— GESTAPÓ —
Regína
Heiðursgestur.
Dagbók - 1/11/05
Að taka þátt, eða bara lesa.

Ég er búin að vera aðdáandi Baggalúts síðan fyrsta veturinn sem hann var á netinu. Einhver hlýtur að hafa bent mér á þessar sniðugu fréttir, allavega var hægt að villast þangað gegnum link á leit.is. Ég skoðaði síðuna í krók og kring, skemmti mér yfir ágripum af nýútgefnum bókum og mörgu fleiru, uppgötvaði svo gestapóið og dáðist af hvað margar fyrirspurnirnar voru sniðugar, og ekki síst svörin. Sálmabókinni, eða hvað hún nú hét þá, hafði ég minni áhuga á.
Veturinn eftir var komið þetta kerfi sem er núna minnir mig. Á tímabili las ég vert einasta orð, elti hvern þráð, heimsótti síðuna næstum daglega, og skemmti mér konunglega yfir þessari vönduðu og gáfulegu vitleysu sem réði ríkjum. Innskráðir virtust mér vera svakalega klárir náungar sem ég leit mjög upp til. Ekki hvarflaði að mér að skrá mig þá.
Kveðskaparþræðirnir komust á tímabili í mikið uppáhald, ég las hverja einustu vísu, áttaði mig á hverjir væru verulega góðir hagyrðingar, og hverjir væru síðri, jafnvel ekki með bragfræði á hreinu eða með tilfinningu fyrir hrynjandi.

Síðan hefur Baggalút hægt og hægt farið aftur. Það var ekki fyrr en í fyrravetur sem það hvarflaði að mér að meðalvitsmunastig virkra þátttakenda væri farið að nálgast mitt eigið, og því hugsanlegt að ég gæti fallið inn í hópinn.
Svo lét ég verða af því í haust að skrá mig inn, og skil nú hvernig hægt er að verða alveg ánetjaður. Byrjaði hægt, fann bara ómögulega mynd fyrst, en er nú með dásamlega mynd af alvöru konu. Hún er, þrátt fyrir að hafa framfleytt sér með því að giftast valdamiklum mönnum, engin fótósjoppuð stífmáluð leikkona að þykjast vera önnur en hún er. Verst að ásjóna hennar virðist gera suma dálitið lina í hnjánum, en það er nokkuð sem ég þekki ekki úr raunheimum. Kann ekki alveg á það.
Nú er ég sjálf farin að reyna að gera vísur og finnst ótrúlega snúið að koma orðunum í rétt bragfræðilegt form, án þess að þetta verði stirðbusalegt, eða merkingarlaust rugl eða jafnvel hvorttveggja.
Svo kemur í ljós hvað ég endist hérna lengi, ég hef í gegnum tíðina oft misst áhugann um lengri eða skemmri tíma án þess að gleyma Lútnum alveg.

   (23 af 23)  
1/11/05 03:01

Billi bilaði

Endilega halda áfram. Sérstaklega á Skáldskaparmálum.

1/11/05 03:01

Anna Panna

Til hamingju með Bagglýska vegabréfið þitt! Ætlarðu ekki að skrá þig á árshátíðina?!

1/11/05 03:01

Vladimir Fuckov

Vjer bjóðum yður hjer með formlega velkomna, byrjun yðar lofar góðu og því vonum vjer að þjer endist hjer áfram.

Vjer erum þó afar hugsi yfir eftirfarandi orðum yðar: Síðan hefur Baggalút hægt og hægt farið aftur. Það var ekki fyrr en í fyrravetur sem það hvarflaði að mér að meðalvitsmunastig virkra þátttakenda væri farið að nálgast mitt eigið, og því hugsanlegt að ég gæti fallið inn í hópinn. Er ekki hugsanlegt að það sje frekar vitsmunastig yðar sem hafi hækkað verulega við að fylgjast með umræðunum hjer ? [Ljómar upp]

1/11/05 03:01

Regína

Takk.
Með árshátíðina: Kem örugglega ekki í matinn, kannski hugsanlega eftir hann, og stoppa þá stutt og verð stillt. Er einhver tilgangur með því?
Vitsmunastig, hmm. Nei, þetta er rétt hjá mér. En þökk sé þér kæri hr Fuckov, þá hefur vitsmunastiginu ekki hrakað of mikið.

1/11/05 03:01

Offari

Velkomin Regína. Kosturinn við lútinn er fjölbreytnin hér ættu allir að geta fundið eitthvað sem þeim líkar. Menn eru hér mis virkir þó svo að mér finnist flestir hér vera frekakar lítið virkir þá er það ekkert marktækt því flestum finnst ég vera ofvirkur hér.

1/11/05 03:01

Skabbi skrumari

[gerist paranoid] Er fólk í alvöru að fylgjast með okkur, sem eru ekki Gestapóar... [fær sér Ákavíti til að róa taugarnar]

Velkomin... Skál

1/11/05 03:01

Jóakim Aðalönd

Velkomin til Baggalútíu, elsku Regína. Megi fara vel um þig í alla staði. Vertu bara dugleg að skella í þig ákavíti og þá fer allt vel.

1/11/05 03:01

B. Ewing

Gestapó verður aldrei betra en fólkið sem leggur hér til málanna. Þannig má til sanns vegar færa að hér vantar nokkra gamalgróna Gestapóa sem hafa sett mark sitt á Lútinn með skrifum sínum.

Með hverjum nýliða kemur inn nýtt blóð, nýr andi sem þarf að fella að fyrirliggjandi umhverfi og staðháttum. Róni sem yrði settur í forstjórastól og forstjóri sem yrði gerður að róna reyna að halda áfram sínu hátterni þrátt fyrir breytt ytra umhverfi (sjá myndina Trading Places). Þannig tognar og teygist á Gestapóinu, bragníðingar læra að setja saman snilldarlegar vísur, sögusmettur læra að skrifa ábyrg félagsrit, íslenskuslettarar læra kjarnyrta íslensku o.s.frv.
Þeir sem ekki falla að forminu hætta að mæta, aðrir staldra við lengur og setjast jafnvel að. Ef útaf bregður þá taka flestir sem betur fer vel í athugasemdir og leiðbeiningar gæsluliða og sjóaðra Gestapóa þegar þess hefur talist þörf.

1/11/05 03:01

Jóakim Aðalönd

Gæti ekki orðað þetta betur en B.

1/11/05 03:01

Gísli Eiríkur og Helgi

Kondu Sæl Regína

1/11/05 03:01

Hexia de Trix

Velkomin Regína, þú átt örugglega eftir að endast betur en margir aðrir.

Svo tek ég að einu og öllu undir orð Búbbans.

1/11/05 03:01

Herbjörn Hafralóns

Velkomin Regína. Ég held að við séum ekkert svo vitlaus, sem höngum hér lon og don.

1/11/05 03:01

Regína

Þakka góð orð.
Nei, auðvitað erum við ekki svo vitlaus.

1/11/05 04:01

Lopi

Vertu velkomin Regína. [Hneygir sig og rétti fram prjóna og kashmir ull.]

1/11/05 04:01

Hakuchi

Komdu sæl og blessuð Regína og vertu hjartanlega velkomin.

Það er sannarlega athyglisvert að sjá hér manneskju sem hefur fylgst með þessu svæði frá upphafi án þess að taka þátt. Ég get ekki varist því að vera á sama máli hvað varðar þína upplifun á þróun Gestapósins.

Miðað við vandað málfar og prýðilega framkomu hefur þá átt erindi á Gestapó frá fyrstu tíð.

Megir þú njóta verunnar hér um ókomna tíð.

Regína:
  • Fæðing hér: 17/9/06 15:56
  • Síðast á ferli: 11/3/24 15:28
  • Innlegg: 25218
Eðli:
Hlédræg, hógvær, hlýleg og virðuleg. Elskuleg kona sem man tímana tvenna, eða þrenna.
Fræðasvið:
Hallarblæti, teningaþvætti, nýliðaþjálfun.
Æviágrip:
Þið getið lesið minningargreinarnar ef þið lifið lengur en ég.
Þangað til skuluð þið bara fylgjast með.