir mér í hnútabindingum þegar um einhvers konar frygð er að ræða.

31/10/04 12:01

Jóakim Aðalönd

Ég nota sjálfur tvöfaldan Windsor-hnút. Hann afi minn kenndi mér að nota hann þegar ég var 10 ára gamall og hef ég notað hann síðan. Ég þyrfti kannske að prófa þennan Shelby-hnút...

31/10/04 12:01

Jóakim Aðalönd

Gaman væri að sjá mynd af hnútnum og ekki spillti fyrir að fá leiðbeiningar.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.