— GESTAPÓ —
Í uppáhaldi:
Félagsrit:
Billi bilaði
Heiðursgestur og  sagnaþulur.
Gagnrýni - 1/11/05
Í tilefni þúsundasta innleggsins...

... þá er hér hugleiðing mín um nýyrði sem angra mig.

Ég Tugöldina tel nú standa
talsvert langan tíma.
En þúsöld vera fjárans fjanda
er fær mig til að svíma.

Ef þúsöldin er þúsund ár
þá ég illa skil?
Er hundöldin þá hundrað ár?
Hvernig vill það til?

Hvað er tugöld Tobbi minn?
Tíu árin löng?
Út úr því ég aldrei finn.
Er mín hugsun röng?

Þetta er nú þraut og pína,
þykkur er skallinn minn.
Vill nú eitthvert fólið fína
færa mér vísdóm sinn!

---

Fyrst að ég nú fór að bulla
fann ég annað mál.
Það getur verið gömul rulla;
gamalmennisprjál:

Enska tungan “Att” vill kalla
eðaltáknið sem
oft ég nota er vill spjalla,
og inn í tölvu lem.

Fræðingarnir feikna góðir
Finnst það vera “Hjá”.
En afar vorir, allir fróðir
um það myndu hvá.

Þeir bæjum sínum bjuggu “Að”,
en börnum og konu “Hjá”.
En hvort þið segið “Hvað með það?”
ég hvergi svara má.

Ykkar vísdóm vil ég kanna,
vænti ég mikils af.
Ísa? Gimlé? Anna Panna?
Ég ykkar þigg nú skraf.

   (95 af 101)  
1/11/05 07:02

Herbjörn Hafralóns

Til hamingju! 1000 innlegg á 40 dögum, það er nú all nokkuð.

1/11/05 07:02

Vladimir Fuckov

Sumir bjuggu bæjum á
bjuggu aðrir í.
Sjaldan áttu heima hjá
hjer má spyrja: Hví ?

Að lokum óskum vjer yður hjer með formlega til hamingju með innleggin 1000. Megi þau verða miklu fleiri. Skál !

1/11/05 07:02

Rattati

Vel mælt. Ég hef lengi barist fyrir því að orðskrípinu "hjá" væri útrýmt úr tölvutungutaki og "að" notað í staðinn. Gaman að sjá einhvern vera sammála.

1/11/05 07:02

krumpa

Til hamingju kæra krútt! Þú ert aldeilis afkastamikill nýliði! Tók mig marga mánuði á sínum tíma að ná þúsund innleggjum (og nú hefur þeim öllum verið eytt...)

1/11/05 01:00

Tigra

Til hamingju Billi!
Besti nýliðinn lengi held ég bara.
Það verður ver tekið vel á móti þér á árshátíðinni.

Vantar samt meira um mig í þessu ljóði.

1/11/05 01:00

Gísli Eiríkur og Helgi

Þú berð titilinn heiðursgestur með sóma. Einu sinni var ég það líka. ´Ritstjórninn svifti mig honum . ég næ nú aldrei slíkri tygn aftur. Til hamingju samt

1/11/05 01:00

Anna Panna

Já til hamingju, þetta var ótrúlega fljótt að koma hjá þér! Hvað málfarið varðar þá er ég auðvitað alltaf til í skraf og ráðagerðir! [Ljómar upp] Og mér finnst eiginlega vera kominn tími til að íslenska þetta „att” merki, í raun væri sniðugra að segja „að” upp á íslenskuna, framburðurinn er ekkert svo fjarri hinum enska og smáorðið byrjar á a, sem er einmitt stafatáknið í attmerkinu. Mjög sniðugt.

1/11/05 01:00

Skabbi skrumari

Vel af sér vikið og mikill meirihluti þessara innleggja er bara þónokkuð skemmtilegur og því ekki úr vegi að segja... Til hamingju... og Skál

1/11/05 01:00

Offari

Til hamingju Billi megiru vera hjá okkur í margar þúsaldir ó viðbót.

1/11/05 01:01

Amma-Kúreki

Slumm frá Ömmu ( til lukku )

1/11/05 01:01

B. Ewing

Ég er enn í ,,hjá" hópnum því að mér þykir orðið ,,að" passa verr inn en orðið ,,hjá"

Svo væri ekki úr vegi að reyna að koma upp nýju orði, einhverju sem gæti ráðið við þessi fallorð sem koma í ýmsum (misgáfulegum) útgáfum.

[Leggst í djúpa íhugun]

1/11/05 01:01

Gimlé

Forskeytið þús- þýðir x10 en ekki x1000. Þúsund er jú þús-hund, þ.e. hundraðx10. Þúsöld er öldx10.

Reyndar hefur sá er hér stýrir hnöppum aldrei kunnað að meta þetta nýyrði. En það er bara fordild því orðið er rétt myndað.

Varðandi att-ið. Mikið værum við nú vel sett ef hljóðbreytingin „bakstöðuveiklun“ hefði ekki orðið í íslensku. Þá væru orðin „ég“, „mig“, „hvað“ og „að“ (svo dæmi séu tekin) ennþá „ek“, „mik“, „hvat“ og „at“. Þá gætum við notað at-ið án vanda. En þessu er ekki að heilsa.
Nú væri nóg komið af bessewisseradóm vorum en úr því Billi var svo elskulegur að beina til vor spurningu þá munum vér nú enn trana voru flenni:
Oss er í raun slétt sama þótt merkið @ sé kallað „at“. Og að þarf ekkert að skrifa það með tvöföldum samhljóða fremur en „en“ eða „fram“. Þetta væri ekki verra nýyrði en hvað annað, þótt aðrir segi að forsetningar séu „lokaður orðflokkur“ gagnvart nýyrðum.

Vér getum líka vel fallist á að nota forsetningarnar „að“ eða „hjá“. Þetta teljum vér sem sagt litlu varða.

Hitt teljum mér miklu, miklu meiru varða og það er að forsetningarnar „að“ og „hjá“ stýra þágufalli. Dæmi: „enter hjá baggaluti.is“, „jardgong hjá speli.is“, „halldor hjá ísafirdi.is“.

Það sér hver maður að þetta getur valdið misskilningi. Því væri e.t.v. ekki úr vegi að taka orðið „at“ inn í málið sem löggilt nýyrði og láta það stýra nefnifalli. Þá geta málfræðingar gamnað sér við að deila um hvort orðið skuli kalla forsetningu eða eitthvað annað (þar eð forsetningar stýra aldrei nefnifalli).

Samantekt:
1: Hér er á ferðinni málvenja sem hefur fezt í sessi og raskar ekki málvitund manna.
2: Notkun eldri forsetninga raskar annað hvort beygingakerfinu (ef ekki er beygt) eða veldur misskilingi( ef beygt er).

-------
Nú ef þjóðin fellir sig ekki við þetta þá getum við auvitað sagt sem svo að skárra sé að sletta dönsku en ensku og kallað fyrirbærið snabel-a.

1/11/05 01:01

Jóakim Aðalönd

Til lukku Billi. Lærður pistill Gimlé.

1/11/05 01:01

Vladimir Fuckov

Varðandi hljóðstöðubreytingina „bakstöðuveiklun“ er Gimlje nefndi veltum vjer einu fyrir oss: Eru einhver fordæmi fyrir því að hún hafi verið látin ganga til baka eins og myndi gerast með því að taka upp orðið at um @ ? Alþekkt er að stundum eru gömul orð er komin voru úr notkun (a.m.k. að mestu) endurvakin, sbr. sími, böggur o.fl. En hvað með fornar myndir orða, þ.e. fyrir hljóðstöðubreytingar ?

1/11/05 01:01

Gimlé

Vladimir: Auðvitað er hægt að berja málbreytingu til baka, sbr. flámælið. Rétt er þó að nefna að það var ekki settur minni kraftur í að berja úr fólki linmæli og kv-framburð en það skilaði ekki miklum árgangri.

Því halda sumir að málbreyting verði að vera talin púkó of meginþorra fólks til að hægt sé að stöðva hana.

Hitt er svo enn verra að síðustu 30 árin hafa félagsleg viðhorf og aumingjadýrkunarsósíalismi tröllriðið samfélaginu. Einkum hefur þessi villutrú lagst þungt á málvísindi og uppeldisfræði.

Því er haldið fram að málstýring valdi aðeins sársauka og þjáningum þeirra sem fyrir henni verði. Þetta vesalings fólk skríði að lokum inn í skel, illa haldið af málótta og sálarskemmdum. Þess hafi baráttan gegn linmæli og hv-framburði tapazt.

En við, kæri Vlad, vitum að sósíalismus er bara atferlisröskun, einshvers konar bræðingur þess að ver dysfunctional og pervers. Við vitum á ástæða þess að það tókst ekki að berja þetta úr þjóðinni er bara sú að það var ekki barið nógu fast.

1/11/05 01:02

Jóakim Aðalönd

Ég lifði á Makkdónalds í þrjú ár og mér hefur sjaldan liðið betur en einmitt þá.

1/11/05 02:01

Golíat

Vel gert af önd, þe ef þú hefur ekki aðeins etið brauðið og meðlætið en fúlsað við borgaranum sjálfum.
En skemmtileg andsvör hér hjá hlutafélaginu, þó ég hefði kosið að þeir félagar kæmu sér upp villuleitarforriti til að forðast innsláttarvillurnar. Við þessir "droppátar" sem hættum eftir níunda bekk gerum þá kröfu til háskólamannanna þó hlutafélagavæddir séu, að frágangur sé þokkalega vandaður og prentvillur í lágmarki.
En til hamingju Billi, þú berð viðurnefnið greinilega með sóma.

1/11/05 14:01

Ísdrottningin

Táknið @ var notað hér áður fyrr í nótugerð kaupmanna sem tákn fyrir verð einnar einingar og var nefnt at á íslensku. Það hefur því aldrei heitið annað en at í mínum huga.

Billi bilaði:
  • Fæðing hér: 19/9/06 13:06
  • Síðast á ferli: 7/3/24 12:25
  • Innlegg: 27978
Eðli:
Ég er Billi bilaði,
í bragfræði var slyngur.
En skáldgáfunni skilaði
og skipti fyrir glingur.
Fræðasvið:
Harmleikir.
Æviágrip:
Fæddur 10.12.2003 úr grjóni.
Eigandi og aðalleikari í Leikhúsi Billa bilaði (sem nú er komið úr Skrumgleypinum).