— GESTAPÓ —
Miniar
Fastagestur.
Pistlingur - 2/12/11
Af svefni og vöku.

Ég hef lengi lifað með verkjum og þreytu og verið því greindur með svokallaða vefjagigt sem plagar mig daglega og er ég víst einnig með það sem þeir (þ.e.a.s. læknar og sjúkraþjálfar og fleiri sem að mínum vandamálum koma) vija kalla hypermobility (þar sem ofhreyfanleiki þykir víst of óþjált orð til að það hafi náð almennri notkun) en það er framleiðslugalli á mínum líkama sem lýsir sér þannig að allir mínir liðir eru allt of lausir og sitja því sjaldnast rétt nema við kjöraðstæður.
Svo er ég víst með athyglisbrest og óyndi og kvíðavandamál líka þannig að það er kannski ekki óskiljanlegt að það sé ekki alltaf eins og að allt sé á réttum stað í kollinum á mér heldur.

Það sem fylgir mínum vanda er augsjáanlega þreyta og óregla á svefni og vöku.
Suma daga er eins og ég ætli bara alls ekki með neinu móti að vakna almennilega og aðra er ekkert nema vesen að komast í nokkurn svefn.
Fólk er yfirleitt voða duglegt í einlægri hjálpsemi sinni að gefa manni eins og mér heilræði um leikfimi, matarræði og reglulegann svefntíma en allt þetta hef ég reynt áður og ekkert hjálpar til.

Ég hef stundum haft orð á því að það sé einfaldlega eins og að skrokkurinn á mér sé einfaldlega á því að sólarhringurinn sé andskotann ekki 24 klukkustundir!
Að það sé erfitt að vakna þar sem hann haldi að það sé bara ekki kominn morgun og að það sé ómögulegt að sofna þar sem að hann haldi því fram að það sé bara ekki komin nótt.
Þessu er stundum tekið sem svo að ég sé bara með stæla eða útúrsnúning eða að ég verði bara að taka betur á í líkamsræktinni eða sleppa kaffinu eftir ákveðinn tíma dags eða passa mig á sykrinum eða hætta að fara með tölfuna inn í svefnherbergi (sem ég geri bara til að hafa ákveðina sjónvarpsseríu í gangi sem bakgrunnsóm svo að götuhljóðin vekji mig ekki) og svo framvegis, en þegar ég nota þessa lýsingu geri ég það af einlægni.
Það er einn af mínum draumum að geta einhverntíman lifað þannig að ég fái einfaldlega að sofa þegar mig syfjar og vaka þegar ég er búinn að sofa. Sá draumur uppsker einnig háð og heilræði þegar ég nefni hann. Staðhæfingar sem gefa í skyn að ég ætlist til þess að heimurinn snúist um mig eða að þetta séu bara stælar sem ég fari með til að forðast að taka betur á í líkamsræktinni eða sleppa kaffinu eða pasa mig á sykrinum eða hætta að fara með tölfuna inn í svefnherbergi og svo framvegis.

Nýlega rakst ég á grein á alfræðiorðabókinni Wikipedia um það sem þar heitir "non-24-hour sleep-wake syndrome" (veit ekki til þess að íslenskt heiti sé til fyrir þetta) en þegar ég las þetta þóttist ég kannast andskoti vel við mig. Þessi lýsing sem ég hef þá notað lengi, sú að það sé bara eins og líkaminn telji sólarhringinn ekki vera 24 klukkustundir, er sú sem er notuð fyrir fólk með þessi heilkenni.
Það varð til þess að ég fór svolítið að skoða fleiri heilkenni sem tengjast svefni og svefnmunstri og smátt og smátt fóru þau að fara í pirrurnar á mér.

Því er nefnilega þannig háttað að þeir sem hafa líkamsklukku sem samræmist ekki samfélagslegu munstri eru semsagt stimplaðir sem svo að þeir séu með eitthvert heilkenni af því að þeim reinist erfitt að vera vakandi þá tíma dagsins sem að ætlast er til að allar mannskepnur séu. Ef það er erfitt að sofna þegar til er ætlast (hvort svo sem háttatími líkamans er nokkrum tímum fyrr eða síðar) er það semsagt sett fram sem svo að það er eitthvað að þér, þó svo að svefni sé ekki ábótavant og þú sért raunverulega hraustastur þegar þú færð að sofa þegar líkaminn kallar á svefn.
Samtímis hefur samfélagið skapað raunverulega óholl, ef ekki hættuleg vaktavinnukerfi þar sem ætlast er til af mannskepnunni að sofa þegar vinna segir til að það megi þó svo það sé með öllu ótengt hinum hefðbundna sólarhring, hvað þá líkamsklukkunni.

Það er eitthvað rangt við þetta.
Að við sem samfélag skulum annars vegar skapa þetta og hinsvegar láta þetta yfir okkur ganga, og þó má kanski kenna því fyrrnefna um hið síðara.
Hvernig væri veröld þar sem allir svæfu þegar að þeirra líkami kallar á svefn og á meðan myndu þeir sem væru vakandi vinna sína vinnu?
Kæmum við ekki meiru í verk sem hópur ef að einstaklingar væru ekki sífellt þreyttir og ómögulegir vegna þess að þeir eru stöðugt að þjösnast á sinni eigin líkamsklukku?
Er það ekki örlítið illa gert að þvinga fólk til þess að snúa upp á eigin líkamsklukku til að þóknast lífsmunstri sem hentar ekki öllum og þá jafnvel kannski ekki einu sinni meirihlutanum?

Ég þykist ekki geta svarað þessu, enda allt of þreyttur til þess. Veit vart hvort að það sé nokkurt vit í þessu riti hjá mér almennt, sama hvað ég sé að reyna að skrifa af allavegana hálfu viti, enda hamast skrokkurinn við að segja mér að það sé hánótt, sama hvað sólin skín í andlitið á mér.

   (1 af 8)  
2/12/11 07:01

Regína

Athyglisvert.
Þá væri hægt að hafa t.d. allar skrifstofur opnar allan sólarhringinn, nema þeim er lokað ef svo vill til að allir eru búnir með vinnukvótann í einu, og opnað aftur þegar næsti mætir í vinnu.
En þetta gengur ekki nema á fjölmennum vinnustöðum.

2/12/11 07:01

Fergesji

Það er leif frá fornum tíma, að hver hefur sinn svefnhring, enda þurfti að jafnaði æ einhvern á vakt í hópi gresjuflakkara. Hví skyldi slíkt forrit hverfa á örfáum kynslóðum?

2/12/11 07:02

Billi bilaði

Ég heyrði af Búlgara er hér starfaði í nokkur ár sem hægt var að stilla klukkuna eftir - miðað við 26 tíma sólarhring.

2/12/11 01:00

Heimskautafroskur

Okkur froskdýrum henta árstíðir betur en stundaklukkur. Viljum sofa á vetrum og vaka á sumrum. Miniar á alla samúð vora. Góða nótt.

2/12/11 02:02

Grýta

Mjög góð og athyglisverð lýsing á svo kallaðri líkamsklukku.
Vona að þú komir í þá aðstöðu að þú getir leyft þér að sofna þegar þú þreytist og vakna þegar þú verður úthvíldur. Því það er akkúrat ekkert rangt við það. Það ert þú og þinn líkami og sál sem verða að stjórna eigin lífi og það er samfélagsins að leyfa þér að aðlagsat þér. Gangi þér vel!

2/12/11 03:01

hlewagastiR

Svefn er fyrir aumingja.

Miniar:
  • Fæðing hér: 31/8/09 19:01
  • Síðast á ferli: 1/11/17 15:53
  • Innlegg: 268
Eðli:
Maðurinn með hattinn.
Fræðasvið:
Gagnslausar upplýsingar um allt mögulegt og fleira til.
Æviágrip:
Hættu að forvitnast!