— GESTAPÓ —
J.Maltus
Óbreyttur gestur með  ritstíflu.
Saga - 2/11/07
Jólaminning

Í minningunni eru jólin og aðventan tími eftirvæntingar og gleði.

Aðventan er í minningunni tíminn sem alltaf var mjög lengi að líða. Í byrjun desember fengum við alltaf jóladagatal, það var dagatal sem var með mynd af einhverjum hlut á hverjum degi og alltaf vorum við systkynin jafn spennt að vita hvað væri á bak við gluggann í dagatölunum okkar sem opnaðir voru á hverjum degi. Var það bolti, bíll eða brúða? Glugginn fyrir aðfangadag var jafnan stærstur og á bak við hann yfirleitt mynd af jólasveini.

Þessi tími einkenndist af mörgum verkefnum sem ljúka varð fyrir jól. Það var gerð stórhreingerning á húsinu og allt skrúbbað hátt og lágt. Mamma bakaði margar tegundir af smákökum. Þær helstu sem ég man eftir voru “mömmukökur” sem voru engiferkökur með smjörkremi, vanilluhringir, loftkökur, smjörkökurm möndlukökur, hálfmánar og fleiri tegundir sem ég man ekki hvað voru kallaðar. Við systkynin vorum aldrei sammála um hvaða tegund væri best, þannig að það varð að baka allar tegundir sem hverjum þótti best.

Svo má ekki gleyma deginum sem tekinn var til laufabrauðsgerðar. Þá var mikið um að vera. Allir lögðust á eitt að skera sem fínastar kökur, með misgóðum árangri. Þegar búið var að steikja þær úr heitri feiti, þekktu allir sínar kökur, því handbragðið var svo mismunandi, þó við værum að reyna að gera sama mynstrið.

Þegar líða tók á aðventuna kom pabbi alltaf heim með kassa af eplum. Þetta voru nánast einu ávextirnir sem við fengum á hverju ári. Það þótti mjög gott þegar jólasveinninn gaf okkur epli í skóinn, svo maður tali ekki um smákökur – alveg eins og þær sem mamma bakaði.

Ég hlakkaði alltaf til þess að fara í bæinn til að skoða skreytingarnar og fara og versla í búðunum sem virtust allar yfirfullar af fólki svo erfitt var að komast að vörunum til að skoða úrvalið. Við systkinin fórum í bæinn með mömmu einhverja helgina á aðventunni eða oftar til að skoða skreytingarnar í búðargluggunum. Mesta lukku vakti alltaf jólasveinninn í Rammagerðinni sem var að hífa sig upp úr skorsteini. Við gátum staðið lengi fyrir framan gluggann og horft á hann hífa sig upp og niður. Skreytingarnar sem þá voru á Laugaveginum, í Bankastræti og Austurstræti voru aðallega seríur ýmist úr hvítum eða marglitum perum sem skreyttar voru með greinum. Svo má ekki gleyma risastóra jólatrénu á Austurvelli. Þessar skreytingar þættu ekki merkilegar í dag, en þær glöddu ungan dreng mikið sem fannst að þetta væri hámark þess sem hægt væri að skreyta.

Á þorláksmessu var hangikjötið soðið fyrir jóladaginn, og farin síðasta umferðin í hreingerningu hússins. Aðfangadagurinn rann upp og var alltaf jafn lengi að líða. Biðin eftir að jólin byrjuðu var skelfilega löng. Samt virtist þetta alltaf vera næstum of lítill tími fyrir foreldrana til að klára undirbúininginn, elda matinn og koma okkur krökkunum í sparifötin. Það var suðað, árangurslaust, um að fá að opna pakka, þó ekki væri nema einn, áður en jólin byrjuðu. Spennan náði jafnan hámarki þegar klukkurnar í útvarpinu hringdu inn jólin. Þá var sest að matarborðinu. Oftast var það lambalæri eða hryggur sem var i matinn. Mest minnisstætt var samt að fá kók. Lítil kók var næstum því tákn þess að þetta væri hátið. Enda var slíkur munaður ekki keyptur nema á stórhátíðum. Miðað var við að hver fengi eina flösku í hverri máltíð á stórhátíðum. Þvílík sæla sem það var að finna hvernig gosið kítlaði mann í framan þegar fyrsti sopinn var tekinn. Svartur drykkurinn rann ljúflega, en það varð að fara sparlega, því flaskan varð að duga alla máltíðina.

Loksins kom stóra stundin eftir matinn, það var komið að því að opna pakkana. Þeir innihéldu oftast langþráð leikföng og annað það sem bráðvantaði. Það var vakað fram eftir kvöldi og dundað sér við leika sér að þessu fína dóti sem komið hafði úr pökkunum. Þessi sæla varði svo í nokkra daga, eða þar til spennan yfir komandi áramótum fór að byggjast upp.

   (2 af 2)  
2/11/07 17:02

Z. Natan Ó. Jónatanz

[Syngur hástöfum ´Jó-ól-in, jó-ól-in alls-stað-ar´]

2/11/07 17:02

Lokka Lokbrá

Einmitt, bolti, bíll eða brúða? Það var spennan.
Ég þekki þessa stemmingu vel að gera allt hreint fyrir jólin, fægja hnífapör, pússa skó, strauja skyrtur, sauma pils, krulla hár og hvaðeina.
Góð minning, takk Maltus að rifja upp bernskujólin.

2/11/07 18:01

Galdrameistarinn

Ekki mín deild.

2/11/07 18:02

Einstein

Ég man líka eftir svipuðum jólum. Við í sveitinni fengum að vísu ekkert kók, en eplin fengum við. Það var mjög hátíðlegt. Á Þorláksmessu sauð pabbi skötu úti í eldstæði, en það var gert til að skötulyktin væri ekki enn í bænum þegar jólin gengu í garð.

2/11/07 19:01

Sæmi Fróði

Æskujólin eru ætíð þau bestu. Munið það og gerið sem best fyrir börnin ykkar.

2/11/07 20:01

Skreppur seiðkarl

Hvernig er það, var það ekki svoleiðis löngu áður fyrr að unnið var á aðfangadegi við að draga að föng í bú til að halda jólin svo hátíðleg á Jóladag, daginn sem jólin raunverulega byrjuðu? Eða er þetta vitleysa í mér?

2/11/07 23:01

krumpa

Takk fyrir þetta. Því miður man ég eftir þessu öllu líka - sem þýðir að maður er víst ekkert unglamb lengur...

J.Maltus:
  • Fæðing hér: 8/10/08 21:35
  • Síðast á ferli: 11/4/24 14:41
  • Innlegg: 48
Eðli:
Öldungur sem þjáist af ungæðishætti.
Fræðasvið:
Hagfræði alheimsins. Samskipti milli sólkerfa. Varnir alheimsins
Æviágrip:
Fæddur og uppalinn á ofsetinni plánetunni Maltus fyrir ævalöngu síðan. Á tvær kynslóðir afkomenda og á því sem slíkur að teljast til öldunga.
Var sendur til Baggalútíu til að reyna að fá ríkið í alheimsyfiriráðið, en komst að því að alheimsyfirráðinu væri nær að ganga í Baggalútíu.