Hvaða ómenni tók uppá því að búa til háhælaða skó og þröngva þeim uppá konur?
Mér er meinilla við háhælaða skó og nota þá aldrei. Nú hins vegar líður senn að því að erfðaprinsinn mun fara í hefðbundna manndómsvígslu þá er unglingar fara gjarnan í gegnum um 14 ára aldurinn og ég veit að upp mun hefjast mikil áróður fyrir háhæluðum skóm í kringum mig. (Fyrir mig en ekki hann). Að venju mun ég ekki láta undan. Enda er bara ekkert fallegt að standa á tám. Því í ósköpunum skyldi þetta vera hluti af því að vera fínn?
Ég var alveg búin að ákveða að þetta væri allt saman körlum að kenna. Þeir eru nú svo ljómandi fínir til að kenna um allt vont sem troðið er uppá konur. Ákvað að leita aðeins að einhverju um sögu hárra hæla. Þeir virðast hafa komið fram í kringum árið 1500 og ætlaðir til að koma í veg fyrir að reiðmenn rynnu fram í ístöðin. Aðallega notaðir af körlum. Dæsir Þar fór það. Þeir voru nú svo sem ekkert mjög háir eða eitthvað í kringum 3-4 cm. Það er langt fyrir ofan þá hæð hæla sem ég tel æskilega.
Í kringum 1530 er svo farið að nota háa hæla vegna útlitsins eða tískustrauma og til að sýnast hærri. Kemur það frá frönsku hirðinni og nota konur og karlar þá jafnt. Seint á 18. öld í kringum frönsku byltinguna detta þeir úr tísku vegna tengsla sinna við auð og stéttaskiptingu. Þeir sjást varla í heila öld, en seint á 19. öld koma þeir aftur í tísku og þá nær eingöngu meðal kvenna og er svo enn í dag.
Ég spyr bara: "Hvernig í ósköpunum dettur nokkrum manni eða konu að ota þessu að fólki"? Það er ekki einn jákvæður hlutur við háhælaða skó, sem í ofanálag eru oftast nær með mjóa tá. Ekki eru þeir fallegir, því þeir verða eins og einhver ofvaxin skrýmsli til að hægt sé að komast í þá. Það gerir mjóa táin og lagið á þeim. Þeir stuðla að ýmsum fótameinum: styttingu hásina, aflögun táa og þar fram eftir götunum.
Ég hef alltaf getað notað sem afsökun að nota ekki háhælaða skó fótagalla sem ég hef á báðum fótum, ættgengur andskoti, en það er vel hægt að laga hann. Þessi galli er farinn að há mér svolítið í seinni tíð og er ég að velta fyrir mér að láta laga fæturna. Eftir það gæti ég svo sem alveg notað háa hæla, en ætla ekki að gera það. Nú ætla ég að finna einhverja frumlega afsökun til að nota þá ekki eins og: "Mér finnst þeir ljótir".
Andvarpar af ánægju yfir að geta tuðað yfir þessum ófögnuði
GÁTA:
Afhverju ganga konur í háhæluðum skóm og mála sig?
.
.
.
Því þær eru litlar og ljótar!
Maður finnur ekki mikið fyrir háu hælunum ef maður er nógu andskoti fullur.
Ergo: Ef þú sérð mig á háum hælum máttu vita að ég er ekki þurrbrjósta.
Já ég er sammála þér, ég horfi hér á það sem áður voru fallegir fætur mínir. Um helgina gekk ég á hælaskóm sem gjörsamlega fláðu af mér húðina á löppunum. Og þetta eiga að vera flamenco skór sem átti að vera GOTT að dansa í. Fruss
Ég las einhverstaðar að sá sem fann upp háu hælana var kona sem var kysst á ennið.
Athyglisvert Tigra, það var víst drottning þarna við frönsku hirðina sem kom þessu af stað, samkvæmt því sem ég las, m.a. til að hækka sig. Hún var víst ekki með hávaxnari konum.
Ég hef 3-4x notað háhælaða skó, þá við einhver tækifæri þar sem skvett er í sig, en öfugt við Ísdrottninguna hef ég tilhneigingu til að fara úr skónum þegar ég er orðin aðeins kennd og spranga um á sokkaleistunum.
Hélt það hefði verið sjálfur Lúðvík Franskramannakonungur sem hóf að ganga í háhæluðum.
En hafi tilgangurinn upphaflega verið að hækka þá er í svona skóm voru var þá ekki framendinn á skónum hár líka ? [Klórar sjer í höfðinu og þakkar fyrir að nú á tímum gangi karlmenn aldrei í háhæluðum skóm]
Það var jú talað um pallaskó (platform shoes), sem voru vinsælir á tímabilum. En háhælaðir skór er notað yfir þá skó sem hækka bara undir hælinn.
Ég man ekki nöfn þeirra skötuhjúa frönsku konungshjónanna á þessum tíma, en það er talað um að drottningin hafi komið þessu á. Karlinn hennar notað slíka skó líka og þetta breiddist út meðal aðalsins, kvenna sem karla.
Háir hælar stinna kálfa, læri og rass. Bæði meðan á göngunni stendur vegna þess álags sem þeir leggja á vöðvana sem og til lengri tíma vegna æfingarinnar sem felst í því að spranga um á slíkum fótbúnaði.
Einnig valda háhælaðir skór því að manneskjan sem í þeim er réttir meira út baki en ella því að slíkt hjálpar til við jafnvægið. Þegar rétt er úr bakinu þá á barmurinn það til að lyftast örlítið upp og jafnvel líta út fyrir að vera stærri en venjulega.
Þá er vert að benda á að þeir sem ganga um í háum hælum ganga oft hægar en þeir á flatbotnum og veldur það oft á tíðum munúðarfyllra göngulagi.
Þegar allir þessir hlutir eru taldir saman, þá er kannski ekkert svo skrítið að sumt fólk kjósi að ganga um á háum hælum.
-
Ég neita að ganga í óþægilegum skóm. Einir þægilegustu spariskór sem ég á eru einmitt bæði háhælaðir og þykkbotna, svo ég hækka um hátt í tíu sentimetra í þeim. Því hef ég afskaplega gaman af. Þykkbotna skór hafa auk þess þann augljósa kost að erfiðara er að troða manni (bókstaflega) um tær í þeim.
Ég held að sumar konur gætu séð sig knúnar til að hækka sig upp í nánd við mig. En ekki ættla ég í þannig, enda er held ég að það sé vesen að fá háhælaskó nr 47
Það er búið að sanna það að það að ganga, og sérstaklega dansa, á háum hælum, er nokkuð hollt fyrir hné og mjóhrygg.
Hinsvegar ber að merkja að hér tölum við um að nota þessa skó í hófi og það að það er að sjálfsögðu munur á hælum og hælum.
Maður á að velja þá hælslengd sem passar manni og maður á helst að velja skó sem styðja vel við allann fótinn og forðast sandala.
Einnig ber að merkja að mjóari hælar eru bara fyrir þá sem eru með gott jafnvægisskyn (eða þurfa að æfa upp jafnvægið).
Ég elska háhælaða skó og ef þeir eru sérstaklega fallegir þá geng ég í þeim þó þeir séu óþægilegir.
Dagsdaglega geng ég þó oftast í lágbotna eða með lágum hæl - ég ætla að draga úr því. Stefni í að ganga meira í háhæluðum - mér finnst það fallegra - finnst ég líka glæsilegri.
Hvergi hef ég lesið um neitt sem staðfestir hollustu þess að vera í háhæluðum skóm hvorki fyrir hné eða mjóhrygg. Geri mér heldur ekki leit að slíkri firru.
[Glottir]
Þær niðurstöður rannsókna sem ég hef lesið staðfesta það að háir hælar valda ýmsum stoðkerfismeinum, s.s. siggi, líkþornum, skökkum tám, liðagigt og -bólgum, viðvarandi hnjáverkjum, snúna ökla og tognaða (meira slysatengt vandamál) og bakvandamálum. Þyngdarpunkturinn verður rangur á fætinum. Spenna verður óeðlileg á hnjám.
Rétta úr baki, pfff, það er ekki fallegt að vera með beint bak og boginn um mjaðmir.
Ég held að allt það fáránlegasta og rakalausasta í tískunni eigi uppruna sinn að rekja til frönsku hirðarinnar á tíma Loðvíks fjórtánda. Sú venja að hneppa ekki neðstu tölunni á jökkum karlmanna er til að mynda til komin af því að Loðvík hætti einu sinni að geta hneppt neðstu tölunni á jökkunum sínum. Til þess að láta honum ekki líða eins og fitubollu tók hirð hans upp á því að apa þetta útlit eftir honum.
Ég held bara að Þarfi hafi rétt fyrir sér.
[Setur frakka á listann yfir óvini ríkisborgarans, Vlad verður að sjá um að taka málið lengra]
Ég held að þeir sem ganga í háhæla skóm þurfi líka að vera í háhælasokkum.
Flest allar mellur og klámleikonur sem ég hef séð hafa verið á háum hælum.
Aftur á móti hef ég aldrei séð kappaskturshetju né pípulagningarmann á háum hælum.
Ætli það sé eitthvað þarna?
Ég er eins og Carrie. Ég ELSKA háa hæla.
Mér finnst ég vera kvennlegri, grennri, lögulegri og meiri dama þegar ég er á hælum en án þeirra.
Svo er ég ekkert brjálæðislega há í loftinu en laðast að hávöxnum karlmönnum (180 er lítið í mínum augum) svo það er betra að vera í hælum... annars kyssa þeir mig bara á ennið [Flissar].
Ég geng eins oft og ég get í hælum og oft hef ég keypt og gengið í mjög óþægilegum skóm bara vegna þess hve fallegir þeir eru!!
Bresk, alvarleg, könnun sem sýndi fram á hollustu hælanna.
Vandamálin koma fram þegar hælarnir eru notaðir í óhófi!!
Max 4 klukkustundir á dag, og alls ekki meir en 5 daga í viku.
Ég geng nú ekki í skóm ef þeir eru óþægilegir.
En hinsvegar á ég eitthvað af hælum sem eru mjög þægilegir... og ég er sammála Nornu, Carrie ofl. að mér finnst ég vera meira sexy á hælum.
Það verður náttúrulega hver að hafa sína hentisemi í þessum málum, sem skapar hressandi fjölbreytileika og skemmtilega heimsmynd.
Er sammála Nornu - hælum sem eru undir 10 cm lít ég ekki við!
Finnst það auk þess bara ekkert óþægilegt og afskaplega lekkert! Mest bara vani held ég samt...
Ég elska háhælaða skó, því hærri því betri. Ég á hæla skó í öllum litum og áferðum. Í stað þess að hugga mig með mat kaupi ég mér skó.
Langar svo að benda þér að támjóuskórnir er LÖNGU búnir í tísku. Skófyrirtæki misstu sig í þessari tísku að þeir framleiddu allt, allt of mikið af þeim og núna er bara verið að reyna að losa sig við þá. Opnir hælaskór með rúnaðri tá er málið í dag.
Aulinn, hjarta, háhælaðir skór.
[Fær hláturskast]
Dóttir mín kemst ekki með tærnar þar sem þú hefur hælana og kann hún MJÖG vel við skó af öllum tegundum. Annars er vinkona mín ein.... ef ekki tvær svona svakalega skóglaðar.
Ég á nákvæmlega 5 pör af skóm, enga háhælaða og tvö af þessum pörum eru annars vegar inniskór og hins vegar sandalar.
Það kom einu sinni upp getgáta meðal vinkvenna minna að háir hælar væru einskonar tæki til að láta konuna virðast meira veikburða. Hælarnir gera þeim erfitt um gang, sem og þröngar tærnar. Það má kannski helst bera þetta saman við hina kínversku liljufætur sem voru auðvitað ævilöng eyðilegging á fótum stúlkna og kvenna þar fyrir austan.
Í ofanálag má nefna ýmiskonar aðhaldsbúnað, enda þótti með ólíkindum kvenlegt og aðlaðandi að konur féllu í yfirlið af súrefnisskorti þegar korsettin tröllriðu tískusamfélaginu.
Konan fer í óþægileg föt til þess að vera aðlaðandi, og karlinum þykir hjálparþurfi og aum kona til að vernda upplögð til mökunar, enda á konan ekkert að vera að hlaupa eitt né neitt, bara húka heima og unga út krógum og elda mat. Og vera sexý á meðan. (þetta gæti svosem allt verið endemis þvættingur, en mér finnst þessi kenning áhugaverð)
Sjálf fer ég sjaldan á háa hæla, ég get allavega talið skiptin sem ég hef gert það á minni stuttu ævi á höndum annarrar.
Yndislegt þegar konur reyna að kenna karlmönnum um það að þær vilja vera kynæsandi.
Staðreyndin er sú að bæði konur og karlar velja þann mest kynæsandi einstakling af hinu kyninu og reyna að ná tökum á honum. Munurinn á kynjunum er svo falinn í því að kvenmenn keppa við hvora aðra eins og það sé bara einn karlmaður eftir í heiminum, meðan við karlarnir tökum þessu öllu ógurlega rólega bara.
Það er því YKKUR að kenna ef þið eruð í einhverju óþægilegu, því það eruð ÞIÐ sem keppist við að vera sexý.
Æji, óttalega eruð þið viðkvæmir fyrir gagnrýni, greyjin. Það má ekkert segja og þá erum VIÐ KONURNAR sem hópur farnar að gera stórfelldar tilraunir til að sverta annars beinhvít mannorð ykkar og allt fer á háaloft í vörn.
Ég er aðvitað ekki rétta manneskjan til að vera að kafa í þessum málum; eins og ég sagði í fyrra innleggi er ég ekki týpan til þess að fara að ómaka mig eitthvað um of og ganga í óþægilegum fötum til að heilla einhverja karlfauska. Mér virðist hafa gengið alveg ágætlega vel með í þeim málum hingað til vopnuð fáu öðru en þægindunum og brosi. [blikkar Jarma samsærislega]
Lastu kannski ekki það sem þú skrifaðir fyrir ofan mig?
Og ennfremur; lastu ekki heldur það sem ég skrifaði?
En sért þú nógu sniðug til að láta ekki blekkja þig í óþægindi og vesen, þá þarftu ekkert að taka þetta til þín sem ég skrifaði. Tjah, nema þú haldir að HINAR stelpurnar gangi í þessu því að "við" séum að heimta það.