— GESTAPÓ —
Regína
Heiðursgestur.
Pistlingur - 2/11/05
Börn og bragfræði.

Hann Pétur bóndi á kostakýr,
klára væna og fleiri dýr.
Teljum nú fallega fénaðinn
á fingrunum, segir stórbóndinn.

Einhvern vegin svona var fyrsta vísan í barnabók sem bræður mínir áttu þegar þeir voru litlir. Á hverri blaðsíðu var ein vísa um: Hest, tvær kýr, þrjá hunda o.s. frv., og glaðlegar myndir að sjálfsögðu. Ég las þessa bók síðan oft fyrir minn strák, og hann hafði gaman af. Ég held að það hafi ekki bara verið vegna þess að vísurnar voru um dýr, heldur líka vegna þess að það var lesið með hrynjandi, og það var rím. Það voru líka stuðlar og höfuðstafir. Ég finn bókina hvergi núna, en hún var þýdd man ég.

Ég velti því fyrir mér þá, og geri enn, hvernig á því stendur að hjá þessari þjóð sem státar af að halda lifandi fornri ljóðahefð sem aðrar þjóðir hafa gleymt skuli vera svo lítið um barnabækur í bundnu máli. Smábörn hafa gaman af vísum, og mér hefur virst að hjá öðrum þjóðum sé mjög algengt að gera barnabækur með rími, og það séu einmitt þær sem verða klassískar og eldast betur en a ðrar barnabækur.

Ég man ekki eftir öðrum en Þórarni Eldjárn sem hefur samið vísur sérstaklega fyrir börn. Jólasveinavísurnar hans Jóhannesar úr K tlum er hægt að lesa hálfan mánuð á ári. Vísnabókinni má ekki gleyma, og sem betur fer er enn verið að gefa hana út. En skyldi hún vera mikið lesin fyrir börn og af börnum í dag?

Mér hefur alltaf fundist vanta bækur með einföldum vísum sem lítil börn hafa gaman af. Ég er hrædd um að ein eða tvær kynslóðir hafi misst af að fá bragfræðina í æð í uppvextinum af þessum sökum.

Strákurinn minn fór að böggla saman vísum á menntaskólaárunum, líklega sá eini í fjölmennum skóla. Ég hef velt því fyrir mér hvort Pétur bóndi og vísurnar um dýrin hans séu hvatinn af því, vísur sem voru lesnar fyrir hann áður en hann fór sjálfur að lesa.

Það væri frábært ef einhver gæfi út litla myndskreytta bók með góðum einföldum ferskeytlum sem væri hægt að lesa fyrir smábörn. En það væri vandaverk. Kannske er það þess vegna sem það hefur ekki verið gert.

   (21 af 23)  
2/11/05 20:01

Billi bilaði

Ekki gleyma Páli J. Árdal, „En hvað það var skrýtið“.
Það var sko góð bók.

2/11/05 20:01

Carrie

Vísnabókin er vinsælasta bókin á mínu heimili ásamt bók um dýr. Dóttir mín kann orðið vísnabókina utanaf svo ekki örvænta mín kæra Regína - enn er von. En ég er sammála þér um að gefa mætti út fleiri vísnakver handa börnum.

2/11/05 20:01

Heiðglyrnir

Hjartanlega sammála...hér má gera betur

2/11/05 20:01

Billi bilaði

Svo var endurútgefin fyrir fáum árum bók um einhverja dverga þar sem ein vísa er á hverri síðu sem hægt að er að syngja við lagið „Það var kátt hérna um laugardagskvöldið á Gili“.

2/11/05 20:01

Billi bilaði

Og svo auðvitað vísnabókin hans Stefáns Jónssonar „Segðu það börnum“ (ef ég man rétt), með Guttavísum, Aravísum, og öllu því eðal efni.

2/11/05 20:01

Regína

Já Billi. Ég þóttist viss um að ég hefði gleymt einhverju. Samt finnst mér vanta eitthvað nýrra fyrir t.d. 3-6 ára börn.
Frábært Carrie. Það eru alltaf foreldrarnir sem bera ábyrgðina á hvað er lesið fyrir börnin.

2/11/05 21:00

krossgata

Það var farið með ljóð og vísur fyrir mig. Mamma og amma báðar hagyrtar og afi þegar vel lá á honum. Þetta hefur svo verið gert áfram ættliðina. Börnin böggluðust við ljóðagerð fyrir skólavist, en hættu því algerlega þegar þau byrjuðu í skóla. [Hugsandi] En ég er alveg klár á því að fyrst og síðast er það kennt heima að meta ljóð, vísur og söng. Ég deili svo með ykkur vísu sem amma kenndi mér... eftir Stein minnir mig en staðfærð af ömmu:

Andskotinn í helvítinu hóar,
hinu megin við Kald.. snjóar.
Stelpurnar á koppana kúka,
klóra sína lúsugu búka.

2/11/05 21:00

Jóakim Aðalönd

Þetta er satt og rétt hjá þér Regína. Ég vil líka nefna að ef lesið er fyrir börn frá unga aldri, alveg fram að þeim tíma þegar allt sem foreldrarnir gera er ömurlegt, verður málvitund þeirra talsvert betri en ella. Ég man að pabbi minn las fyrir mig fornaldarsögur Norðurlanda þangað til ég var orðinn 11 ára og það hefur haft mikil áhrif á mig og mitt málfar.

Skál!

2/11/05 23:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Gleðileg jól mín kæra

1/12/06 02:00

hvurslags

Já mikið tek ég undir þetta félagsrit. Óðflugan var lesin spjaldanna á milli sem fékk mann til að lesa Disneyrímur og fleira. Ekki má svo gleyma Max og Móritz í þýðingu pabba hans, Kristjáns, né vísurnar um Bakkabræður sem einnig var skemmtilegt að lesa(og er enn!)

Regína:
  • Fæðing hér: 17/9/06 15:56
  • Síðast á ferli: 11/3/24 15:28
  • Innlegg: 25218
Eðli:
Hlédræg, hógvær, hlýleg og virðuleg. Elskuleg kona sem man tímana tvenna, eða þrenna.
Fræðasvið:
Hallarblæti, teningaþvætti, nýliðaþjálfun.
Æviágrip:
Þið getið lesið minningargreinarnar ef þið lifið lengur en ég.
Þangað til skuluð þið bara fylgjast með.