— GESTAPÓ —
Heiðursgestur.
Sálmur - 2/11/10
Þá mega prófin koma fyrir mér

Nú eru rétt um 14 klukkutímar í próf og fátt betur við hæfi, en að yrkja dálítinn prófasálm. Til að reyna ekki um of á heilann fékk ég þó hugmynd og form að láni og vona að faðir okkar allra fyrirgefi mér staðfærsluna.

Á fyrsta degi desembermánaðar
ég dreg fram bækurnar í fyrsta sinn
og óska að gæti aðeins lesið hraðar,
því óðar prófastressið nálgast finn.
Í gegnum lagakafla stóra stauta
og stöku nammibiti um varir fer.
Ég les um Sigurð Líndal væla og tauta,
ég les um kröfuhafa og skuldunauta.
Þá mega prófin koma fyrir mér.

Á öðrum degi desembermánaðar
dómasafn Hæstaréttar sæki ég.
Þar eru vangavelturnar til staðar
um vesenstilvik mörg lögfræðileg.
Ég staulast gegnum þessar þungu bækur
og þræði mörg alþjóðalagakver.
Um réttarbálka tifa létt sem lækur,
við lög um fasteignakaup dansa sprækur.
Þá mega prófin koma fyrir mér.

Á þriðja degi desembermánaðar
ég dríf mig oftast nær á bókasöfn.
Þar margur nemandinn í bókum blaðar
og blaðagreinar les um firmanöfn.
Ég fæ mér orkudrykk og dreg fram sæti
og dúsi þarna eins og vera ber
en margur nemandinn er frár á fæti
svo feiknar- skapast þarna jafnan -læti.
Samt mega prófin koma fyrir mér.

Á fjórða degi desembermánaðar
ég drepst úr leiðindum og fæ mér lúr
því lestrarpása lítil engan skaðar
svo lengi sem hún fer ei hófi úr.
Ég þreyttur ruglast æ á u-i og vaffi
og inn á facebook dáldið mikið fer.
Ég sötra appelsínudjús og kaffi
og set mér reglur - bind mig facebookstraffi.
Þá mega prófin koma fyrir mér.

Loks, daginn fyrir próf er pælt í þjófum
og passíft gegnum lagasafnið flett.
Ég skoða spurningar á gömlum prófum
og gef mér „five“ ef ég þeim svara rétt.
Ég sekk mér djúpt í þessi þungu fræði
og þykist ætla' að taka „allnighter“.
Það væri dásamlegt og algert æði
ef að ég prófum mínum flestum næði!
Þá mega þau sko koma fyrir mér.

   (2 af 25)  
2/11/10 10:00

Fyrir bragfræðinerði vil ég benda sérstaklega á sjöundu hendingu fjórða erindis og þriðju hendingu fimmta erindis, þar sem fram koma stuðlar á áhersluatkvæðum innan í ósamsettum orðum. Fyrir nokkrum misserum fór fram nokkur rökræða um slíka stuðlun á hinum mæta skólastofuþræði og ku flestir mér ósammála um að svona stuðlun skuli heimila. Mér er hins vegar alveg sama og nota hana samt.

Langar mig og að nefna, sem dæmi um samskonar stuðlun mér æðra skálds, fyrstu tvær hendingarnar í fyrstu fjórum erindum verks þess, sem þetta kvæði hér er hermt eftir.

2/11/10 10:00

krumpa

Gangi þér vel!

2/11/10 10:00

Grýta

Þú brillerar Pó!

2/11/10 10:00

Regína

Já, þetta er athyglisverð stuðlasetning. En mikið skil ég þig að yrkja frekar en að lesa skruddurnar.
Ég átti krónubauk einu sinni, og oft þegar ég átti einmitt að vera að gera eitthvað annað, þá hvolfdi ég úr krónubauknum, sorteraði þær eftir ártölum, taldi hve margar í hverjum árgangi og lét eins og þetta væri merkilegra en námsbækurnar. En þá kunni ég ekki að yrkja.

2/11/10 10:01

Regína

Úbbs, gleymdi að hrósa kvæðinu, þetta er ágætt kvæði.

2/11/10 10:01

Billi bilaði

Mér finnst ekki nóg af stuðlum innan í ósamsettum orðum. Ef það væri meira af þeim, þá fengi þetta sko fullt hús.
En ef þú nærð prófunum, þá færðu samt fullt hús.

2/11/10 10:02

Villimey Kalebsdóttir

Ertu snaróður maður ? Prófin eiga helst ekki að koma. Óþolandi árstími.

2/11/10 11:00

Barbie

Mér finnst þetta alveg prýðisfínt. Var þetta ort á fjórða degi milli facebook færslna og forsíðumyndabreytinga? Í straffinu eða kaffinu? Aaa prófin. Sem betur fer LÖNGU búin.

2/11/10 11:00

Huxi

Tómas Guðmundsson lærði líka lögfræði en bar þó gæfu til að hætta að praktísera hana, þegar skáldskapargyðjan vildi fá hann í fasta sambúð. Þú lendir kannski í svipuðu vali einhvern daginn. Þú hefur altént sýnt góða tilburði í ljóðagerð og þetta kvæði er þar engin undantekning.

2/11/10 11:01

Heimskautafroskur

Næst þegar ég fer í meiðyrðamál við Lappa út af Skammast í bundnu, fer ég fram á að þú takir að þér lögfræðilega hlutann fyrir mína hönd. Og að allur málflutningur verði í bundnu. Afbragðsgóð og hressandi aðventulesning. Nú mega fleiri kvæði koma fyrir mér.

2/11/10 11:01

hlewagastiR

Þetta er dásamlegur stuðlunarmáti. Það ætti að varða við lög að nota hann ekki.

2/11/10 11:01

hlewagastiR

Prófatíminn var alltaf besti tími ársins á námsárum mínum. Sofið út flesta daga og annars legið upp í bæli og lesið. Inn á milli skemmtilegur spurningaleikur í boði ríkisins. Þetta fannst mér alltaf unun.

2/11/10 12:00

Grýta

Tókstu þátt í spurningarkeppni framhaldsskólanna hlewagastiR?

2/11/10 12:02

Bullustrokkur

Þetta kvæði er skemmtilegasta nýorta kvæðið,
sem ég hef lesið lengi.
Lagatæknar sveigja og beygja lög og reglur.

2/11/10 16:00

Ísdrottningin

Takk fyrir góðan lestur, fer héðan sælli en ég kom.

2/11/11 14:02

hvurslags

Þetta er stórskemmtilegt, hafðu þökk fyrir!

Pó:
  • Fæðing hér: 22/9/08 01:50
  • Síðast á ferli: 22/5/22 23:24
  • Innlegg: 2331
Eðli:
Áhugamaður um hitt og þetta.
Fræðasvið:
Hitt og þetta.
Æviágrip:
Borinn í Rvk og verið þar síðan með undantekningum.