— GESTAPÓ —
Heimskautafroskur
Heiðursgestur.
Pistlingur - 1/12/08
upp í kok af kjaftæði

nú er mér mál í framhaldi af frétt í RÚV á dögunum um verðfall á sorpi og stórauknum kostnaði við endurvinnslu.

ég hef í fjölda árað þusað í mínum hópi um endurvinnslu á sorpi og varað við einhliða áróðri og bulli í þeim málaflokki. er þá einkum að tala um endurvinnslu á pappír og pappírsvörum.
fréttin fjallaði um að verð sem fæst fyrir m.a. bylgjupappa sem fluttur er úr landi til endurvinnslu hafi fallið um allt að 95% á síðustu mánuðum og nú fáist 5-10€ fyrir TONNIÐ af bylgjupappa. þá er eftir að flytja vöruna sjóleiðis til Skandinavíu og endurvinna hana. mismuninn greiða íslenskir neytendur og skattgreiðendur – kostnað sem er að margfaldast. sem væri í sjálfu sér allt í lagi ef maður bara VISSI að þetta þjónaði þeim tilgangi að vernda náttúruna, hlífa umhverfinu og spara náttúruauðlindir.
eftir stanslausan áróður í aldarfjórðung er það löngu orðið að viðurkenndum sannleika að öll endurvinnsla sé góð; stuðli að minni mengun og betri nýtingu náttúruauðlinda. það er ekki að sjá að nokkur spyrji sig hvort þetta sé alltaf raunin. hvað varðar endurvinnslu á pappír frá Íslandi hef ég verulegar efasemdir og er reyndar sannfærður um hið gagnstæða. rök mín eru eftirfarandi:

1. að því ég best veit kemur nánast allur pappír sem notaður er á Íslandi, t.d. til hvers konar prentunar, umbúða og hreinlætis frá Skandinavíu – semsagt frá Finnlandi og Svíþjóð. pappírsframleiðsla í þessum löndum er sjálfbær og gengur ekki á nokkurn hátt á náttúruauðlindir. ég líki nytjaskógrækt sem þeirri sem stunduð er í þessum löndum við kartöflurækt; það er sáð, uppskorið og sáð aftur. Svíar settu í lög á 19. öld að skógareigendum væri skylt að rækta meiri skóg en þeir fella til nytja og þannig hefur það verið og þannig er það. þess vegna er það út í hött þegar fólk telur sig vera að vernda skóga, jafnvel regnskóga Amason, með því að endurvinna dagblöð og mjólkurfernur frá Íslandi. því skógarnir vaxa þeim mun meira sem meira er höggvið.

2. að endurvinna pappír frá Íslandi hefur í för með sér að auk þess að safna úrgangspappír í þar til gerða gáma eða tunnur úr stáli og plasti (hér minni ég á að plast er framleitt úr olíu og stálframleiðsla er orkufrek og gengur á náttúruauðlindir), flokka og flytja til hafnar og síðan sjóleiðis yfir Norður Atlantshaf. siglingin ein og sér kostar óhemju af olíu með tilheyrandi útblæstri kolefna – semsé mengun sem gengur á náttúruauðlindir og stuðlar að gróðurhúsaáhrifum. það er semsagt alls ekki sjálfgefið að endurunninn pappír sé umhverfisvænni en „nýr“ pappír sem unninn er úr sjálfbærum skógum, þvert á móti.

3. endurvinnslan sjálf er orkufrekt ferli og mér hefur aldrei verið sýnt fram á að það geti á nokkurn hátt verið hagstæðara náttúrunni að ganga í gegnum það ferli frekar en að frumvinna pappír úr nýjum viði úr sjálfbærum skógum sem nóg er til af.

---

til er afar einföld leið til að endurvinna pappír sem er langtum hagkvæmari en nokkur önnur. það er að urða pappírinn og breyta honum aftur í mold, þaðan sem hann kom upphaflega. í rauninni þarf ekki annað til þess en heppilegt landrými sem næst neytendum pappírsins. og hvað sem hver segir um það þá er fráleitt að halda öðru fram en að á Íslandi sé landrými nóg. á heppilegum stöðum mætti síðan rækta nytjaskóg upp úr þessari mold og þegar þar að kæmi höggva skóginn til að vinna úr honum pappír. það væri raunveruleg endurvinnsla.

   (35 af 35)  
1/12/08 21:02

Golíat

Svei mér ef ég fer bara ekki að hætta að flokka. Sennilega er það enn ein blekkingin. Rétt eins og hlutabréfaleikurinn. <stokkar hlutabréfin sín, treður þeim í möppu og stingur henni upp í hillu við hliðina á frímerkjasafninu>

1/12/08 21:02

Kargur

Frábær jómfrúarpistill hjá þér.

1/12/08 21:02

krossgata

Ég hef grun um að þetta sé ekki allt bull. Það er alltaf verið hagræða sannleikanum og bera á borð í fallegum búningi.

1/12/08 21:02

Upprifinn

Til hamingju með þitt fyrsta félagsrit. og þess má geta að það stenst að mínu mati allar kröfur sem gerðar eru til gæða félagsrita.

1/12/08 21:02

Garbo

[Grefur litla holu úti í garði og jarðar mjólkurfernurnar sínar í kyrrþey]

1/12/08 21:02

Golíat

Garbo <hvíslar> hvernig brýturðu þær saman?

1/12/08 21:02

Garbo

Sko, yfirleitt brýt ég þær saman þannig að ég þrýsti inn hliðunum og flet þær út og beygi botninn upp að...[klórar sér í höbbðinu] og treð þeim svo með opið á undan ofan í eina galopna fernu. [Roðnar óstjórnlega]

1/12/08 22:00

hvurslags

Þessu komst ég að fyrir nokkrum árum og er sammála. Penn & Teller fjalla einnig um endurvinnslu í Bullshit-þáttum sínum þar sem rætt er við umhverfisfræðinga sem segja að eina endurvinnslan (sem stunduð er í dag) sem á endanum komi út í plús fyrir umhverfið sé á áldósum. Hitt sé húmbúkk, urðunartækni sé orðin það þróuð að engu sé sóað fyrir jörðina þótt úrgangur sé grafinn í hana.

1/12/08 22:00

Heimskautafroskur

Þakka góð viðbrögð og leiðbeiningar!

1/12/08 22:01

Skabbi skrumari

Skemmtilegt, gagnlegt og áhugavert félagsrit... Skál

1/12/08 22:01

Texi Everto

Ég urðaði hlutabréfin mín í Exista og Decode. Það er held ég eina gagnið sem má hafa af þeim núna. [Starir þegjandi út í loftið] Ætli ég sái svo ekki baunum í þetta með vorinu.

1/12/08 22:01

Kiddi Finni

Bylgjupappaendurvinnslan á að borga sig. Og einmitt þessi skógarræktun hefur haft mjög neikvæða og einhæfa áhrif á skóginum í Finnlandi og Svíþjóð. Skógarinir okkar eru einmitt núna eins og kartöflugarðar, einn skógur fullur af jafngömlum trjám af sama tegund. Margar dýra- og fulgategundar eru orðnar sjáldsédar útaf þessu.
Við þurfum einnig tré til smiðaviðs og svo til orku, og það í æ vaxandi mæli á þessum síðustu tímum.
Það sem sjóflutningi varðar, þá á að spurja: er farið sér ferð útaf þessari flutningu eða komast pappagámarnir með svona "á bakaleiðinni"?
Og siðast er ég ekki viss um urðun. Rotnar pappinn svo ekki þar og leysir koltvísýringu af sér? Væri ekki betra að brenna pappann og pappirsúrganginn í sorpbrennustöð og nota orkuna í eitthvað, td. búa til rafmagn eða kynda hús, eða þess vegna bæði?
Annars, Froskur, takk fyrir skemmtilegt og vel skrifað félagsrit.

1/12/08 22:01

Heimskautafroskur

Takk fyrir þetta Kiddi – prýðilegar ábendingar og athugasemdir. Ég er alls enginn sérfræðingur í þessu, þetta eru fyrst og fremst vangaveltur um endalausan áróður sem ég hef miklar efasemdir um að sé innistæða fyrir nema í einstaka tilfellum. Mig grunaði þetta reyndar með nytjaskógana – einhæf ræktun til langs tíma leiðir til ákveðinna vandræða (líka í kartöflurækt).

1/12/08 22:01

Kiddi Finni

Ekki er ég með siðasta og tærasta sannleikann í þessum málum heldur, vildi koma líka með nokkra punkta hinum megin frá. Það virðist að vera margt í mörgu í þessum endurvinnslu- og umhverfismálum.

2/12/08 00:01

Regína

Hvað tekur langan tíma að breyta pappír í mold?
Og af hverju er félagsritið allt með litlum staf en orðabelgir með stórum staf hjá þér?

Annars með þetta að safna pappír í gám, sum stór heimili gera þetta af illri nauðsyn því annars myndu ruslatunnur fyllast of fljótt milli tæminga. Á mínu litla heimili er ég löngu hætt að nenna að vera hugsjónamanneskja, og bæði hin vikulega mjólkurferna og blaðabunkinn fara í tunnuna.

2/12/08 01:00

Skreppur seiðkarl

Það má líka gera úr úrganginum metangas sem má þá nota til að keyra bíla eða í gróðurhús með ekkert svo miklum breytingum, svona hringrás eiginlega.

Þannig er að orkuinnihaldið í rusli á borð við flest plast og trjáafurðir ýmiskonar er næstum því það sama og í jarðolíu. Mig minnir samkvæmt skólabók einni í efnisfræði málmiðna að rusl innihaldi um 5-15% minni orku, það er allt og sumt.

Heimskautafroskur:
  • Fæðing hér: 29/11/07 15:40
  • Síðast á ferli: 5/6/23 18:54
  • Innlegg: 2708
Eðli:
innræti frosksins ber af útliti hans eins og gull af eiri
Fræðasvið:
bókmenntir, myndlist og innsýn í skógrækt. hefur gaman af því að hnoða saman vísum.
Æviágrip:
klaktist út við Eyjafjörð og ól þar aldur með nokkurra ára hléi í hálfan fimmta áratug að hann stökk til Reykjavíkur.