— GESTAPÓ —
Glúmur
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 1/12/06
Morðfé

Ég held hér áfram að fjalla um hættur sem stafa að ferðalöngum á hálendi Íslands. Fara verður með gát því hættur leynast við hvert fótmál.

Sért þú á göngu á hálendinu skaltu stöðugt vera á varðbergi gagnvart sauðfé. Íslenska sauðkindin, gæf og meinlaus á vorin, meyr og gómsæt á veturna, getur nefnilega verið lífshættuleg þegar hún ráfar um hálendið á sumrin í leit að æti. Eftir fyrstu vikur sumars hefur sauðkindin jafnan étið upp alla grassprota, lyng og mosa sem finna má á hálendinu, þvínæst tekur hún til við að éta rofabörð, leirkenndan aur en þó aðallega vikur það sem eftir lifir sumars.

Eftir nokkrar vikur af ótæpilegri vikurneyslu hefur svo byggst upp gríðarlega mikið magn eiturefna í venjulegri sauðkind. Þessi eiturefni leiða til alvarlegra heilabilana í henni. Þessar heilabilanir eru um margt líkar svipuðum karaktereinkennum aðalloðfíla og brjótast fram í ofsóknarbrjálæði, ranghugmyndum og geðklofa. Löng vera í veðurskilyrði á hálendinu hjálpar heldur ekki til, sand- og moldrok fyllir öll vit og verður til þess að kindurnar fá hinn einkennandi rauða augnlit (sem var orsök þess að kirkjan hélt því lengi fram að morðfé væri andsetið kölska). Sauðkindina fer þá að þyrsta í eitthvað sætara en vikur eða rofabörð og verður sífellt hættulegri ferðalöngum.

Geðrofaástandið virðist vekja upp eðlishvöt sem rekja má til forsögulegs forföður sauðkindarinnar, í venjulegu ástandi er þessi eðlishvöt algjörlega bæld niður en ef hún er vakin upp á þennan máta er hugarástand kindarinnar innan skamms heltekið af veiðihvöt og blóðþorsta. Sauðfé telst þá fyllilega umbreytt yfir í hið geigvænlega íslenska morðfé (einnig þekkt sem íslenskt aðalmorðfé í Þingeyjasýslu). Þess ber einnig að geta að einhverjar líkur eru á því að þetta bælda innra eðli sé runnið frá nokkrum frábrygðum í genamengi sauðkindarinnar sem virðist helst líkjast ákveðnum genaröðum úlfa. Leiddar hafa verið líkur að því að þetta sé sönnun þess að fyrr á öldum, á meginlandi Evrópu, hafi átt sér stað raunveruleg blöndun á milli sauðkinda og úlfa í sauðagærum.

Ef þú verður var við sauðkind nærri þér á þessum árstíma skaltu vona til guðs að hún hafi ekki séð þig. Sauðkind í slíku geðrofaástandi gefst aldrei upp á að elta bráð sína meðan annað hvort lifir þannig að ef hún hefur hafið eftirför þá er þín eina von að finna húsaskjól eða skjóta undankomuleið (ef þú hefur t.d. tamið hóp arna þá væri það hentug leið til undankomu). Að ætla að verjast stakri morðá er í besta falli fífldjarft og í versta falli ekki til afspurnar. Jafnvel ein morðær getur hæglega yfirbugað fullfrískan karlmann á besta aldri og ferðalöngum sem eru margir saman er ráðlegt að muna að morðfé veiðir gjarna í hópum. Morðfé getur verið klókt við veiðarnar og þar líklegast að þakka löngum samvistum við íslenska refinn auk hugsanlegra genastrengja úr úlfum. Á meðan maður flýr staka hvíta morðá, eru talsverðar líkur á því að hún sé í raun að smala manni beint í fangið á mórauðu morðfé sem liggur í launsátri og þá er voðinn vís!

Dauði af völdum morðfés er með hryllilegri dauðdögum íslenskra ferðalanga, jafnvel verri en að vera rifinn sundur af illa innrættum aðalloðfílum. Morðærin hleypur mann uppi og fellir mann með því að bíta á hásinarnar. Morðfé hefur það undarlega athæfi að stanga bráð sína til dauða, það ferli getur tekið upp í marga klukkutíma en það kemur ekki að sök þar sem engin hætta er á því að bráðin sleppi eftir að hún hefur á annað borð verið felld. Íslenska morðféð telst eina rándýr jarðarinnar sem dregur bráð sína til bana með innvortis blæðingum. Þessi undarlega aðferð sinnir tvíþættum tilgangi, í fyrsta lagi svalar það tímabundið sadískum hvötum geðbilaðs morðfésins og í öðru lagi þá er bráðin talsvert meyrari undir tönn eftir þessa meðferð, sem er mikilvægt fyrir skepnu sem er að öllu jöfnu grasbítur.

Þessi ófögnuður hefur, þrátt fyrir sérstöðu sína, þótt vera til vansa og þrátt fyrir að morðæðið renni jafnan af sauðkindinni þegar fer að hausta þá hafa menn leitað leiða til að draga úr hættunni sem fólki stafar af stofninum. Einna mestur árangur hefur fengist af því að nota áburðarflugvélar landgræðslunnar til að dreifa geðprýðilyfjum yfir valin vikur-rík svæði á hálendinu. Slík dreifing hefur ekki bara þótt hafa afar jákvæð áhrif á sauðkindurnar því að auki er með þessari aðferð stór hluti geðlyfjaþarfar þjóðarinnar uppfylltur með neyslu lambakjöts.

   (11 af 24)  
1/12/06 11:01

Texi Everto

Betri er belur en fé
é é é
(jíhaaa)

1/12/06 11:01

Dýrmundur Dungal

Kannast eitthvað við svipinn á þér. Gafstu ekki út bók um jólinn?
Einhvers staðar segir:
Deyr fé,
deyja frændur

en ek dey allseigi - nema úr leiðindum væri

1/12/06 11:01

Texi Everto

Jú metsöluljóðabókin mín Hávamál var endurútgefin um jólin ég er þjóðskáld.

1/12/06 11:01

Dýrmundur Dungal

Ég var nú að vísa til hans Glúms en ég las reyndar Hávamál og þau eru svo sem ekkert alvond hjá þér

1/12/06 11:01

krossgata

Þetta er afar skemmtileg nálgun á viðfangsefnið og fléttast skemmtilega saman geðfræði og landbúnaðarfræði. Auk þess er góð vísa aldrei of oft kveðin og ber að minna fólk á hættur þær er leynst geta á vegi þess.

1/12/06 11:01

Golíat

Það var þér líkt Glúmur að tala illa um blessaða sauðkindina. Hvað er að því að hún leggi sér til munns nokkra villuráfandi túrhesta og bakpokalýð? Þetta er bara gangur náttúrunnar, jafn eðlilegur og að fiskiflugan lifnar á vorin hverfur í fyrstu frostum á haustin.

1/12/06 11:01

Regína

Ég hélt það væru bara smákrakkar sem væru hrædd við kindur [klórar sér í höfðinu].

1/12/06 11:02

albin

Vígafé finnst mér fallegt orð. Mætti ekki eins nýta það orð?

1/12/06 11:02

Dula

Geeeiiiisp

1/12/06 11:02

Kondensatorinn

Skyndilega rifjast upp fyrir mér kvæðið um ókindina sem afi sönglaði drungalegalegri röddu fyrir mig í barnæsku.

1/12/06 11:02

Hakuchi

Hjartans þakkir fyrir þessa stórfróðlegu grein. Sveitin/landsbyggðin er greinilega varhugaverðari en ég hélt.

1/12/06 12:00

Sverfill Bergmann

Glúmur, þér hafið enn ekki kíkt í kaffi. Frú Bergmann er ekki ánægð með þessa frammistöðu.

1/12/06 12:00

Golíat

Setningar eins og ,,Dauði af völdum morðfés.." og ,,...sadískum hvötum geðbilaðs morðfésins.." rugla mig alvarlega í ríminu. Er Glúmur að grínast, hvernig tengjast þessi fés innihaldi pistlingsins? Hví beygir hann ekki fésin samkvæmt samræmdum málfræðireglum fornum? Erum við eftir allt saman ekki öll aukasjálf Glúms?

1/12/06 12:01

Lopi

Móðir mín var ær en morðingi var hún ekki.

1/12/06 12:01

Vladimir Fuckov

Afbragðs fróðleiksmolar um hættur á hálendinu, þetta fer beint í úrvalsrit hjá oss. Skál !

1/12/06 17:00

dordingull

Sumir hafa ekki lesið um Aðalloðfílinn sýnist mér, hvað þá hálfseli.
En listavel skrifað hjá þér Glúmur minn eins og öll þín félagsrit. Ekki skemmdi að við lesturinn rak ég augun í ritið Kárahnjúkar, en þau stórsnjöllu skrif höfðu farið framhjá mér. SKÁL!

Glúmur:
  • Fæðing hér: 8/8/03 13:32
  • Síðast á ferli: 23/6/16 16:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Ég er Glúmur Angan verzlunar- og múgæsingamaður. Vertu hjartanlega velkomin(n) á þessa lítilfjörlegu síðu mína og endilega fáðu þér kaffibolla og lummu af borðinu.
Fræðasvið:
Verzlunar- og múgæsingamaður
Æviágrip:
Glúmur Angan er fæddur og uppalinn að Hálsakoti í Háadal. Ungur að árum var Glúmur fljótur upp á lag með að gera gys að jafnöldrum sínum og þótti honum þeir tregir. Varð þetta til þess að jafnaldrar Glúms forðuðust hann og óskuðu enskis frekar en að verða ekki fyrir háðslegum skætingi og níðvísum hans er síst varði, varð Glúmur fljótt vinalaus með öllu utan prestinn á Síðu sem Glúmur heimsótti oft og ræddu þeir jafnan saman heilu dægrin.Glúmur þótti duglegur til verks og þá sérstaklega höfuðverks en hann bar því tíðum við að hann gæti eigi farið út á engi eða sinnt gegningum sökum höfuðverks. Glúmur átti eigi í vandræðum með að útskíra höfuðverkinn og sagði hann vegna þess að slíkar gáfur hefði hann að hann hreinlega verkjaði í höfuðið ef hann mætti eigi huxa um eitthvað gáfulegt. Þessu trúði enginn nema presturinn á Síðu sem tæmdi safnaðarsjóðinn til þess að hægt væri að senda Glúm til náms í Lærðaskólanum. Því er skemmst frá að segja að Glúm þótti ekki mikið koma til gáfnafars kennaranna í Lærðaskólanum og sótti því enga tíma, sem varð til þess að Glúmur var rekinn úr skólanum strax á haustmánuðum. Tók þá Glúmur sér allrahanda hluti fyrir hendur og tók stefnuna á þá braut sem hann fylgdi æ síðan sem verzlunar- og múgæsingamaður.Meðal þeirra hluta sem hann var hvað frægastur fyrir var að æsa fyrrverandi bekkjarfélaga sína til að æpa "Pereat" út um alla Reykjavík þó svo að enginn þeirra vissi hvað það þýddi, slíkir vanvitar sem þeir voru, hló þá Glúmur og nuddaði saman höndunum eins og hann gerði svo oft er hann var eitthvað að bralla.Glúmur fór snemma að stunda verzlun og var fljótt farinn að standa í útflutningi. Glúmur var snjall í viðskiptum, ef ekki viðsjárverður, og varð fljótt ríkur af viðskiptum sínum þó stundum orkuðu þau tvímælis. Danska krúnan varð til dæmis að grípa fram fyrir verzlun Glúms í Danmörku þegar hann varð uppvís af því að hafa selt reyðinnar býsn af mjöli til Dana sem síðar kom í ljós að var ekkert annað en vikur og jafnvel alvarlegra var hversu margir veiktust eftir að Glúmur seldi Dönum móköggla sem þrumara. Enn þann dag í dag eru verzlunarsvik Glúms kennd í grunnskólum í Danmörku og á hann væntanlega stóran þátt í því hversu mjög Danir eru kvekktir og varir um sig í návist Íslendinga.Glúmur var í seinni tíð virtur galdrabrennu forkólfur og "ÚltraKóbalt" veldi hans var stórt í sniðum.