— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Pistlingur - 2/11/02
Jólin

Hátíð barnanna

Þá eru jólin loksins að nálgast hafnarbakka vitundar hins kristna heims. Jólin eru umfram allt hátíð barnanna. Hátíð þar sem foreldrar og ættmenni kenna börnunum hinn sanna anda jólanna.

Jólin eru innvígsluhátíð barnanna inn í dýrðarheim neyslukapítalismans. Á hverju ári er gjöfum troðið upp á þau, þeim komið á bragðið að meta gagnslausa hluti. Að eignast meira og meira, meir í ár en í fyrra. Hægt og rólega er unnið að því að svipta þau vitinu. Það byrjar í upphafi desember, þegar skjaldsveinar neysluhyggjunnar, jólasveinarnir, koma til byggða og 'gefa' í skóinn. Eitthvað lítið, eitthvað sem gefur von um meira. Þetta heldur áfram eftir mánuðinn uns hámarki er náð á aðfangadegi jóla. Þess á milli eru þau mötuð af jólakökum og hvers kyns sætindum. Með því að sykurfylla þau margfaldast spennan uns þau verða orðin hamsstola af sykurvímu og taumlausri græðgi, rétt áður en pakkar eru opnaðir.

Svo kemur að því. Börnin eru komin í trylltan vímugræðgistrans. Pakkar eru opnaðir, spenningurinn er orðinn svo mikill að gjafirnar sjálfar skipta litlu, pakkarnir opnaðir, þeim kastað til hliðar og beðið eftir næsta. Þá hafa þau einmitt lært að það eina sem skiptir máli er næsta vara. Það er aldrei neitt nóg.

Eftir jólagjafaútbýtingar, taka við jólaveislur ýmis konar, þar sem farið er með börn í heimsókn til annarra svo þau geti lært að öfunda hvort annað af gjöfunum sínum. Lexía númer tvö: Aldrei láta aðra eiga flottara dót en þú.

En jólin snúast um fleira. Þau snúast líka um að breyta börnum hægt og rólega í lygara. Strax á hvítvoðungsaldri er þeim innrætt hversu skemmtilegir þessir blessuðu jólasveinar eru, sem koma færandi hendi á hverju ári og er þeim umfram allt kennt að þeir séu til. Þetta er viðamesta samsæri sem um getur á jörðinni. Allur hinn kristni heimur er flæktur í samsærið gegn börnunum. Foreldrar ljúga að þeim, systkyni, frændfólk og vinir. Öll þau sem börnin geta treyst í heimi þessum. Er börnin fara að öðlast vott af gagnrýnni hugsun er þeim síðan hægt og rólega ýtt inn í samsærið og þau aðlöguð að fullorðinsheimi Lygarinnar. Þar er um leið sáð fræjum kaldhæðninnar.

Þegar þessu margra ára ferli gjafmildis og neyslu er lokið verða blessuð börnin orðin alveg eins og foreldrar þeirra; ljúgandi, stjórnlausar, gráðugar neysluvélar sem ekkert seðjar nema meira, meira og meira af því. Þannig líður kerfisvædd hringekja kapítalismans áfram í allri sinni dýrð um aldir alda. Tær fullkomnun mannlegs breyskleika.

Gleðileg jól.

   (56 af 60)  
Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.