— GESTAPÓ —
Hakuchi
Friðargæsluliði.
Heiðursgestur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/11/03
Real Gone

Tom Waits er klæddur og kominn á ról...

Þegar miðaldra tónlistargoðsagnir gefa út plötu sem mælist vel fyrir er oft sagt að verkið sé það besta sem viðkomandi hefur gert síðan...(setja inn nafn á einhverju meistaraverki frá hátindi ferilsins). Þetta er svona eins og þegar falleg, miðaldra kona fær hrós fyrir gott útlit og er sögð falleg miðað við aldur.

Allt slíkt hjóm á ekki við um nýjasta verk hljómjöfursins Tom Waits. Real Gone er falleg plata, punktur. Real Gone er með hans bestu verkum, ekki síðan neitt. Bara með hans bestu verkum.

Hér er engum hlíft. Gamli maðurinn er trylltari en nokkru sinni. Hér er ekkert pláss fyrir miðjumoð og hreina tóna. Tónlistin er skítug, ryk, drulla og möl einkenna andrúmsloftið. Þetta er gróf tónlist; skeggbroddatónlist og eini raksturinn sem maður fær er með bitlausum gömlum rakhníf og köldu vatni. Platan er ekki hrá. Hrátt er einfalt og organdi. Hér er lagður mikilmennskubrjálæðislegur metnaður í að varpa fram drungalegum og grófum hljóðmyndum sem eru ekkert annað en mikilúðlegar hamfarir. Gripið er í hvað sem er til að framkvæma kaótískar hljóðsenur og rödd Waits er óspart notuð sem hljóðfæri til að skapa djöfullega rytma sem minna oft á iðnaðaróhljóð og allt rennur þetta saman í eitt allsherjar ringulreiðarhljómsvall sem verður gullfallegt og hrífandi í öllum sínum kvalarfulla ljótleika.

Lögin bíta frá sér. Í fyrsta laginu, Top of the Hill er teningunum kastað, stórskrítinn semí hipphoppfílíngur. Maður veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Hægt er að stofna heila hljómsveit í kringum gítarhljóm Hoist that Rag. Þú ert sleginn utan undir með Shake it. Grófleikinn er þvílíkur, textinn harður og grófur fullur af svita og hörku.

Ekki ber að óttast fjarveru ljúfsárra ballaða sem Waits er þekktur fyrir. Hér er nóg af þeim. Textarnir fjalla um allan fjandann, þá helst sögur af undirmálsfólki, mistökum, brostnum hjörtum, rangölum og botngötum sem lífið hefur upp á að bjóða. Í lokalaginu, Day after tomorrow, má meira að segja finna ádeilu á stríðsbrölt vissra aðila. Lengsta lagið á plötunni og eitt það hjartnæmasta, Sins of the Father er gullfallegur iðrunaróður. Lagið Circus bregður upp klassískri Waits sýn á hliðarfólkið sem fyrirfinnst í sirkúsum.

Þessi plata Waits er einstök. Waits hefur aldrei hljómað svona áður, þetta er nýtt og ferskt. Samt er þetta klassískur Waits. Þetta er eins og stórkostlegur leikari, De Niro eða Pacino sem dæmi. Allir þekkja atferli þessara manna. Það er auðvelt að skopstæla þá. En samt eru þeir alltaf öðruvísi, karakterarnir sem þeir hafa skapað eru eins stór hluti af þeim eins og þeir sjálfir, hvort sem það er Travis Bickle (Taxi Driver), Jake LaMotta (Raging Bull), Michael Corleone (Godfather) eða Tony Montana. Þannig er Waits, einkennin eru til staðar en hann er alltaf öðruvísi. Hann orðar þetta best sjálfur í einu laginu sínu:

It's the same old world,
But nothing looks the same.

Veröld björt og ný, skrifa ég.

   (36 af 60)  
1/11/03 04:02

Þarfagreinir

Ég þarf að hlýða á þessa plötu við tækifæri. Alltaf gaman að heyra í nýju efni frá gömlum köppum.

1/11/03 05:01

Von Strandir

Waits er náttúrulega í það góðri stöðu sem listamaður að hann þarf ekki að hugsa um vinsældir, hann getur prufað það sem hann vill og gert það sem honum sýnist. Auk þess hefur hann snilligáfu. Gerist ekki betra.

1/11/03 05:01

hundinginn

Manni hlýnar um hjartaræturnar við að lesa þetta. Þetta ætti að þíða yfir á ensku og senda kappanum! Í alvuru!

1/11/03 05:01

Hakuchi

Þetta er rétt hjá þér Kristallur. Waits er í góðri stöðu að þessu leyti. En það eru margir jafnaldrar hans líka, á borð við Claptón, McCartney, Bowie ofl. Samt eru þeir að rotna í bitlausu miðjumoði. Það er glæpur. En á móti hefur Waits alltaf verið á jaðrinum. Það gæti hjálpað líka.

1/11/03 10:00

RegnHundur

Alveg er ég sammála þér með þessa plötu, hún er hiklaust ein af hans bestu. Ótrúlega gaman þegar uppáhaldstónlistarmaðurinn heldur áfram að koma manni á óvart.

1/11/03 22:01

Bjórgin Drekkann

Snillingur - ekkert annað Snillingur. Held hann sé að fara að komast í tískú hér á landi.

Hakuchi:
  • Fæðing hér: 10/8/03 01:38
  • Síðast á ferli: 19/4/08 03:07
  • Innlegg: 4264
Fræðasvið:
Díalektísk neóklassísk tákngervingsskammtafagfræði, heimspekileg efahyggjubjargfestufræði með póst-módernískum skynhyggjuáhrifum ásamt votti af exístensíalískum sósíósúrrealisma, kúng fú myndir, skapandi fabúlusagnfræði.
Æviágrip:
Hakuchi er þegar fæddur en á eftir að deyja.