— GESTAPÓ —
krossgata
Heiðursgestur.
Saga - 4/12/06
Bókin um

Smásaga

Sólin skein hátt á himni og það bærðist ekki hár á höfði. Himininn var heiður, hvergi sást ský svo langt sem augað eygði. Stelpan hjólaði á rauðu nýlegu kvenhjóli um götur hverfisins. Hvergi var neina hreyfingu að sjá, engin hljóð heyrðust, það var eins og hún væri ein í heiminum. Öðru hvoru stoppaði hún og steig af hjólinu og horfði eitthvað út í buskann. Í körfunni framan á hjólinu var peysa og poki með einhverju í. Hún stöðvaði við eitt hús og horfði upp að útidyrahurðinni. Lagði hjólið upp að girðingunni, tók pokann og gekk heim að húsinu. Hún bankaði á dyrnar og beið. Einhversstaðar lengra heyrðist í bílvél, hún leit við í átt að hljóðinu, sem svo dó út. Hún bankaði aftur og beið enn. Ekkert hljóð heyrðist að innan og enginn svaraði. Hún sneri við og gekk að hjólinu og steig á það.

Svona hafði þetta verið allan daginn, henni hafði ekki tekist að selja eitt einasta merki. Það var eins og allir hefðu ákveðið að fara úr bænum í dag. Hvergi var neinn heima og hvergi var svarað. Eina lífsmarkið sem hún hafði orðið vör við var þetta bílhljóð. Hún hafði gert sér vonir um að selja öll merkin, hún hafði valið nýja hverfið, þar voru allir svo ríkir. Í dag var svo gott veður að fullt af fólki hlyti að vera heima við í garðinum. En svo var ekki, hvergi var lífsmark að sjá. Þetta var eins og draugabær. Hún steig á hjólið aftur og ákvað að fara heim. Hún hjólaði af stað, þræddi göturnar og horfði heim að húsunum hugsandi. Ekkert lífsmark neinsstaðar. Hún fór út á aðalgötuna sem tengdi nýja hverfið við eldri hluta bæjarins. Það var engin umferð.

Hún hélt niður aðalgötuna og hjólaði á miðri götu. Þetta var nú annars skemmtilegt, hún hafði allan heiminn fyrir sig. Hún gat hjólað hvar sem var, hún átti öll húsin og allar göturnar, allan heiminn. Hún sleppti höndunum af stýrinu og hjólaði áfram. Þetta var frábært, það var ekki svo oft að maður hafði bestu götuna í bænum til að leika listir sínar á. Hár hennar bærðist létt er hún hjólaði hratt eftir götunni og líkami hennar fylgdi hreyfingu hjólsins til að halda jafnvægi. Hún var ímynd bernskunnar er hún hjólaði þarna áhyggjulaus í blíðviðrinu og átti allan heiminn.

Hún setti hendurnar á stýrið og beygði hjólinu inní götuna sem hún átti heima við. Allt var kyrrt og hljótt, enginn á ferð. Hún hjólaði rólega eftir götunni og leit upp að húsi vinkonu sinnar. Þar var enginn bíll, engin hreyfing heldur. Hún beygði upp að húsinu sem hún átti heima í, stöðvaði við húsið, steig af hjólinu og lagði uppað húsveggnum. Opnaði hurðina og fór inn. “Ég er komin heim”, kallaði hún hátt. Hún hrökk við, allt hafði verið svo kyrrt og hljótt svo lengi að kall hennar var eins og öskur. Þögnin hafði verið þung eins og sléttur vatnsflötur og allt í einu var vatnsflöturinn eins og úfið óveðurshaf, þar sem bylgjurnar risu háar eins og hús. Hún greip andann á lofti, hjartað sló ört.

Hún stóð í eldhúsinu og það hafði enginn svarað, það var skrítið því mamma átti að vera heima, hún var í sumarfríi. Jæja, hún hlaut að hafa farið út í búð eða eitthvað. Hún náði sér í djús í ísskápinn og brauð í búrið, settist við eldhúsborðið og byrjaði að borða. Hún hafði jafnað sig á hávaðanum í sjálfri sér og andaði nú rólega. Hún horfði hugsandi út um gluggann meðan hún borðaði. Velti fyrir sér hvar allir væru, hvað hefði orðið af öllum hljóðunum sem fylltu daglegt líf. Hún hafði bara heyrt í bíl eitt andartak og í sjálfri sér kalla. Það voru engin hljóð sem annars fylltu daginn, óskilgreind hljóð af athafnasemi mannlífsins.

Hún stóð upp frá eldhúsborðinu og gekk inní herbergið sitt, tók bók af borðinu, henti sér uppí rúm og skoðaði bókina. Hún hafði fengið þessa bók í afmælisgjöf fyrir stuttu síðan, en það hafði alltaf verið svo gott veður að hún hafði ekki gefið sér tíma til að byrja á henni. Nú þegar hún var í ein í heiminum, var kannski fínt að byrja að lesa bókina. Titill bókarinnar var “Bókin um”, skrítinn titill, alveg í samræmi við þennan skrítna hljóðlausa dag. Hvers konar bók er eiginlega bók sem heitir “Bókin um”? það var engin mynd á kápu bókarinnar, hún var einlit í ljósbrúnum leðurlit og titillinn var í gylltu stóru letri. Það glóði eins og ljós eða sólargeislar féllu á það, það var eins og logandi eldur. Hún hafði aldrei tekið eftir þessu fyrr, þó hafði bókin legið á borðinu hennar í nokkra daga, síðan á afmælinu hennar.

Hún opnaði bókina varlega, hálfhrædd við hvað myndi birtast á síðum hennar. Þessi dagur var búinn að vera svo undarlegur að hún átti helst von á að verur, skrímsli eða hvað sem var myndi stökkva á hana út úr bókinni. Á titilblaði bókarinnar stóð bara “Bókin um”, hún varpaði öndinni léttar, en var samt hálfhrædd enn. Hún fletti og allt í einu fylltist allt af hljóðum. Hún heyrði í mörgum bílum, barnsraddir, hróp og köll, hlátra, grátur, nið, suð, hurðarskelli, fótatak margra fóta, skrjáf, glamur. Hún heyrði öll hljóð, sem annars fylltu venjulegan dag. Henni brá og hún hljóðaði upp yfir sig, greip höndum fyrir eyrun. Hljóðin skullu á eyrum hennar eins og högg, bylgja allra hljóða heimsins. Mannlífið allt þrengdi sér í flóðbylgju hljóða á viðkvæma hljóðhimnuna, sem ekki hafði þurft að bregðast við neinu í langan tíma. Hjarta hennar sló ótt og títt, hún var móð. Hún leit niður á bókina og frá bókinni streymdu hljóðin, í litum og myndum, svo ört að ekki varð fest auga á, streymdi fram eins og línur eins og strokið væri yfir málverk og dregið úr öllum litunum yfir málverkið og engin mynd yrði eftir.

Hún kastaði frá sér bókinni og greip aftur um eyrun. Sársauki lýsti úr andliti hennar, hún var undrandi yfir að nokkur skyldi geta lifað við öll þessi hljóð. En hvað heimurinn yrði nú friðsæll ef það væru engin hljóð. Hún leit á bókina, sem lá opin á gólfinu, hún stóð upp, tók upp bókina og lokaði henni. Allt varð kyrrt og hljótt, hún lokaði augunum og naut þagnarinnar nokkra stund. Hún tók ákvörðun. Hún gekk fram í eldhúsið, setti bókina í vaskinn, teygði sig í eldspýtnastokk sem lá í glugganum, kveikti á eldspýtu og lagði eld að bókinni. Hún horfði á eldinn læsa sig um bókina. Horfði á hann magnast og éta í sig bókina. Eldurinn teygði sig upp í loftið, í honum sá hún hljóðin hverfa með lágu hvísli í reyk út í buskann og leysast uppí ekkert. Að lokum var ekkert eftir nema askan, hún skolaði öskunni niður, dró andann djúpt og naut friðsældarinnar. Hún gekk út úr húsinu lokaði á eftir sér, steig á hjólið og hjólaði glöð með hendurnar lausar frá stýrinu inní sjóndeildarhringinn
ENDIR

   (13 af 26)  
4/12/06 06:02

Útvarpsstjóri

Það er nebblega það.

4/12/06 07:00

Z. Natan Ó. Jónatanz

Fyrirtaksrit; flott saga.
[Veltir fyrir sér hvort það sé meðvituð ákvörðun höfundar að sleppa punkti eftir lokamálsgrein]

4/12/06 07:00

Grágrímur

Góð saga... enn hvað með bílinn?

4/12/06 07:00

krossgata

Bíllinn já. Það var bara hljóð.
.
Þetta var algerlega ómeðvitað að gleyma þessum punkti í lokamálsgrein, en þegar ég skoða það, finnst mér viðeigandi að hún hafi ekki punkt.

4/12/06 07:00

Regína

Skrýtin saga, vel skrifuð

4/12/06 01:00

hvurslags

Já, flott töfraraunsæi og vel skrifað.

4/12/06 01:02

Jóakim Aðalönd

Töff.

4/12/06 03:01

Heiðglyrnir

Flott saga Krossgata...Riddarakveðja.

4/12/06 07:02

Vladimir Fuckov

Mjög athyglisvert. Skál !

krossgata:
  • Fæðing hér: 20/11/06 10:54
  • Síðast á ferli: 1/2/22 11:03
  • Innlegg: 8534
Eðli:
Stend á krossgötum ráðandi krossgátur.
Fræðasvið:
Orðhengilsháttur og útúrsnúningar.
Æviágrip:
Mætti í heiminn fyrir þó nokkru með töluverðum flumbrugangi, það er töluverðu fyrir tímann og hef síðan velt því fyrir mér hvert halda skuli. Fór að tala fyrir tímann líka og varð læs fyrir tímann. Þetta fyrirtímabrölt hefur allt leitt mig að þeirri niðurstöðu að ég er greinilega á undan minni samtíð.Safnaði um tíma ambögum, en hef látið það vera um nokkurt skeið.

Örlögin höguðu því svo til að krossgata er vel kunnug staðháttum við Faxaflóa, þó undanskilið sé stór-Reykjavíkursvæðið. Hefur það aukið víðsýni hennar töluvert.