— GESTAPÓ —
Júlía
Nýgræðingur og  skriffinnur.
Gagnrýni - 1/11/02
Hádegi á Holtinu

Holtið - eins gott og af er látið?

Í liðinni viku fórum við stöllur í hádegismat á Hótel Holt. Með í för var skósveinn okkar sem við erum að reyna að koma til nokkurs þroska um þessar mundir.
Veitingasalurinn á Holtinu er einkar vistlegur, fjölmörg málverk eftir gömlu meistarana prýða veggi og allt yfirbragð staðarins ber vott um fágun og glæsileika. Fjölmennt lið þjónustufólks var að störfum þennan daginn og stóðu sig flestir allvel. Sá er mest sinnti okkar litla hóp var sérlega viðfeldinn og broshýr, lipur og þægilegur. Til gamans lögðum við fyrir hann lítið próf og þóttumst ófróðar um nafn og höfund litskrúðugs málverks sem blasti við sjónum okkar og fengum greinargóð svör sem vöktu nokkra hrifningu og aðdáun. Því miður vantaði ögn upp á þjónustulund félaga hans sem færði okkur matinn. Sá forðaðist að sýna af sér nokkra kæti, horfði luntaralega niður fyrir sig og virtist vansæll í starfi. Æskilegt væri að yfirmenn hans reyndu að létta honum lund á einhvern hátt svo gestir þurfi ekki að líða fyrir.
Vert er að nefna sérstaklega snoturt brot á munnþurrkum, svokallað mítur-brot, sem gerir það að verkum að þær nýtast einnig sem höfuðföt. Þetta tvöfalda notagildi er sérlega heppilegt fyrir þá gesti sem fagna afmæli; til gamans má bregða servéttunni á höfuð sér eins og kórónu og gleðja með því jafnt sjálfa sig og aðra gesti.
En þá að matnum. Eldabuskur Holtsins bjóða gestum að velja milli fjögurra mismunandi forrétta. Stærstur hluti hópsins kaus að gæða sér á rækju- og sítrónugrassúpu með rækju- og hörpuskelsturni og engifer chantilly. Súpan reyndist ljúffeng, en nokkuð þung í viðkvæma maga (hafa ber í huga að hópur þessi samanstendur að mestu af heldri dömum, sem eru viðkvæmar fyrir hvers kyns þungmeti). Steiktur saltfiskur og saltfiskstartar með
tómatconcasse og tapenade fór vel á diski en nokkuð kom á óvart hversu ósaltur hann reyndist vera. Tómat- og mozzarellasalat með parmaskinku, basil og bois boudran rann hins vegar ljúflega niður. Af kjúklingalifrarterrínunni með tómat, eggaldin og balsamic vinaigrette fara hins vegar engar sögur, þar sem hún rataði ekki á borð okkar að þessu sinni.
Þegar kom að því að velja aðalrétt var hópurinn ákaflega samstíga. Eftir nokkrar vangaveltur og umræður um þá félaga Bamba og Rúdólf með rauða nefið og muninn á þeim var ákveðið að horfa framhjá siðferðilegum vanda og velja hreindýrasmásteik með graskeri, grænertukartöflum, rauðrófum og fimmkrydda sósu. Lærisveinn okkar fylgdi að sjálfsögðu fordæmi okkar, en samstarfskona okkar, sem var sérlegur gestur hópsins þennan fimmtudag ákvað að fara ótroðnar slóðir og panta léttari rétt; langtímaeldaðan þorsk með paprikukartöflum, spínati og paprikusósu. Einhver kynni að skilja heiti réttarins svo að þroskspyrðan atarna hafi verið mauksoðin, en sú var ekki raunin. Sá sem semur matseðilinn mætti þó gjarnan vanda málfar sitt og kalla hlutina réttum nöfnum, en skýla sér ekki bakvið uppskrúfað og tilgerðarlegt málfar af þessu tagi. Veitingamenn staðarins virðast hafa gaman að því að hlaða matnum upp í hrauka og turna, sem ætti að vera óþarfi, þar sem matardiskar staðarins eru feiki stórir og því ærið pláss fyrir matinn á disknum. Þannig trónaði hreindýrið upp í loft, svo upp í hugan kom hending úr Helgakviðu Hundingsbana II: og horn glóa við himinn sjálfan. Þorskurinn sýndist hins vegar berskjaldaður og varnarlaus, þar sem hann hafði ekkert salat til að skýla sér bak við. Þessir smávægilegu annmarkar drógu þó í engu úr bragðgæðum réttanna sem smökkuðust dável.
Þar sem félagi úr hópnum fagnaði merkum tímamótum í sömu viku, var ákveðið að fullkomna máltíðina með eftirrétti og kaffi í lokin. Gestum er ekki boðið upp á neina valmöguleika í hádeginu, en matreiðslumeistarinn bauð uppá flamberaðan búðing (créme brulée á erlendum málum) með fáeinum sneiðum af ferskum ávöxtum og fagurgrænni ískúlu á þunnum kexbita. Við nánari athugun reyndust grænu strimlarnir á ísnum vera söxuð myntulauf úr bakgarði kokksins. Allt þetta smakkaðist ágætlega, án þess þó að kitla bragðlaukana sérstaklega. Kaffið var snarpheitt og prýðisgott. Okkur að óvörum birtist þjónustustúlka með væna steinflís í hendi sem á var raðað dýrðlegum, heimagerðum konfektmolum. Slík natni og umhyggja fyrir þörfum og löngunum gesta er einmitt það sem skilur góðan stað frá vondum. Veitingastaður Hótel Holts, Listasafnið, stóðst því prófið með sóma og fær ágætiseinkunn.

Meira að viku liðinni.

Mús-Lí, Mosa frænka, Júlía og Þöngull (skósveinn)
-

   (59 af 59)  
4/12/06 08:02

Hakuchi

Hér er gott að vera. Jafnvel betra en á Holtinu.

3/12/07 09:00

krossgata

Er það hér sem Hakuchi heldur sig?

Júlía:
  • Fæðing hér: 1/11/03 17:16
  • Síðast á ferli: 22/5/06 23:57
  • Innlegg: 0
Fræðasvið:
Matarmenning.
Æviágrip:
Líf mitt er eins og lokuð bók. Hins vegar neyðist ég til að segja eitthvað vilji ég halda aukamyndinni minni inni.
Þetta fallega hálsmen fékk ég t.d. í sumargjöf 1997. Annað þarf fólk ekki að vita.