— GESTAPÓ —
Glúmur
Óbreyttur gestur.
Pistlingur - 9/12/04
Örstutt um hálfseli

Hálfselir eru líkt og nafnið bendir til, einstaklingar sem eru að hálfu menn og að hálfu selir. <br />

Hálfselir eru hamskiptar. Að öllu jöfnu eru þeir að flestu leiti eins og menn. Þeir ganga á tveimur fótum, hafa tíu tær og tíu fingur og ófróðir sjá þar engan mun á hvort um hálfsel eða venjulegan mann er að ræða í daglegu lífi. Hálfselir bera þó ákveðin sérkenni sem þeir erfa frá selum. Það eru sérkenni líkt og glaðlegt viðmót, mikil árátta til að flatmaga í sól og þeir hafa allt að því óheilbrigða matarlyst á fiskmeti. Hálfselir hafa að auki almenna óbeit á Halldóri Ásgrímssyni en það telst þó ekki til einkennandi sérkenna. Sumir hálfselir eiga það að auki til að klappa þegar þeir hlæja eða þegar síldarhungur sækir að þeim.

Hin mikla sérstaða hálfsela kemur hinsvegar í ljós þegar þeir komast í snertingu við vatn, því þá hafa þeir hamskipti og breitast svotil algerlega yfir í sel. Örfá atriði haldast þó óbreytt eins og t.a.m. hárvöxtur sem helst óbreyttur og naflinn einnig. Hálfselur í vatni er að fullu jafnvígur á við aðra seli þegar kemur að sundhæfileikum og hafa þeir því verið vinsælir hjá ungmennafélögum og héraðssamböndum til sundkeppna. Til skamms tíma varð þeim einnig vel ágengt á heimsmeistaramótum og Ólympíuleikum en það rann sitt skeið með aukinni þátttöku hálfsverðfiska. Þess ber að geta að ekki þarf heila sundlaug til að hálfselur hafi hamskipti heldur dugar að rúmlega helmingur hörunds þeirra verði vott. Þetta hefur orðið til þess að þeir forðast almennt að vera úti í mikilli rigningu og er meinilla við þröngar sturtur þar sem þeim reynist oft erfitt að athafna sig í sturtubotninum eftir að hamskipti hafa orðið.

Ekki er að fullu kunnugt um hver fyrsti hálfselurinn var en nær fullvíst er talið að hann var getinn við mökun sels og manns nærri sjávarþorpi á Snæfellsnesi, að öllum líkindum Búðum, en hálfselastofninn var lengi vel einskorðaður við Snæfellsnesið. Á síðustu öld hefur hann þó náð að breyðast út um allt land.

Hálfselir eru heillandi kykvendi og ekki síður þegar komið er að erfðafræði þeirra. Það er nefnilega svoleiðis að erfðamengi manns og sels eru það lík að þau geta blandast til hálfs, en kvartblöndun er með öllu ómöguleg. Þess vegna mun par þar sem annað foreldri er maður og hitt hálfselur einungis geta af sér menn eða hálfseli og enga kvartseli. Á sama hátt getur par tveggja hálfsela af sér menn, hálfseli eða seli en engin önnur afbrigði. Áhugasömum er svo bent á að par þar sem annað foreldri er maður og hitt selur getur einungis af sér hálfseli.

Náttúruleg heimkynni hálfsela eru nærri sjávarþorpum eða sundlaugum. Þeim er almennt illa við að ferðast með flugi en leggja það þó stundum á sig í þeim tilgangi að komast á sólarströnd, þar sem þeir geta svamlað í sjónum og flatmagað í sólinni á víxl.

   (18 af 24)  
9/12/04 22:01

Hakuchi

Vönduð og fróðleg grein Glúmur. Gott ef þú ættir ekki að halda erindi um þetta í Vísindaakademíunni.

9/12/04 22:01

Sundlaugur Vatne

Þetta þykir mér áhugavert umfjöllunarefni. Ég legg til að Glúmur fái vísindastyrk til þess að rannsaka þetta nánar.
/verður hugsað til fjölskyndunnar heima í Ýsufirði og minnist þess að amma hans var einmitt frá Búðum á Snæfellsnesi/

9/12/04 22:01

Ugla

"Getinn við mökun sels og manns..."
Menn finna sér ýmislegt til dundurs.

9/12/04 22:01

Von Strandir

Á ekki frægasti hálfselurinn heima í Vestmannaeyjum?

9/12/04 22:01

Nafni

Þá er menn eru vel syndir, svo vel að sagt er um þá "hann er syndur sem selur" eru þá líkur á að um hálfseli sé að ræða eða á það bara við um syndaseli?

9/12/04 22:01

Heiðglyrnir

Afar fróðlegur pistill, herra Glúmur. Tek hér undir með mönnum, um bæði erindi og vísindastyrk.

9/12/04 22:01

Vladimir Fuckov

Þetta er stórmerkilegt og undarlegt að þessi 'dýrategund' skuli fram að þessu hafa náð að fara fram hjá vökulum augum vorum [Fjölgar neðansjávarnjósnamyndavjelum]. Einkum finnst oss erfðafræði hálfsela merkileg.

9/12/04 22:01

Glúmur

Það gleður mig að þið skulið hafa sama áhuga og ég á þessum heillandi einstaklingum.
Varðandi sundgetu þá skal ósagt hvort allir sem syndir eru sem selir séu hálfselir en áreiðanlega flestir þeirra.
Það er svo algengur misskilningur að selurinn í Vestmannaeyjum sé hálfselur, sést það t.a.m. á algjörum skorti á glaðlegu viðmóti. Selurinn í Vestmannaeyjum flokkast víst sem syndaselur eða syndablöðruselur, mönnum greinir nokkuð á um nákvæma flokkun þar sem hann er viðskotaillur í umgengni og ekki hlaupið að því að koma að nákvæmri vísindalegri rannsókn.
Ég á reyndar bágt með að trúa því að fólk hafi ekki heyrt af þessu áður, hvaðan hélduð þið að orðvenjan að "vera í góðum selskap" sé komin?

9/12/04 22:01

Sæmi Fróði

Það má svo tengja þetta við þjóðsögurnar:

[ Frá uppruna selsins er svo sagt að þegar Faraó Egyptalandskonungur veitti Móse og gyðingum eftirför yfir Rauðahafið og drukknaði þar með öllu sínu liði, sem kunnungt er úr biblíunni, varð konungur og allir liðsmenn hans að selum, og því eru beinin í selnum svo lík mannsbeinum. Síðan lifa selir sem séstök kynslóð á mararbotni en hafa alla mannlega mynd, eðli og eiginleika innan í selhömunum og sumir kalla þá sæfólkið.
En það var þeim lagt til líknar að þeir skyldu komast úr selshömunum á Jónsmessunótt, enda fara þeir þá á land og taka á sig mannsmynd, syngja og dansa sem mennskir menn. ]

Þessi þjóðsaga skýrir sjálfssagt hvers vegna menn og selir hafa blandast svona vel og myndað hálfselinn.

Hér er ein þjóðsaga í viðbót:

"Einu sinni var maður nokkur austur í Mýrdal, sem gekk hjá klettum við sjó fram að morgni dags fyrir fótaferð; hann kom að hellisdyrum einum; heyrði hann glaum og danslæti inn í hellinn, en sá mjög marga selshami fyrir utan. Hann tók einn selshaminn með sér, bar hann heim og læsti hann ofan í kistu. Um daginn nokkru seinna kom hann aftur að hellisdyrunum; sat þar þá ungleg kona og lagleg; var hún allsber og grét mjög. Þetta var selurinn, er átti haminn, er maðurinn tók. Maðurinn lét stúlkuna fá föt, huggaði hana og tók hana heim með sér. Var hún hönum fylgisöm, en felldi skap sitt miður við aðra. Oft sat hún samt og horfi út á sjóinn. Eftir nokkurn tíma fékk maðurinn hennar, og fó vel á með þeim og varð barna auðið. Haminn geymdi bóndin alltaf læstan niður í kistu og hafði lykilinn á sé, hvert sem hann fór. Eftir mörg ár reri hann eitt sinn og gleymdi lyklinum heima undir koddabrún sinni. Aðrir segja, að bóndi hafi farið með heimamönnum sínum til jólatíða, en kona hans hafi verið lasin og ekki getað farið með honum; hafi honum gleymst að taka lykilinn úr vasanum á hversdagsfötum sínum þegar hann hafði fataskipti; en þegar hann kom heim aftur, var kistan opin, konan og hamurinn horfin. Hafði hún tekið lykilinn og forvitnast í kistuna og fundið þar haminn; gat hún þá ekki staðist freistinguna, kvaddi börn sín, fór í haminn og steyptist í sjóinn. Áður en konan steypti sér í sjóinn, er sagt hún hafi mælt þetta fyrir munni sér:

"Mér eru um og ó,
ég á sjö börn í sjó
og sjö börn á landi"

Sagt er, að manninum féllist mjög um þetta. Þegar maðurinn reri síðan til fiskjar, var selur oft að sveima í kringum skip hans, og var eins og tár rynnu af augum hans. Mjög var hann aflasæll upp frá þessu, ýmiss höpp báru upp á fjörur hans. Oft sáu menn það, að þegar börn þeirra hjóna gegnu með sjávarströndinni, synti þar selur framan í sjónum. En aldrei kom móðir þeirra aftur á land."

9/12/04 22:01

Skabbi skrumari

Fín úttekt á hálfselunum... salút Glúmi gamli...

31/10/09 05:01

Sannleikurinn

Ekki nema furða að ég sé svona óvinsæll á ýmsum stöðum hér á Baggalútnum - það eru ábyggilega nokkuð margir hálfselir á kreiki þegar mest á lætur.
Einhver var að tjá mér að þeir hálfselir sem hefðu verið með mestu lætinn hafi yfirgefið Baggalútinn fyrir einhverjum misserum síðan.

Glúmur:
  • Fæðing hér: 8/8/03 13:32
  • Síðast á ferli: 23/6/16 16:18
  • Innlegg: 45
Eðli:
Ég er Glúmur Angan verzlunar- og múgæsingamaður. Vertu hjartanlega velkomin(n) á þessa lítilfjörlegu síðu mína og endilega fáðu þér kaffibolla og lummu af borðinu.
Fræðasvið:
Verzlunar- og múgæsingamaður
Æviágrip:
Glúmur Angan er fæddur og uppalinn að Hálsakoti í Háadal. Ungur að árum var Glúmur fljótur upp á lag með að gera gys að jafnöldrum sínum og þótti honum þeir tregir. Varð þetta til þess að jafnaldrar Glúms forðuðust hann og óskuðu enskis frekar en að verða ekki fyrir háðslegum skætingi og níðvísum hans er síst varði, varð Glúmur fljótt vinalaus með öllu utan prestinn á Síðu sem Glúmur heimsótti oft og ræddu þeir jafnan saman heilu dægrin.Glúmur þótti duglegur til verks og þá sérstaklega höfuðverks en hann bar því tíðum við að hann gæti eigi farið út á engi eða sinnt gegningum sökum höfuðverks. Glúmur átti eigi í vandræðum með að útskíra höfuðverkinn og sagði hann vegna þess að slíkar gáfur hefði hann að hann hreinlega verkjaði í höfuðið ef hann mætti eigi huxa um eitthvað gáfulegt. Þessu trúði enginn nema presturinn á Síðu sem tæmdi safnaðarsjóðinn til þess að hægt væri að senda Glúm til náms í Lærðaskólanum. Því er skemmst frá að segja að Glúm þótti ekki mikið koma til gáfnafars kennaranna í Lærðaskólanum og sótti því enga tíma, sem varð til þess að Glúmur var rekinn úr skólanum strax á haustmánuðum. Tók þá Glúmur sér allrahanda hluti fyrir hendur og tók stefnuna á þá braut sem hann fylgdi æ síðan sem verzlunar- og múgæsingamaður.Meðal þeirra hluta sem hann var hvað frægastur fyrir var að æsa fyrrverandi bekkjarfélaga sína til að æpa "Pereat" út um alla Reykjavík þó svo að enginn þeirra vissi hvað það þýddi, slíkir vanvitar sem þeir voru, hló þá Glúmur og nuddaði saman höndunum eins og hann gerði svo oft er hann var eitthvað að bralla.Glúmur fór snemma að stunda verzlun og var fljótt farinn að standa í útflutningi. Glúmur var snjall í viðskiptum, ef ekki viðsjárverður, og varð fljótt ríkur af viðskiptum sínum þó stundum orkuðu þau tvímælis. Danska krúnan varð til dæmis að grípa fram fyrir verzlun Glúms í Danmörku þegar hann varð uppvís af því að hafa selt reyðinnar býsn af mjöli til Dana sem síðar kom í ljós að var ekkert annað en vikur og jafnvel alvarlegra var hversu margir veiktust eftir að Glúmur seldi Dönum móköggla sem þrumara. Enn þann dag í dag eru verzlunarsvik Glúms kennd í grunnskólum í Danmörku og á hann væntanlega stóran þátt í því hversu mjög Danir eru kvekktir og varir um sig í návist Íslendinga.Glúmur var í seinni tíð virtur galdrabrennu forkólfur og "ÚltraKóbalt" veldi hans var stórt í sniðum.