— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/12/03
Rio Bravo

Sígildur westri

Aldrei hefur mér líkað við John Wayne. Þar sem sumir sjá tignarleika, sé ég dusilmennsku. Þar sem aðrir sjá fágun í hreyfingum, sé ég klaufalegan yfirgang. Þar sem ýmsir sjá ímynd staðfestu og heiðarleika sé ég heimskulega þrákelkni.

Þess vegna er það einstaklega pirrandi að John Wayne skuli hafa leikið í svo mörgum stórkostlegum kvikmyndum. Rio Bravo er ein þeirra.

Sagan er ofureinföld. Wayne leikur skerfara sem þarf að verjast ágangi illþýðis auðjöfurs nokkurs, hvers bróðir Wayne hefur handtekið fyrir blákalt morð í vitna viðurvist. Chance (Wayne) bíður eftir að yfirvöld flytji fangann til réttarhalda en á meðan reyna verkamenn auðjöfursins hvað eftir annað að frelsa fangann illræmda.

Chance til hjálpar eru einungis fyllibytta að með skelfilega timburmenn (Dean Martin), eldgamalt fatlafól (Walter Brennan) og unglingspiltur (Ricky Nelson), blautur fyrir aftan eyrun. Inn í spilið blandast síðan fjárhættuspilakona sem fellur, af einhverjum ástæðum, hug til sjarmörsins Chance en hún er leikin af Angie Dickinson í einu af hennar fyrsta hlutverki.

Myndinni var leikstýrt af Howard Hawks sem án efa var og er einn af allra bestu leikstjórum sem uppi hafa verið. Hæfileiki hans til að búa til góða sögu nýtur sín vel hér. Hann heldur uppi taktinum á myndinni og verður hún aldrei langdregin. Hasar á réttum stöðum og skemmtilegar persónur blandast saman og úr verður stórfengleg skemmtun. Gott dæmi um snilli Hawks er byrjunaratriðið. Á fyrstu 2 mínútunum nær hann að koma með útlínur söguþráðarins ásamt því að útskýra, með dýpt, samband og ástand tveggja helstu aðallpersónanna. Og það allt án þess að sagt sé eitt einasta orð.

Samleikur leikaranna er ein af meginástæðunum fyrir gæðum myndarinar. Það skýn í gegn að leikurum hefur þótt gaman að leika saman, þá sérstaklega Dean Martin og Brennan undir lokin.

John Wayne er minna pirrandi en vanalega sem hinn langþreytti skerfari en ég tel að veðurbarni hatturinn hans fari langleiðina með að gera hann skemmtilegan í myndinni. Sjaldan hefur aðalhetja verið með eins lúinn hatt á höfði.
Aukaleikarar standa sig líka með prýði, þá sérstaklega gamli
hundurinn Walter Brennan, sem fer á kostum sem gamalt nöldurmenni sem þó reynist seigari en margur yngri maðurinn. Ricky Nelson stendur sig líka ágætlega miðað við söngvara, en hann var eins konar Elvis klón á þeim tíma og átti nokkur sæmileg lög. Angie Dickinson er líka ágæt þrátt fyrir að vera ný í faginu á þeim tíma, hún er greinilega undir Bacallískum áhrifum í tælingaratriðum en það er gott, því engin tældi jafn vel og Bacall.

Þá er ónefndur Dean Martin. Dino er það langbesta við þessa mynd. Þessi yndæli dægurfluguraulari sannar hér að hann gat verið afburðaleikari þegar hann nennti því. Túlkun hans á bitrum alka með ömurlega sjálfsmynd er á köflum tilfinnanleg.

Sem sagt, úrvals westri, einn af þeim allra bestu. Fátt er meira afslappandi en að horfa á svona vel skapað listaverk sem er ekki að predika einhverja listavitleysu þó hún hafi sitt að segja á sinn hljóða hátt. Fimm stjörnur og ekkert minna.

Drullist nú til að horfa á þetta, hún fæst örugglega í Vídeóhöllinni og hjá Larrý í Laugarásvídeó og í öllum heldri vídeóleigum.

   (54 af 60)  
Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.