— GESTAPÓ —
Júlíus prófeti
Óbreyttur gestur með  ritstíflu.
Dagbók - 6/12/04
Að agnúast í núinu - Bitur gamalmenni

Í talsverðan tíma, allt frá því að ég skráði mig á nýtt og endurbætt Gestapó fyrir nærri tveimur árum, hef ég sleppt því alfarið að rita félagsrit. Af hverju þetta stafar hef ég raunar aðeins óljósan grun, en hann er að hingað til hafi ég fátt haft að segja sem hafi átt erindi í félagsrit. Annars hef ég líka stillt innleggjafjölda í hóf, en það er nú sennilega ekki af sömu ástæðum, enda innlegg mín ekkert átakanlega vitræn.<br /> <br /> Nú tel ég aftur á móti að kominn sé tími á eins og eitt félagsrit.

Það var í dag, hvar ég sat úti í garði og las Morgunblaðið, að ég gerði mér grein fyrir því að ég hef það raunar ekki að markmiði að verða biturt og leitt gamalmenni. Samt virðist ég stefna hratt og örugglega að þeim örlögum. Það skal tekið fram að ekki var mikið um bitur gamalmenni í blaðinu, né heldur gekk eitt einasta framhjá.

Ég gerði mér grein fyrir því að haldi ég áfram á þeirri braut sem ég feta nú, mun ég líklega verða þetta bitra gamalmenni sem ég skrifa samt svo lítið um.

Þeir ósiðir sem ég hef í gegnum árið tamið mér eru vel til þess fallnir að valda mér eftirsjá og biturleika í ellinni. Þar sem að ég geri mér grein fyrir þessum ósiðum og löstum nú, er ekki seinna vænna að losa sig við þá. Þessir lestir eru enda ekki átakanlega ávanabindandi.

Ég veit það mæta vel að ég vil ekki standa eftir að kvöldi dags í þess lags þungum þönkum.

Svo margt sem við gerum umhugsunarlaust í núinu getur nefnilega plagað okkur þegar fram í sækir.

Þar af leiðandi hef ég ákveðið að skilja einhverja af þessum ósiðum eftir í dag, ég get þá alltaf nálgast þá á þessari dagsetningu ef ég finn mig tilknúinn til þess að taka þá upp aftur.

Ég hef ákveðið að hætta að láta ómerkilega og smávægilega hluti fara í taugarnar á mér, og takast á við þá með öðru og jákvæðara viðhorfi en hingað til. Það getur einfaldlega ekki staðist að þetta séu allt fífl í kringum mig. Ég hlýt að geta sýnt aðeins meiri viðleitni.

Síðan hef ég líka ákveðið að ég verði að hætta að naga neglurnar. Blóðið á Mogganum var farið að vera ansi truflandi. Það var m.ö.o. svo truflandi að ég fór að rita félagsrit.

Reykingar bíða betri tíma.

   (2 af 2)  
6/12/04 07:02

Gísli Eiríkur og Helgi

Gangi þér vel vinur.

6/12/04 01:01

Texi Everto

Takk fyrir það. Gott rit.
Annars skaltu fara varlega þegar umræðan berst að fíflum, fífl hljóta nefnilega að vera bísna klár - 6 milljarðar fífla geta varla haft rangt fyrir sér?

6/12/04 01:02

Limbri

Skelfilega fínt félagsrit. Demantur í grjóti.

Ég vona að þú verðir ekki bitur út í sjálfan þig varðandi að það að sjá fram á að verða biturt gamalmenni.

Ég stefni hinsvegar ótrauður á að hafa svokallaðan "butler" (ef mér leyfist að sletta einu sinni, mér datt ekkert íslenskt orð í hug sem lýsir þessu hugtaki nógu vel) þegar ég verð gamalmenni.

Mikið hlakka ég til ellinar.

-

6/12/04 02:00

Júlíus prófeti

Þakka þér hlý orð Limbri. Bryti hefur mér alltaf fundist grípa þetta ágætlega, en eftilvill skjátlast mér.

6/12/04 02:00

Rasspabbi

Bara ekki tapa gleðinni, það er lykilatriði.
SKÁL!

6/12/04 02:01

Limbri

Bryti er afbragðs orð. Ég hef nú oft notað það orð en virðist gleyma því á stundum. Það er eins og tengingin milli bryta og Englands sé of sterk og enska orðið sé fast.

-

Júlíus prófeti:
  • Fæðing hér: 4/9/03 11:41
  • Síðast á ferli: 6/2/23 21:29
  • Innlegg: 12
Eðli:
Umdeildur.
Fræðasvið:
Spá/smádómar hverskyns, gullgerðarlist
Æviágrip:
Fæddur í Júdeu fyrir margt löngu, var á rölti þar í kring um margra ára skeið, man ekki hvort hann átti um tíma 30 silfurpeninga. Gaf þó um tíma út áhugaverðar bækur á skinni, en þær eru allar löngu orðnar að sokkaleistum eða hafa verið tuggnar. Sérlegur óvinur templara, sem átu einmitt flest bókmenntastórvirki hans.